Kynslóðin sem er skítsama um Staksteina

Flestir þeirra sem nú sitja á ráðherrastólum og starfa í íslenskum stjórnmálum eru af kynslóðinni sem stundum er kölluð X kynslóðin. X-ið hefur verið þarna af því að kynslóðin hefur ekki verið kennd við neitt sérstakt. Þessi kynslóð hefur hins vegar náð að marka sér þá sérstöðu í íslenskum stjórnmálum að vera kynslóðin sem mistókst að taka völdin.

Kynslóðin á undan, þessi sem vildi ekki láta völdin af hendi, er af sumum kölluð Baby boomers. Þetta er valdakynslóðin. Þið kannist kannski við týpuna, neitar að fara á eftirlaun og heldur að samfélagið fari á hliðina ef hún skrifar ekki í Moggann reglulega nú eða ef hún svíkur lesendahóp sinn um blogg eða leiðara.

Þessar týpur eru merkilegar. Gaman líka að tala um þær í kvenkyni því það þætti þeim líklega móðgun. Þær eru af allt öðrum skóla en þeir sem nú sitja á valdastólum, oft valdalitlir eða -lausir. Þær ólust upp í samfélagi þar sem jafnrétti var ekki í augsýn og valdabaráttan með tilheyrandi klækjum og hrekkjum var miskunnarlaus.

Kynslóðin sem mistókst að taka völdin ólst hins vegar upp við allt aðrar aðstæður. Útivinnandi mæður og allt að gerast.

Á meðan Bjarni Ben (f. 1970) hendir í Línu langsokk sykurmassaköku fyrir afmæli dóttur sinnar vita hinir þrír núlifandi fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins örugglega ekki hvað sykurmassi er hvað þá að þeir gætu búið til listaverk eins og það sem Bjarni skutlaði fram úr erminni á dögunum og birti á Facebook.

Kynslóðin sem mistókst að taka völdin hefur tiplað á tánum í kringum í valdamennina. Hún heldur um stýrið, vissulega, en það eru hrópin og köllin úr aftursætinu sem enn ráða för.

Förum svo eina kynslóð áfram. Y kynslóðin. Þið vitið, þessi sem ólst upp í gsm símum, tölvuleikjum og öllum ósómanum. Þessi sem gengur út á vinnumarkaðinn full af hugmyndum um að jafnrétti sé fullkomlega eðlilegur hlutur og hefur orðið 20 ára reynslu (í gegnum skólagöngu sína) á því að tækla einelti og rökræður.

Eftir um það bil 10 ár verður meirihluti vinnumarkaðarins af þessari kynslóð. Ég á ekki von á því að hún fái mikla viðspyrnu frá kynslóðinni á undan þegar hún hrifsar til sín völdin í samfélaginu og hún mun ekki pissa undir þó að einhver skrifi um hana Staksteina.

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)