Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun?

Með nokkurri einföldun má segja að til þess að nýsköpun blómstri þurfi hún hóp af kláru fólki, fjármagn og gott umhverfi.

Í kjölfar falls íslensku bankanna árið 2008 átti sér stað mikil umræða um framtíð íslenskrar atvinnuhátta. Eitt lykilþemað í þeirri rýni var þörfin fyrir aukinni nýsköpun og útflutning á hugviti. Ísland ætti að stofna sitt eigið Nokia og fylgja þannig fordæmi Finna frá því 1990.

Þessi fögru fyrirheit gleymdust þó furðu fljótt þegar ferðaþjónustan á Íslandi tók ævintýralegt vaxtaskeið á árunum 2011 til 2018 á meðan hugvitsgreinarnar áttu fremur rólega tíð.

Það væri þó ósanngjarnt að tala um að ekkert hefði gerst í málefnum hugvitsdrifinna útflutningsfyrirtækja á tímabilinu, en uppbygging fyrirtækja frá sprota í stöndugt alþjóðafyrirtæki tekur sinn tíma.

Það er næstum kennslubókardæmi um slíkt ferðalag nýsköpunarfyrirtækja að tvö fyrirtæki sem tóku þátt í samkeppninni Gullegginu 2009: Meniga og Controlant eru núna tólf árum seinna orðin öflug fyrirtæki sem gera ráð fyrir því að velta vel yfir milljarði á árinu 2021 en oft er talað um milljarðsveltu sem tilefni útskriftar úr flokki sprotafyrirtækja.

Frá því að þessi fyrirtæki voru stofnuð hefur fjöldi alþjóðlegra fjárfestinga á Íslandi margfaldast mælt í fjölda verkefna og nýir nýköpunarsjóðir spretta upp á hverju strái.

Einnig hafa komið fram vísbendingar um að erlendir sérfræðingar sjái nú Ísland sem vænlegan búsetuvalkost í krafti friðar og öryggis. Hugveitan Northstack sem sérhæfir sig í umfjöllun um frumkvöðla á Íslandi greindi frá því nýlega að 111 umsóknir hefðu borist frá aðilum utan EES svæðisins sem vilja vinna fjarvinnu á Íslandi – langflestir frá Bandaríkjunum. 

Með nokkurri einföldun má segja að til þess að nýsköpun blómstri þurfi hún hóp af kláru fólki, fjármagn og gott umhverfi. Hér hefur verið drepið á fyrstu tveimur atriðunum en það er líka mikilvægt að líta til umhverfisins.

Samkeppni framtíðarinnar er á milli borga frekar en landa og því mikilvægt að huga að því að búa til staðbundnar aðstæður á Íslandi sem standast alþjóðlegan samanburð.

Við þurfum alþjóðlega samkeppnishæfa þekkingarkjarna á Íslandi.

Hugmyndir um þekkingarkjarna eru ekki nýjar af nálinni. Það hefur lengi verið vitað að hugmyndir ferðast hraðar um styttri vegalengdir og verða, við ákveðin skilyrði, fljótandi í loftinu.

Fyrir nokkrum árum gaf Brookings stofnunin út skýrslu um það sem þau kölluðu uppgang nýsköpunarhverfisins (the rise of the innovation district) þar sem fjallað var um þá þróun að hagræn landamæri Bandaríkjanna væru að breytast. Eldra módelið var á þá leið að nýsköpunarfyrirtæki byggðu sér upp höfuðstöðvar í úthverfum borga með stórum bílaplönum.

Nýja módelið er að nýsköpunarfyrirtæki leita inn í ofangreind nýsköpunarhverfi þar sem nokkur kjölfestufyrirtæki og stofnanir hópast saman á svæði sem einkennast af þéttri gangbærri byggð, góðum fjölbreyttum samgöngum og góðu framboði af afþreyingu á borð við kaffihús og veitingastaði. Þessi svæði laða þá til sín fjölda annarra frumkvöðlafyrirtækja og þjónustufyrirtækja.

Nú í vor gerði Reykjavíkurborg samning við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Landspítala um að þróa vísindaþorp í Vatnsmýri. Á meðal lykilverkefna var erlend kynning svæðisins á vegum Íslandsstofu undir heitinu Reykjavik Science City.

Verkefnið sem slíkt fetar í nokkuð troðnar slóðir þar sem Ósló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmur eru allar með sambærileg verkefni sem eru sum hver margra áratuga gömul.

Vísindaþorpið í Vatnsmýri er, ásamt miðborginni, áhugaverðasta svæðið til þess að byggja upp nýsköpunarhverfi á Íslandi. Á hjálagðri mynd frá Reykjavíkurborg má sjá helstu þróunarsvæðin teiknuð upp og hvernig borgarlínan bindir þau saman. Þá sýnir myndin hvernig framtíðarsýn fyrir vísindaþorp eru unnar út frá núverandi staðsetningu flugvallar í Vatnsmýri og gera ekki út á lokun hans.

Uppbygging á nýjum Landspítala er í fullum gangi. Háskóli Íslands er að þróa mikla uppbygginu á svæði Vísindagarða þar sem Alvogen og Gróska eru stærstu verkefnin. Á vettvangi Háskólans í Reykjavík eru nýir Háskólagarðar í þróun auk þess sem unnið er að þróun á aðstöðu fyrir tæknifyrirtæki og frekari stækkun aðalbyggingar. Fjölmörg önnur verkefni eru í gangi s.s. uppbygging að Hlíðarenda, þróun tækniseturs á grunni Nýsköpunarmiðstöðvar og ný samgöngumiðstöð.

Í vísindaþorpinu er stefnt á að þróa lifandi og þétta borgarbyggð þar sem skólar, fyrirtæki, stofnanir, íbúðir og þjónusta myndi mósaík fjölbreytts mannlífs. Þar þróast áfram þungamiðja þekkingarhagkerfis á Íslandi þar sem núverandi aðilar, nýjar rannsóknarstofnanir og öflug þekkingarfyrirtæki eiga með sér samstarf og samvinnu og myndi þannig öflugt samfélag sem leiði til aukinnar verðmætasköpunar og fjölgunar starfa.

Ekki er vanþörf á.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.