Kennari gegn einræðisherra

Á morgun kjósa Hvít-Rússar sér forseta. Það eru rúmlega tólf ár liðin frá því að ég eyddi nokkrum dögum í Hvíta-Rússlandi. Það voru dagar sem ég gleymi seint.

Tilefni ferðarinnar var að DEMYC, sem eru evrópsk stjórnmálasamtök, skipulögðu ferð þagnað og við hittum hóp af ungum Hvít-Rússum. Þau voru stjórnarandstæðingar en í Hvíta-Rússlandi hefur Alexander Lukashenko ráðið ríkjum frá árinu 1994 og verið forseti landsins allar götur síðan.

Þegar maður segir stjórnarandstæðingar í Hvíta-Rússlandi þá er það töluvert annað en að vera í huggulegum minnihluta eins og við þekkjum það og æsa sig af og til í fjölmiðlunum. Að vera í stjórnarandstöðu í Hvíta-Rússlandi þýðir að lífið er erfitt. Í öllum skilningi. Möguleikar þeirra sem slíkt gera eru takmarkaðir. Þeir mega búast við að vera handteknir af og til. Settir í fangelsi eftir réttarhöld sem standast ekki neina skoðun. Þeir geta átt von á að vera reknir úr skóla og geta ekki skráð sig aftur. Þeir eiga erfitt með að fá vinnu. Og þar fram eftir götunum.

Fyrsti dagurinn í Minsk bar þetta strax með sér. Gestgjafar okkar höfðu skipulagt að við fengjum að hitta mann sem heitir Alaksandr Milinkievič og var mótframbjóðandi Alexander Lukashenko í forsetakosningunum árið 2006. Hann bjó í felum í Minsk og það var ansi skrautlegt þegar hópurinn hljóp á milli garða undir leiðsögn hvítrússnesku vina okkar þar til við fundum loksins íbúðina, biðum á bak við grindverk um tíma og gengum úr skugga um að enginn hefði elt okkur og hlupum svo loks inn til að hitta hann.

Þessa daga bar til tíðinda í Minsk að það höfðu verið skipulögð mótmæli í borginni. Þau fóru fram fyrir framan þinghúsið. Þannig var að Lukashenko hafði kynnt reglugerð um að í litlum fyrirtækjum mætti ekki ráða nema þrjá nána ættingja eigandans. Ella þurfti að greiða skatt. Þessu var andmælt.

Við fórum á mótmælasamkomuna og ég man að maður hugsaði með sér að ástandið væri nú greinilega ekki verra en svo að það væri mótmælt og myndatökumenn fjölmiðlanna væru mættir til að taka upp mótmælin og segja frá þeim í fréttum. Alveg þar til að mér var bent á að þetta væru reyndar starfsmenn leyniþjónustunnar sem væru að taka mótmælin upp til þess að safna upplýsingum um hverjir mættu. Í sjónvarpinu var svo bara íshokkí. Fljótlega kom stór hópur af svartklæddum vopnuðum mönnum til að mynda línu og hrekja fólk í burtu og mótmælin leystust svo upp.

Daglegt líf í Minsk var annars ekkert svo frábrugðið því sem maður á að venjast. Þar eru veitingastaðir, barir, næturklúbbar og allt þar á milli. Fólk hefur lært með reynslunni að best er að vera ekki með vesen, þá er ekkert verið að trufla þig. Rétturinn til að vera með vesen, stælar og gagnrýni er sennilega besti mælikvarðinn á lýðræði. Þegar þetta smám saman hættir þá verður þetta þægilegt. Eflaust má velta fyrir sér hvenær ríki verður einræðisríki. Í Hvíta-Rússlandi reyndar þing og það eru haldnar kosningar. En niðurstöðurnar eru ávallt á sama veg, þingið greiðir atkvæði eins og forsetinn vill og niðurstöður í kosningum sýna alltaf fullkomna yfirburði Lukashenko, sem stýrir í þokkabót fjölmiðlunum og hefur algera stjórn yfir því hvað birtist. Pólitískir andstæðingar hans mega búa við að vera fangelsaðir og þeim gert erfitt um vik. Það var raunin með okkar góðu og hugrökku gestgjafa, eftir að við fórum heim fengum við skilaboð frá einum þeirra að hluti hópsins hefði verið handtekinn og væri kominn í fangelsi. Ástæðan – þátttaka í mótmælum. Eins og reyndar nokkrir tugir annarra. Þetta var í janúarkuldanum, sem er ansi mikill þarna og fangaklefarnir eru óupphitaðir og jafnvel með brotinni rúðu.

Á morgun verður enn kosið til forseta í Hvíta-Rússlandi. Þótt niðurstaðan sé frekar fyrirsjáanleg hefur mótframbjóðandinn að þessu sinni vakið athygli, en það er ung kona að nafni Svetlana Tikhanovskaya, 37 ára kennari. Hennar leið í framboðið er áhugaverð, eiginmaður hennar var í framboði þar til hann var fangelsaður fyrir gagnrýni á hendur Lukashenko í lok maí á þessu ári þar sem hann hafði tekið þátt í mótmælum sem höfðu ekki fengið leyfi. Eðlilega. Honum var að vísu sleppt í nokkra daga en svo settur inn aftur. Svetlana tók því við, náði að safna nægilegum fjölda undirskrifta og komst þannig á lista yfir frambjóðendur og hefur þar að auki fengið stuðning frá mörgum þeirra flokka sem hafa verið í stjórnarandstöðu.

Ásamt henni eru tvær aðrar ungar konur, Veronika Tsepkalo og Maria Kolesnikova, í framlínunni í framboðinu. Maður Veroniku, Valery Tsepkalo, var meinað að bjóða sig fram. Maria var kosningastjóri í framboði Viktors Babariko, sem hafði líka verið settur í fangelsi.

Á meðan ég var að skrifa þennan pistil rakst á ég tvít frá einum af þeim sem ég kynntist í heimsókninni um árið. Tvítið var um kosningarnar og þar kom fram að Maria hefði verið handtekin af lögreglu í dag. Svetlana hefði ákveðið að fara í felur. Síðar um daginn var Mariu svo sleppt, með þeirri útskýringu að hún hefði verið handtekin í misgripum, lögreglan hefði ruglast á henni og einhverri annarri.

Þetta verður því fróðlegt. Að vísu hafa allar kosningar í landinu fengið falleinkunn hjá ÖSE og þeim sem sinnt hafa kosningaeftirliti þannig að það er kannski ekki ástæða til að gera sér of miklar væntingar. En framboð Svetlönu og framganga Mariu og Veroniku hefur vakið athygli og vonandi þurfa þessar hugrökku konur ekki að fela sig í kjallaraíbúð til frambúðar.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.