Betri tíð

Eins og sagt var frá hér á Deiglunni fyrir viku síðan styttist mjög í upphaf bandaríska hafnarboltatímabilsins. Æfingaleikir hafa nú staðið yfir í tæplega þrjár vikur og ýmsar línur farnar að skýrast hjá liðunum. Annað virðist fyrst núna vera farið að verða óskýrara.

Þótt Evrópubúar hafi fylgst nær daglega með Covid-19 veikinni í nokkrar vikur þá er panikkið í Bandaríkjunum rétt að byrja. Og líklega mun panikkið þar verða, eins og flest amerískt, stærra en nokkurs staðar annars staðar. Nú þegar er búið að setja á samkomubann víða og sérkennilegar reglur hafa verið settar um samskipti milli hafnaboltamanna og blaðamanna. Í íþrótt sem er þekkt fyrir þann sið leikmanna að troða túlann fullan af tóbaki eða sólblómafrækjum úr sameiginlegum pokum og hrækja svo út úr sér tuggum og tægjum þykir viðeigandi að byrja á því að tryggja að blaðamennirnir fái ekki að koma nálægt leikmönnunum. Næsta skref verður væntanlega að banna áhorfendur, eins og víða virðist stefnt að, og gæti verið draugalegt að fylgjast með hafnarboltaliðum etjast við á tómum völlum snemma í vor.

En hafnarboltinn er vorboði, og ef þessi ískyggilega og óútreiknanlega veiki er sannarlega þess eðlis, sem margir telja líklegt, að veiran drepist hratt þegar hitinn fer mikið yfir 20 gráður, þá ætti vonandi að vera óhætt að gera sér vonir um að þegar vellirnir fara að grænka á Norðurhveli þá fari lífið að komast aftur í sinn vanagang.

Það er eflaust þungt fyrir okkur mörg að hugsa til næstu vikna og hugsanlegra boða og banna, rasks og ónæðis. Tómir íþróttavellir, sóttkví og áhyggjur af ástvinum og okkur sjálfum. Áföll, áhyggjur og óþægindi eins og þau sem þessi nýja veiki hefur í för með sér minna okkur á að vera þakklátari fyrir allt það sem við teljum annars vera svo sjálfsagt. Það fylgir mikil tilhlökkun vorinu og þegar daglegar áhyggjur fólks af smitsjúkdómum fá smám saman að víkja fyrir hversdagslegri gleði yfir lífi og litum heimsins þá verður fögnuðurinn einlægari. Þessi skúr styttir upp um síðir og vellirnir amerísku fyllast á ný af þéttvöxnum áhorfendum og flest verður aftur eins og það á að sér að vera. Þá verður enn á ný gott „að tölta um tún og trítla um engi“. Og það gildir vitaskuld bæði um unga og gamla, súlkur og drengi.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.