Hvar er tunglhótelið mitt?

Líkt og mörg önnur börn sem ólust upp á seinni hluta 20. aldarinnar man ég eftir að hafa litið til tunglsins fullviss um að borgir og hótel á tunglinu yrðu bráðum að veruleika og ferðalög þangað daglegt brauð.

Fyrir hönd þess barns verð ég að segja:

“Kæra 21. öld, þú ert að valda mér vonbrigðum.”

Ekki aðeins hefur lítil framþróun orðið í mönnuðum geimferðum, heldur beinlínis afturför. Nýlega tókst Bandaríkjamönnum aftur að senda fólk út í geim á eigin spýtur. Því var fagnað. En við gengum á tunglinu fyrir hálfri öld. Það var tikkað við það á bucket-listanum og svo snúið sér að öðrum.

Það er auðvitað ekki þannig að ekkert hafi gerst á þessum tíma. Ótrúlegar tækniframfarir hafa átt sér stað á sviði fjarskipta. Fólk lifir lengur. Er heilbrigðara, ríkara, læsara. Meirihluti mannkyns er beintengdur allri mannlegri þekkingu, hefur aðgang að myndavél og gengur með gervihnattartækni í vasanum.

En í samgöngum hafa engar byltingar átt sér stað. Þvert á móti. Það hefur orðið afturför.

Árið 1977 var hægt að fljúga milli Reykjavíkur og Parísar á 1 klukkutíma og 52 mínútum. Það var og gert eins og fjallað er um í þessari frétt Dagblaðsins.

Síðan 2003 hefur enginn getað ferðast hraðar en hljóðið öðruvísi en í orrustuþotu.

Kannski þykir það sumum nú léttvæg ósk að geta ferðast hraðar og lengra. En við eigum að stefna að því. Einkaaðilar hafa þegar náð góðum árangri í að gera geimferðir margfalt ódýrari og nokkrir aðilar, meðal annars fyrirtækið Boom, eru að þróa nýjar léttar þotur sem geta ferðast á tvöföldum hljóðhraða. Uppi eru hugmyndir um hraðlestir í túbum sem stytt gætu ferðatími margfalt allt þetta er enn á tilraunastigi.

Maður hlýtur að vona að kapitalisminn spýti í lófanna og geri 20. aldar tækni loks aðgengilega fyrir almenning 21. aldarinnar.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.