Fjölhyggjan

Um daginn færði einhver mér fallega kókflösku sem á stóð: „Njóttu Coke með Pawel.“

Myndin tengist efni greinar nokkuð beint.
Myndin tengist efni greinar beint.

Einn kostur við  hinn frjálsa markað er það er innbyggt í hann fordómaleysi gagnvart peningum. Menn geta þannig spurt ráðherra og rifist í blöðum um það hvort það eigi að hafa pólskumælandi starfsmenn í Vinnumálastofnun, en þegar kemur þjónustu einkafyrirtækja þá þarf slíkt ekki. Ef nógu margir munu vilja versla við banka bara út af því að hann er með starfsmenn sem tala móðurmál þeirra þá mun einhver banki veita slíka þjónustu.

***

Ég labba reglulega fram hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Ekkert "njóttu tryggingabóta með Pawel" hér.
Ekkert „njóttu tryggingabóta með Pawel“ hér.

Tryggingastofnun ríkisins er líka með svona nafnaþema í skreytingum. En þar hafa hafa menn einungis einskorðað sig alvöru íslensk nöfn, eins og Ráðvarður, Per og Peter. Jæja, ég versla þá bara við Tryggingastofnun tvö.

***

Við búum í fjölhyggjusamfélagi. Við höfum margskonar flokka, margskonar fjölmiðla, margskonar fyrirtæki. Það er gott. Fjölhyggja er góð.

Fjölhyggja á sér samt heilmarga óvini. Helsti „andstæðingur“ fjölhyggjunnar er oftast einhvers konar áhyggja. Áhyggja þessi byrjar, oftar en ekki á orðunum: „Viljum við búa í þjóðfélagi þar sem…?“ Tökum dæmi.

Fjölhyggjan: Einkaaðilar eiga að fá að reka fjölmiðla.
Áhyggjan: Viljum við búa í samfélagi þar sem hinir ríkustu geta keypt sér jákvæða umfjöllun?

Fjölhyggjan: Einkaaðilar eiga að fá að mennta börn.
Áhyggjan: Viljum við að hinir ríkari fái betri menntun?

Fjölhyggjan: Einkaaðilar eiga að fá að lækna fólk.
Áhyggjan: Viljum við að hinir ríkari fái betri læknisþjónustu?

***

Það er engin ástæaða til að gera grín að þessum áhyggjum. Þær eru réttmætar. Það er vissulega fylgifiskur þess að allir geti átt og rekið fjölmiðla að ríkt fólk sem á fjölmiðla mun reyna hafa áhrif á það sem þessir fjölmiðlar segja um sig. Og það er auðvitað, eitt og sér, kannski ekki jákvæðasti fylgifiskur fjölhyggjunar. En þeir eru bara svo margir aðrir sem vega hann upp. (Það er til dæmis auðveldara að þagga í einum fjölmiðli en mörgum.)

Sama gildir um margar aðrar áhyggjur sem andstæðingar fjölhyggju bera upp. Þær geta oft verið sannfærandi. En þær réttlæta það ekki að mönnum sé með ofbeldi bannað að reka skóla, spítala, sjónvarpsstöð eða mjólkurbú. Og fylgikvillar fjölhyggjunnar eru nær alltaf smávægilegir samanborið við ókosti algerar einokunar á einhverju sviði.

***

Fjölhyggjan er ekki útópísk stefna. Þó einhverjir séu til dæmis ekki hrifnir af því að ríkið reki fjölmiðla þá er það alls ekki í mótsögn við fjölhyggju að ríkið geri það, svo lengi sem öðrum er ekki bannað að gera það. Menn geta verið fylgjandi opinberu skólakerfi, en líka fylgjandi því að aðrir reki skóla ef þeir hafa vilja og getu til.

***

Í Reykjavík eru starfandi búðir sem selja etnískan mat, helgarskólar sem kenna börnum erlend móðurmál, kirkjur sem messa á erlendum málum. Menn geta sett upp gervihnattadisk og fylgst með staðfærðri útgáfu af Kitchen Nightmares á sínu eigin móðurmáli. Á netinu geta menn lesið daglegar fréttir frá Íslandi gamla móðurmálinu. Allt þetta er fjölhyggjunni að þakka.

Stjórnmálamenn spyrja oft hvað þeir geti gert fyrir innflytjendur. Þeir geta gert ýmislegt. En umfram allt ættu þeir að lofa að gera er að berjast ekki gegn fjölhyggjunni. Heldur að njóta hennar. Njóta þess að til séu margskonar fjölmiðlar og margskonar búðir. Njóta þess að einhver vilji græða á fólki sem gleðst yfir því að sjá nafn sitt ritað á kókflösku.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.