Kyrrlátt kvöld við fjörðinn

Íslendingar hafa flykkst út á land í stríðum straumum það sem af er sumri. Hér er auðvitað átt við Íslendinga í merkingunni fólkið sem býr í þéttbýlinu á suðvesturhorninu. Mestanpart er þetta tilkomið vegna þess að lengi vel var ekkert útlit fyrir að neitt af þessu fólki kæmist í hefðbundnar sólarferðir til heitari landa. Það gerði því ráðstafanir til að ferðast um landið, með eiginlegri og óeiginlegri hvatningu stjórnvalda, og hefur það vonandi orðið til að bæta hag ferðaþjónustubænda og annarra sem í þeim geira starfa á landsbyggðinni.

Ísland er með eindæmum strjálbýlt landið. Langstærstur hluti þjóðarinnar býr engu að síður á tiltölulega litlu svæði. Mikill minnihluti þjóðarinnar skiptir svo megninu af landinu á milli sín. Á mjög stórum svæðum býr ekki nokkur sála. Hringvegurinn var ekki hugdetta nokkurs manns. Hann er afleiðingin af því að Íslendingar hafa í gegnum aldirnar byggt sé bæi við hafið þar sem stutt er á miðin. Heilu byggðarlögin hafa þannig byggst upp eingöngu vegna nálægðar við gjöful fiskimið, ekki af neinni annarri ástæðu. Siglufjörður er ágætt dæmi en þaðan fóru líka allir þegar síldin hvarf. Eðlilega.

Það er áberandi þessar vikunnar hvað meirihluti þjóðarinnar hefur gaman að því að ferðast um landið, hvað allt er merkilegt og hve gaman er að sjá hvað fólkið úti á landi er duglegt að bjarga sér, hvað það tekur upp í mörgum sniðugum hlutum. Þeirri hugsun verður ekki bægt frá á þessi meirihluti landsmanna líti á þennan minnihluta landsmanna og hvað hann er bardúsa sem hálfgerða dægrastyttingu eða tómstundagaman fyrir sig. Það að fara út á land virðist þannig fela í sér hálfgerða mannlífsrannsókn á fólkinu sem þar býr, umhverfi þess og menningu. Hluti landsmanna er þannig orðinn að afþreyingu fyrir hinn hlutann. Enginn pældi í þessu þegar þiggjendur afþreyingarinnar voru erlendir ferðamenn sem hingað komu til að skoða fólk sem trúði á álfa og svoleiðis. En þetta er ekki alveg jafn heillandi þegar Íslendingar skoða aðra Íslendinga með sama hugarfari.

Þetta viðhorf birtist reyndar í ótrúlega mörgu. Þéttbýlisfólk á þannig erfitt með að skilja á að fólkið út á landi þurfi endilega að ganga á gæði landsins til að sjá sér farborða. Er ekki hægt að sjá þessa náttúru í friði þannig við hún sé til reiðu þegar við komumst ekki til útlanda og þurfum að eyða sumarfríinu með krökkunum á hringferð um landið? Auðvitað dáist meirihlutinn að minnihlutanum á þessum ferðalögum. Hvað maður myndi ekki gefa fyrir að fá að lifa svona fábrotnu lífi, hvílík lífsgæði, segir meirihlutinn við minnihlutann og telur sig allra manna göfugastan.

Það er engin ástæða að halda byggð í landinu til að gera landsbyggðina og fólkið sem þar býr að hálfgerðu byggðasafni og afþreyingarefni fyrir megnið af landsmönnum. Ef landsbyggðin, einkum bændur og þeir sem stunda atvinnurekstur til sveita, fengju að byggja lífsviðurværi sitt á sínu eigin framtaki þá væri mögulega fleiri sem sæju sér hag í því. Og ferðir út á land þannig ferðalög um blómlegar byggðir en ekki vettvangur til að sjá eitthvað forvitnilegt, skríða í giljaböð, slaka og njóta.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.