Er enn pabbahelgi?

Stórkostlegar breytingar hafa orðið á umgengni barna við foreldra sína eftir skilnað þeirra. Áður fyrr var það venja að barn fór aðeins aðra hvora helgi til annars foreldrisins (vanalega föðurins) en í dag hefur það aukist til muna að börn skipta tíma sínum jafnt á milli foreldra sinna. Ég held að allir geti sammælst um það að það er barninu til hins betra að þekkja foreldra sína til jafns. Því miður hefur hið opinbera verið á eftir í þessarri byltingu.

Hugsanlega er von handan við hornið því starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins hefur skilað af sér skýrslu um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum. Starfshópurinn var stofnaður í framhaldi af þingsályktun frá 2014, þar sem markmið hópsins er lýst „að útfæra leiðir til að eyða þeim aðstöðumun sem er á heimilum þegar foreldrar sem búa ekki saman ákveða að ala börn sín upp á tveimur heimilum. Í því skyni taki hópurinn meðal annars afstöðu til þess hvort taka skuli upp kerfi sem heimilar börnum að hafa tvöfalt lögheimili eða hvort annað fyrirkomulag jafnrar búsetu henti betur.“

Ef breytingar á lögum ganga eftir mun þetta vonandi hafa í för með sér mjög jákvæðar breytingar fyrir fjölskyldur sem hafa 50/50 fyrirkomulag. En eftir að hafa rennt í gegnum skýrslu hópsins kemst maður að því að þó að maður upplifi að jafnrétti sé að verða náð en ríkið sé bara aðeins á eftir og þurfi að bæta sig og þá verði allt fullkomið þá er það ekki alveg svo.

„Þrátt fyrir að sameiginleg forsjá sé orðin meginreglan í dag og um 90% foreldra velji sameiginlega forsjá eftir skilnað eða sambúðarslit hefur tilhögun á búsetu barna tekið litlum sem engum breytingum. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar voru 91% barna með lögheimili hjá móður árið 2015, samanborið við 93% árið 1998. Virðist búseta barna því hafa tekið litlum breytingum, borið saman við þróun á forsjá.“

Hvers vegna er það? Hvers vegna er einhvern veginn meira sjálfgefið að lögheimili barns sé hjá móður frekar en föður þegar um sameiginlega forsjá er að ræða? Það eru vissir hlutir sem fylgja því að vera með lögheimili barns, þú hefur meiri rétt til að taka ákvarðanir fyrir barnið þitt.

„Aðstöðumunur foreldranna væri þó nokkur, t.a.m. hefði það foreldri sem barnið á lögheimili hjá, lögheimilisforeldrið, töluvert meira að segja um hagi barns en hitt foreldrið, það þægi einnig margvíslegan fjárstuðning á meðan hitt foreldrið nyti ekki sams konar réttar og félagslegrar aðstoðar. Þá væru ýmsar stofnanalegar og félagslegar hindranir til staðar sem gerðu því foreldri sem barn ætti ekki lögheimili hjá erfiðara fyrir en hinu að sinna skyldum sínum gagnvart barninu. Nefndin benti á að forsendur þess að hægt væri að leggja fram tillögur að breyttu lagaumhverfi væri að kannað væri ítarlega á hvaða sviðum um aðstöðumun væri að ræða og í hverju hann fælist.“

Einhverjum kann að þykja þetta óþarfa nöldur í pistlahöfundi, það er 90% foreldra sem velja sameiginlega forsjá, hvað vill pistlahöfundur eiginlega?

Ég hef þá kenningu að jafnrétti verði ekki náð í launamálum, hlutfalli kynjanna í ábyrgðastöðum og á fleiri vígstöðum verði ekki náð fyrr en það ríkir fullkomið jafnrétti á heimilinu og það þýðir að feður fái jafnan rétt á við mæður. Ef móðir er er með lögheimili er hringt í hana vegna alls sem kemur fyrir í skóla, frístund eða einhverju öðru sem kemur nálægt barninu, hún þarf þá að bregðast við. Er ekki réttast að þessu sé skipt, þannig að feðurnir fái í alvöru að taka fullan þátt í uppeldinu. Ég veit að þetta kann að vera smávægilegt við fyrstu sýn en ég held að þetta sé ekki smávægilegt fyrir feðurnar, þeim sem vilja taka fullan þátt í uppeldi barna sinna.

Til að við náum jafnrétti þurfum við að sýna það á öllum vígstöðum, heima fyrir og í vinnunni. Ríkið þarf að gera það sem það getur til að laga aðstöðumun foreldra, og gera það mögulegt að skrá tvöfalt lögheimili.

Það er 2015 við eigum að vera löngu komin hingað.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.