Hæstiréttur á hálum ís

Það er sem betur fer ekki á hverjum degi sem vinir manns eru dæmdir í fangelsi. Það gerðist þó fyrir rúmri viku þegar Hæstiréttur úrskurðaði í Ímon-málinu svokallaða. Þar sem mér er annt um hina dæmdu las ég dóminn, til að reyna að skilja af hverju ríkisvaldið ákvað að svipta þau frelsi. Við lesturinn er ekki hægt að verjast því að ugg setji að manni. Til þess að koma sakborningunum í fangelsi þurfti Hæstiréttur, að mínu mati að teygja sig ansi langt—svo langt að spurningar hljóta að vakna um hvort rétturinn hafi ákveðið að hætta að standa vörð um réttarríkið, en einblína þess í stað á að uppfylla einhvers konar réttlætis- eða hefndarþorsta í samfélaginu.

Áður en lengra er haldið skal það kyrfilega undirstrikað, viðurkennt og áréttað að ég er vinur eins af þeim sem dæmdir voru, Sigurjóns Árnasonar—og er bæði stoltur af og þakklátur fyrir þá vináttu. Mér finnst hann hafa nú þegar tekið út umtalsverða refsingu fyrir að hafa staðið við stjórnvöl Landsbankans þegar bankahrunið átti sér stað.

Og ekki vil ég fyrir nokkra muni draga fjöður yfir þá staðreynd að ég var sjálfur starfsmaður í Landsbankanum, og sinnti þar markaðsstarfi fyrir hina alræmdu innlánareikninga Icesave. Ekki mun ég álasa fólki fyrir að afskrifa skoðanir mínar á dóminum fyrir þessar sakir. Það þarf þá ekki að lesa lengra.

Þar sem ég þekki til þeirra sem dæmdir voru, tel ég mig vita fyrir víst, að þau hafi í störfum sínum ekki haft nokkuð annað að leiðarljósi en að bjarga þeim verðmætum sem í húfi voru þegar fjármálaóveðrið brast á haustið 2008. Samt sem áður hefur mér ekki þótt það óhugsandi að stjórnendur Landsbankans hefðu, í einhverjum örvæntingarfullum tilraunum til þess að bjarga því sem bjargað verð, aðhafst eitthvað sem viljugur dómstóll gæti dæmt þau fyrir. Kraðakið í kringum hrunið var ekkert venjulegt ástand og kallaði á hraðar ákvarðanir í þykkri stríðsþoku einnar mestu fjármálakrísu sögunnar. Það þarf ekki að koma neinum á óvart, að einhverjar af þeim ákvörðunum kynnu að verða umdeildar—jafnvel augljóslega rangar.

Stemmning fyrir refsingum

Frá falli bankanna hefur gríðarlega vinna átt sér stað við að leita leiða til þess að refsa þeim sem stjórnuðu þeim. Sums staðar á Íslandi er það sagt með stolti að við höfum fangelsað bankamennina okkar, dæmt forsætisráðherrann og skrifað nýja stjórnarskrá á hugarflugsfundi í sundi. Það er því óhætt að segja að það hefði verið ákveðinn stemmningsbrjótur að sýkna hina ákærðu í Ímon-málinu.

Hæstiréttur brást ekki þessari stemmningu, heldur snéri við sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Sigurjón fær þrjú og hálft ár í fangelsi, dæmdur fyrir umboðssvik.

Það er ekki endilega víst að margir nenni að setja sig almennilega inn í smáatriðin á bak við þennan dóm. Flestum nægir að vita að menn hafi verið dæmdir í fangelsi, og ekki er ósennilegt að mörgum finnist það hljóta bara að vera sanngjarn—að einhverju kosmísku réttlæti sé fullnægt. En málið er vitaskuld ekki svo einfalt. Og þeir sem nenna að setja sig inn í smáatriðin hljóta að verða býsna hugsi yfir þeirri þróun sem dómurinn er til marks um.

Í hegningarlögum er fjallað um flesta þá glæpi sem ríkisvaldið telur að refsa þurfi fyrir með fangelsisdómi. Þar á meðal eru svokölluð auðgunarbrot—sem í almennu tali eru einfaldlega þjófnaður. Í lögunum er fjallað um ýmsar tegundir af þjófnaði, þar á meðal það sem kallast umboðssvik. Í almennu tali má segja að umboðssvik eigi sér stað þegar einhver notar aðstöðu sína til þess að stela, annað hvort handa sjálfum sér eða öðrum. Fyrir þetta var dæmt í Ímon-málinu.

Auðvitað eru lög aldrei svo skýr að ekki sé hægt að deila um inntak þeirra og þýðingu. Þó er sumt í ákvæðunum um auðgunarbrot frekar skýrt. Þar stendur til dæmis eftirfarandi fortakslausa skilyrði: „Fyrir brot þau, er í þessum kafla getur, skal því aðeins refsa, að þau hafi verið framin í auðgunarskyni.“

Dómstóll þarf því að komast að þeirri niðurstöðu að umboðssvik hafi verið framin, og að þau hafi verið framin í auðgunarskyni, til þess að heimilt sé að refsa fyrir þau.

Í Ímon-málinu tekst Hæstarétti hvorki að sýna fram á að sakborningar hafi farið út fyrir, eða misbeitt, umboði sínu né að háttsemi þeirra hafi verið í auðgunarskyni. Það þarf í raun ekki annað en að vísa til dómsins sjálfs til að komast að þeirri niðurstöðu.

Umboð Sigurjóns og Elínar var skilgreint í útlánareglum Landsbankans og lánveitingin brýtur ekki í bága við þær. Það er óumdeilt.

Í fangelsi fyrir óskráðar reglur

Hæstiréttur leggur hins vegar í langt ferðalag til þess að rökstyðja þá skoðun sína að ákvörðun þeirra í lánveitingunni hafi verið svo galin, miðað við aðstæður, að þau hafi í brotið „óskráðar reglur“ og farið á svig við almennar trúnaðarskyldur sínar. Rökstuðningur Hæstaréttar fyrir þessu er samansafn af eftiráspeki, umvöndunum og stælóttu orðalagi þar sem hvorki er sýndur skilningur á starfi bankans né vottur af samúð fyrir þeim aðstæðum sem uppi voru. Vandvirkur dómstóll, sem telur sér stætt að dæma fólk eftir „óskráðum reglum“ eða almennum trúnaðarskyldum, hefði vitaskuld gert tilraun til þess að útskýra þessar óskráðu reglur og leggja nothæfa mælistiku á trúnaðarskylduna. Þetta er ekki gert í þessum dómi.

Það er fjári hart að vera dæmdur fyrir að brjóta óskráðar reglur, og fá svo ekki einu sinni að vita hverjar þær voru? Að vera dæmdur til fangelsisvistar en fá ekki einu sinni vísbendingu um það hvað það var sem maður gerði rangt. Þetta hlýtur að misbjóða rétttlætiskenndinni í fleirum en mér.

Rangtúlkun Hæstaréttar

En það er ekki nóg fyrir Hæstarétt að sýna fram á að sakborningarnir hafi svikið umboð sitt. Það þarf líka að sýna fram á ásetning—og ekki bara ásetning, heldur tiltekinn ásetning.

Og hér kemur að atriði sem er ekki síður alvarlegt í réttarframkvæmd Hæstaréttar, sem er túlkun hans á umboðssvikaákvæðinu yfir höfuð.

Ef við segjum sem svo að Hæstarétti hafi tekist að sýna fram á að ákvarðanir bankastjórnenda hefðu stangast á við starfsreglur bankanks og heimildir; þá er samt sem áður mjög vafasamt að hægt sé að dæma þá til fangelsisvistar—nema sýnt sé fram á að tilgangur brotsins hafi verið að stela peningum, fyrir sig eða aðra.

Hugtakið ásetningur er flóknari í lögfræði heldur en í daglegu tali. Þar er talað um mismunandi stig ásetnings—allt frá því að vera einbeittur ásetningur, eins og maður drepur mann að yfirlögðu ráði—og til þess að vera óviljaverk þar sem gerandinn hefði mátt gera sér grein fyrir afleiðingunum, eins og ef maður slær annan mann í slagsmálum og drepur, þótt það hafi verið víðsfjarri tilgangi höggsins. Þá er talað um svokallaðan líkindaásetning.

Hvað varðar auðgunarbrot hefur töluvert verið fjallað um það hvernig skilgreina eigi stig ásetnings í umboðssvikamálum. Helsti lögspekingur Íslands í refsirétti, Jónatan Þórmundsson, hefur til að mynda fjallað á mjög sannfærandi hátt um að í umboðssvikamálum þurfi ekki endilega að eiga sér stað tilflutningur á verðmætum (þjófnaður) til þess að ásetningur sé sannaður. Í slíkum málum er líka hægt að dæma fólk fyrir að taka áhættu með fjármuni annarra í heimildarleysi—jafnvel þótt skaðinn verði enginn. Þetta er mjög rökrétt í mínum huga.

Hæstiréttur segir í dómi sínum í Ímon-málinu um ásetningin að það „[nægi] í því sambandi að sýnt sé fram á að háttsemin hafi valdið verulegri fjártjónshættu fyrir þann sem bundinn varð af henni.“

Nú ætla ég að ganga svo langt að segja að Hæstiréttur hafi algjörlega rangt fyrir sér og dæmt fólk í fangelsi á grundvelli rangtúlkunar.

Það er rétt og rökrétt að veruleg fjártjónshætta kann að duga til þess að uppfylla skilyrði ásetnings—en það dugir hins vegar engan veginn til þess að uppfylla kröfuna sem gerð er í lögunum um að ásetningurinn hafi verið „í auðgunarskyni.“

Og hvað heldur Hæstiréttur um huglæga afstöðu þeirra dæmdu hvað það varðar? Við getum bara spurt hann sjálfan, því hann segir orðrétt um þau Sigurjón og Elínu að hvorugt þeirra hafi verið „með brotunum að hygla sér eða öðrum sem þeim tengdust.“

Fyrir nokkrum árum fengu verjendur nokkurra bankamanna, sem voru kærðir (og sakfelldir) fyrir umboðssvik, álit dansks lagaprófessors á dóminum.
Það skiptir máli af því íslensku hegningarlögin eru tekin upp úr þeim dönsku. Sá danski sagði að í Danmörku hefðu mennirnir ekki verið dæmdir, þar sem ekki var hægt að sýna fram á að tilgangurinn með háttseminni hafi verið að auðgast.

Semsagt—Hæstiréttur hefur ákveðið að senda fólk í fangelsi fyrir að brjóta „óskráðar reglur“ og á grundvelli lagaákvæðis sem hann hefur líklega rangtúlkað. Í ofanálag virðist sem Hæstiréttur hafi í dómi sínum notast við röksemdir sem hinir ákærðu fengu aldrei tækifæri til þess að svara, enda var ekki fjallað um „óskráðar reglur“ í ákærunni eða í dómi héraðsdóms.

Áhrifin af þessum dómi Hæstaréttar geta náð langt út fyrir það þá einstaklinga sem dæmdir voru. Með dóminum er Hæstiréttur í raun að dæma fólk í fangelsi fyrir að hafa, að mati Hæstaréttar, gert mistök í starfi sínu. Þetta hlýtur að kalla á margföldun launa hjá stjórnendum fyrirtækja, sem nú geta ekki bara átt von á starfsmissi, orðsporstjóni og skaðabótamálum ef þeir gerast sekir um klúður—það er barasta hægt að stinga þeim í fangelsi ef Hæstiréttur telur sig vita betur hvað hefði átt að gera sjö árum eftir atburðinn.

Að dæma eftir lögum

Að öllu þessu sögðu er auðvitað ljóst að Hæstarétti er vandi á höndum þegar kemur að úrlausnum flókinna mála sem þessara. Hér á landi er réttarríkið grundvallað á svokölluðum lögbókarrétti. Það þýðir á sem einföldustu máli að lög þurfa almennt að vera skráð svo hægt sé að dæma eftir þeim. Sums staðar hafa dómarar meira svigrúm til þess að beita öðrum röksemdum og móta leikreglur samfélagsins með því að bregðast við í deiluefnum og setja fordæmi. Þetta gildir vitaskuld að einhverju leyti hér á landi líka, en í frekar takmörkuðum mæli.

Það getur verið gagnlegt fyrir réttarríkið að dómstólar geti sett fordæmi með hliðsjón af eðli mála, almennum reglum og viðmiðum. Slíkt getur meira að segja aukið réttaröryggi, frekar en að draga úr því. Með tíð og tíma þróast fyrirsjáanlegt réttarfar þar sem réttlæti og kröfur um réttarrríki fara saman.

Þetta er hins vegar mjög vandmeðfarið. Þegar dómstólar, til dæmis í Bandaríkjunum og dómstól Evrópusambandsins, dæma út frá slíkum reglum taka þeir mjög alvarlega það hlutverk sitt að leiða fram hinar „óskráðu reglur“ og skilgreina þær skilmerkilega. Öll skref dómsvaldsins í þessa átt þarf að stíga varlega, og á löngum tíma. Þetta reynir Hæstiréttur ekki að gera heldur er uppi nákvæmlega sama réttaróvissa og áður—ef ekki meiri.

Réttlæti og réttarríkið

Hæstiréttur er mikilvæg stofnun og alvarleg. Hann hefur ýmis hlutverk, en þó fyrst og fremst það sem getið er um í stjórnarskránni—að dæma eftir lögunum. Hann þarf ekki bara að sinna því hlutverki að fullnægja réttlætinu, hann þarf líka—og ekki síður—að standa vörð um réttarríkið; þær leikreglur sem setja ríkisvaldinu skorður við beitingu á ofbeldi og þvingunum. Í þessu máli—og, að því er virðist, ýmsum öðrum svokölluðum hrunsmálum—virðist Hæstiréttur hafa tekið sér það hlutverk að fullnægja refsiþorsta og réttlætiskennd, frekar en standa vörð um réttarríkið.

Stundum gerir gott fólk slæma hluti og stundum gerir fólk mistök sem varða við lög. Það er fullt af góðu fólki í fangelsum heimsins. Það er hins vegar lágmarkskrafa í réttarríki að fólk fái að verjast ásökunum og að dæmt sé eftir skýrum lögum og að þau séu ekki búin til eftirá. Þessi dómur stenst ekki kröfur réttarríkisins—og það er sorglegt til þess að vita að fólk skuli dæmt til fangelsisvistar á svona óskaplega hæpnum grunni og eiga sér engin önnur úrræði heldur en að bíða eftir að sagan dæmi þetta frumhlaup íslenska réttarríkisins gagnvart þeim.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.