Hverju á maður eiginlega að trúa?

Fyrir nokkru síðan birtist á mbl.is umfjöllum um næringarfræðing sem hvetur til að fólk neyti ekki vatns. Þetta ku kallast þurr-fasta eða dry-fasting og vera allra meina bót, að mati næringarfræðingsins sem áður glímdi við þrútin augu og óhreina húð. En ei meir, vegna þess að vatnið var tekið úr umferð. Vitanlega þarf líkaminn vökva, en umræddur fræðingur taldi að hann ætti eingöngu að fá í gegnum neyslu á ávöxtum. Annað valdi ofálagi á nýru og þú þenjist út.

Þetta er bara eitt dæmi um það sem smelligildrur internetsins bjóða upp á. Í þessu tilfelli á einni vinsælustu vefsíðu landsins. Blaðamaðurinn sem býr til fréttina er þó nógu ábyrgur til að benda á að ekki séu til miklar rannsóknir um þennan lífsstíl og engar beinar sannanir séu fyrir því að líkamlegir kvillar séu of mikilli vatnsneyslu að kenna. En það er ekki alltaf sem fólkið á bak við slíkar fréttir gerir það. Oftar en ekki er viðlíka furðufréttum, og líklega falsfréttum, haldið fram án nokkurrar gagnrýnnar umfjöllunar, og á öllum stigum miðlunar.

Ég stend mig reglulega að því að spyrja mig – hverju á maður eiginlega að trúa? Hvað er satt og rétt í þessu? Hver hefur rétt fyrir sér og hver ekki? Allt virðist verða flóknara eftir því sem fram vindur og blæbirgði sannleikans meiri og meiri. Þetta væri auðvitað ekki vandamál ef maður væri – eins og sumir – alltaf grjótviss um eigin heimsmynd og allar þær skoðanir sem byggja á henni. En hversu skemmtilegt sem það væri þá er ég bara ekki þannig úr garði gerður. Ég lifi til að efast en vil samt sannleikann. Og á þessum tímum er það bara drulluerfitt.

Það sem er svo öfugsnúið í þessu er að áður stóð maður í þeirri trú að hlutirnir yrðu skýrari og sannleikurinn áþreifanlegri með tímanum. En það er eins og að með allri þeirri upplýsingatækni sem við höfum náð að þróa sem mannkyn á síðustu áratugum þá sé okkur að takast að þvæla sannleikanum fram og til baka svo um munar að eftir situr ringlaður almúginn. Þar á meðal ég. Það virðist orðið sáraauðvelt að skálda upp hálfsannleik eða hreinan ósannleik og matreiða það sem sannleik á veraldarvefnum, í gegnum samfélagsmiðla, falsar fréttastofur á vefnum og jafnvel aðra rótgrónari miðla sem láta sér sannleikann, gott siðferði eða heiðarleikann í léttu rúmi liggja, svo fremi sem það skili sér í nægilega góðum „clickbaits“. Og fyrir vikið er engu líkara en til sé orðinn risa-iðnaður fyrir ósannindi. Sá iðnaður var lengi vel lítill og bundinn við skýrt afmörkuð slúðurblöð sem var auðvelt að sniðganga. Fyrir vikið gat maður gengið að því vísu að það sem væri borið á borð fyrir mann væri vandað og rétt, eins langt og það alla vega náði. En í dag er eins og öll heimsins hálf- og ósannindi rati óhindrað fyrir sjónir manns í gegnum aragrúa miðla sem maður veit alltaf minni og minni deili á.

Ég finn að ég þarf að reiða mig betur á eigin dómgreind til að vinsa frá hálfsannindin í því sem ég les eða hlusta á. Á Twitter fylgi ég aðila sem kallar sig „Hoaxeye“ sem hefur það eina markmið að kanna sannleiksgildi þess sem staðhæft er í öðrum tvítum. Og það er magnað að sjá twitter reikninga ótal aðila, sem gefa sig út fyrir vönduð vinnubrögð falla í þá gryfju að segja ósatt frá. Óskandi væri að slíkt Hoaxeye gæti síað sjálfkrafa út alla þá þvælu sem slæðist fyrir augu manns í formi tvíta eða falsfrétta. Og hver veit – kannski mun framtíðin bjóða upp á slíka þjónustu. Það má guð vita að markaður er fyrir slíkt. En á meðan það er ekki staulast ég áfram – eins og þorri manna kannski – í heimi hálfsannleikans og spyr mig í sífellu hvort ég eigi nú að trúa þessu.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.