Hvaða áhrif hafa stjórnarskipti í Bandaríkjunum á íslenska hagsmuni?

Þótt alls ekki, og síður en svo, standi til á þessum vettvangi að gera lítið úr þeim persónulega sigri sem fjölmargir Íslendingar upplifðu – og sáu ástæðu til að deila með öðrum – þegar fréttir bárust um að þau Joe Biden og Kamala Harris myndu bera sigurorð af þeim Donald Trump og Mike Pence í atkvæðagreiðslu kjörmanna, þá kann að vera óvitlaust að velta fyrir sér raunverulegum áhrifum þess á íslenska hagsmuni.

Af fréttum að dæma hafa aldrei fleiri átt jafn mikið undir nokkru embættiskjöri eins og í nýafstöðnum forsetakosningum í Bandaríkjunum. Aldrei í sögu Bandaríkjanna hafa fleiri fylkt sér að baki þeim sem sigur úr býtum virðist hafa borið og aldrei hefur sá sem allt bendir til að hafi lotið í lægra haldi fengið fleiri atkvæði. Raunar fékk hinn síðarnefndi, Donald Trump, sitjandi forseti Bandaríkjanna, fleiri atkvæði en allir frambjóðendur til forsetakosninga í sögu Bandaríkjanna, að einungis Joe Biden undanskildum.

Formleg niðurstaða kosninganna liggur ekki fyrir en úrslitin eru samt ljós. Það má auðvitað halda því fram að ekkert sé öruggt fyrr en kjörmenn hafa greitt atkvæði, formlega séð, en sú hefð hefur skapast að frambjóðendur til forsetakjörs játi ósigur sinn þegar hafið yfir skynsamlegan vafa að niðurstaðan sé þeim í óhag. Um þetta var fjallað hér á Deiglunni fyrir örfáum dögum og litlu við það að bæta.

En það eru ekki bara Bandaríkjamenn sem nú ýmist fagna eða bölva niðurstöðu kosninganna. Hvarvetna virðist hluttekningin í sigri og ósigri, aðallega sigri samt, vera alger. Einkum eru það þó Evrópubúar sem virðast uppteknir af kjöri æðsta handhafa framkvæmdavalds í Bandaríkjunum og eru Íslendingar þar engin undantekning. Af samfélagsmiðlum að dæma þá var engu líkara en að straumhvörf hefðu átt sér stað í tilveru fjölmargra Íslendinga þegar eigendur sjónvarpsstöðva vestan hafs sáu að fólk nennti ekki lengur að fylgjast með talningunni og ákváðu að segja þetta gott og tilkynna að það væri hafið yfir allan skynsamlegan vafa að Joe Biden hefði sigrað Donald Trump.

Þótt alls ekki, og síður en svo, standi til á þessum vettvangi að gera lítið úr þeim persónulega sigri sem fjölmargir Íslendingar upplifðu – og sáu ástæðu til að deila með öðrum – þegar fréttir bárust um að þau Joe Biden og Kamala Harris myndu bera sigurorð af þeim Donald Trump og Mike Pence í atkvæðagreiðslu kjörmanna, þá kann að vera óvitlaust að velta fyrir sér raunverulegum áhrifum þess á íslenska hagsmuni að þau hin tvö fyrrnefndu leysi þá tvo síðarnefndu af sessi í Hvíta húsinu. Við mat á því er ágætt að hafa hugfast að þótt forseti Bandaríkjanna sé stundum sagður valdamesti maður heims þá sæta eiginleg völd hans verulegum takmörkum á grundvelli hinnar ágætu bandarísku stjórnskipunar. En þótt eiginleg valdaúrræði forsetans séu takmörkuð eru áhrifum hans lítil takmörk sett.

Sérstakt samband Íslands og Bandaríkjanna

Ekkert land Evrópu er amerískara en Ísland, eða þannig hefur það að minnsta kosti verið allt frá því áhrifa bandarískrar menningar og lifnaðarhátta fór að gæta hér á landi um og uppúr seinna stríði. Landfræðilega er Ísland ekki bara tengipunktur Norður-Ameríku og Evrópu heldur skipta þessar tvær heimsálfur landinu í tvennt í bókstaflegum skilningi. Stundum er eins og flekaskilin liggi ekki bara þvert og endilangt í jarðskorpu þessarar eyju heldur beinlínis í gegnum þjóðarsálina sjálfa, að karakterinn sé að hálfu amerískur og hinn hlutinn evrópskur.

Bandaríkin voru fyrst allra ríkja til að viðurkenna fullveldi Íslands. Það var ekki bara fyrir þær sakir að þeim kann að vera annt um sjálfsákvörðunarrétt þjóða heldur réðu kannski hagsmunir þeirra sjálfra einhverju um það líka. Þátttaka Bandaríkjanna í síðari heimsstyrjöld hófst í raun með því að þeir leyst Breta af hólmi hér á landi árið 1941, nokkru áður en þeir formlega urðu þátttakendur í hildarleiknum við árás Japana á Pearl Harbour í desember sama ár. Herseta Bandaríkjanna hér varði eftir að sigur vannst og hún var svo fest í sessi með varnarsamningnum árið 1951. Varnar- og öryggishagsmunir Íslands eru í reynd samofnir hagsmunum Bandaríkjanna.

Áhrif bandarískrar menningar urðu mikil hér á landi eftir miðja síðustu öld. Bandarískar vörur ruddu sér til rúms, bílar, heimilistæki, landbúnaðartæki, vélar, að ógleymdum bandarískum neysluvörum sem voru svo að segja á hvers manns borði. Á sama tíma fóru fjölmargir Íslendingar til náms í Bandaríkjunum og tengslin urðu nánari og sterkari eftir því sem tíminn leið. Bandaríkin eru í dag mikilvægasta útflutningslands okkar Íslendinga, þangað seljum við vörur og þjónustu fyrir meiri peninga en til nokkurs annars lands. Við eigum því mikilla viðskiptahagsmuna að gæta í samskiptum við Bandaríkjamenn.

Við Íslendingar höfum einnig átt samleið með Bandaríkjunum í alþjóðlegu samstarfi, þótt ekki hafi alltaf verið samstaða um alla hluti. Einna nánast samstarf eigum við Íslendingar við Bandaríkin á vettvangi Norðurskautsráðsins og þar eru hagsmunir okkar Íslendinga sérstaklega mikilvægir, hvort sem er til skemmri eða lengri tíma.

Með málefnalegri einföldun má segja að þetta þrennt; varnar- og öryggismál, viðskiptamál og samstarf á norðurslóðum, séu mikilvægustu snertifletir okkar Íslendinga við Bandaríkin.

Varnar- og örygismál í brennidepli

Við brotthvarf varnarliðsins árið 2006 má segja að kaflaskil hafi orðið í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, sem þá hafði staðið formlega frá 1951 en óformlega frá því að Bandaríkjamenn leystu Breta af hólmi hér á landi tíu árum áður, eins og að framan er getið. Nýr kafli hófst í samstarfinu sem fól í sér að megin skuldbindingar aðila samkvæmt varnarsamningnum héldust óbreyttar, þótt ekki yrði um að ræða fasta viðveru liðsafla frá Bandaríkjunum hér á landi. Nýjar varnaráætlanir tóku í framhaldinu mið af þessum breyttu aðstæðum.

Þegar stjórnvöld í Bandaríkjunum ákváðu að loka herstöðinni á Miðnesheiði og kalla varnarliðið heim þá horfði mjög friðvænlega í okkar heimshluta. Fyrstu árin eftir lok Kalda stríðsins eygðu menn von um friðsamlega sambúð og samstarf með Rússum og sú var raunin framan af. En fljótlega eftir að Bandaríkjamenn drógu úr umsvifum sínum og áherslu á viðbúnað í Evrópu fóru mál að þróast til verri vegar. Rússar létu mjög til sín taka í nágrannaríkjum, fyrst í Kákasuslöndum og svo í Georgíu. Yfirgangur Rússa náði þó hámarki árið 2014 þegar stórt landssvæði í Úkraínu, Krímsskagi, var hernuminn af Rússum.

Í höfuðstöðvum NATO vöknuðu menn upp við vondan draum þann 27. febrúar 2014 þegar grímuklæddir rússneskir hermenn höfðu á svipstundu hertekið Krímskaga. Öllum var ljóst að straumhvörf höfðu orðið í öryggismálum Evrópu og að Atlantshafsbandalagið yrði einbeita sér á nýjan leik að hinu upphaflega hlutverki sínu. Á þeim árum sem síðan eru liðin hefur bandalagið uppfært sínar áætlanir og aukið viðbúnað sinn, einkum í þeim löndum sem landamæri eiga að Rússlandi. Þá hafa flestöll ríki bandalagsins aukið verulega útgjöld til varnarmála í ljósi þessa breytta veruleika. Hið sama gildir um Svíþjóð og Finnland sem standa utan við NATO en eiga mikið og farsælt samstarf við bandalagið í öryggismálum, til að mynda með sameiginlegum heræfingum og umfangsmiklu samráði.

Á síðustu árum hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum lagt aukna áherslu á hinar sameiginlegu varnir á Norður-Atlantshafi. Til marks um það hefur heil flotadeild, 2. flotinn, verið sett á laggirnar á nýjan leik og eftirlit með ferðum rússneskra kafbáta hefur verið stóraukið. Þá hafa sameiginlegar varnaræfingar miðað markvisst að því að gera bandalagið betur í stakk búið til að bregðast hratt og örugglega við hvers kyns óvinveittum hernaðarumsvifum á svæðinu. Þótt áherslan sé mest á að verja þau ríki sem austast liggja þá er lega Íslands nú sem fyrr hernaðarlega mikilvæg í varnarsamstarfi bandalagsríkjanna, þvert yfir Norður-Atlantshafið.

Framlag Íslands á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og í tvíhliða varnarsamstarfi við Bandaríkin felst fyrst og fremst í þátttöku í samþættu loftrýmiseftirliti, loftrýmisgæslu og æfingum bandalagsins, gistiríkjastuðningi og því að tryggja öruggan rekstur varnarmannvirkja og búnaðar en forsenda öruggs rekstrar er að nauðsynlegu viðhaldi og uppfærslum á mannvirkjum, kerfum og búnaði sé sinnt. Það er þannig jafnframt forsenda þess að varnir landsins og bandalagsins séu tryggðar. Þjóðaröryggisstefna Íslands kveður á um að tryggt sé að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum. Á þessum grundvelli hafa verið ákveðnar framkvæmdir á varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll fyrir á annan tug milljarða til að endurnýja og sinna löngu tímabæru viðhaldi á mannvirkjum og búnaði á svæðinu til að hægt sé að mæta áðurnefndum áskorunum. Kostnaður við þær framkvæmdir er að mestu leyti greiddur af Bandaríkjamönnum og Atlantshafsbandalaginu. Enn er verk að vinna í þeim efnum.

Ósennilegt er að áhersla Bandaríkjamanna á öryggismál á Norður-Atlantshafi muni breytast við stjórnarskipti í Bandaríkjunum. Áherslan endurspeglar breytt öryggisumhverfi og hefur núverandi (líklega fráfarandi) stjórn að mestu fylgt stefnumörkun fyrri stjórnar í þessum efnum, þótt einstaka áhersluatriði hafi verið önnur. Ósennilegt er, en þó ekki útilokað, að almennur niðurskurður til varnarmála, sem flestir búast við, haft áhrif á áframhaldandi endurnýjum og viðhald varnarmannvirkja hér á landi. Talið er að væntanleg ríkisstjórn Joe Biden muni leggja enn ríkari áherslu á gott samstarf við ríki Atlantshafsbandalagsins og því er ekkert sem bendir til þess að Bandaríkin muni við þessi væntanlegu stjórnarskipti hverfa af þeirri braut vaxandi árvekni og viðbúnaðar sem bandalagið hefur markað á síðustu árum.

Bætt viðskiptakjör eru brýnt hagsmunamál

Bandaríkin eru sem fyrr segir mikilvægasti útflutningsmarkaður okkar Íslendinga og ekkert útlit fyrir að það muni breytast á næstunni. Þótt markaðsaðgangur fyrir íslenskar vörur sé almennt greiður inn á markað vestan hafs þá eru engu að síður til staðar talsverðar hindranir. Síðustu misseri hefur verið markvisst unnið að því af hálfu utanríkisráðuneytisins að bæta markaðsaðgang til Bandaríkjanna. Málið hefur verið tekið upp á fundum utanríksríkisráðherra ríkjanna og þá var efnt til sérstakra hringborðsumræðna um viðskiptamál með framámönnum úr íslensku atvinnulífi þegar varaforseti Bandaríkjanna heimsótti Ísland á síðasta ári.

Á fundi þeirra Guðlaugs Þórs Þórðarson og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Hörpu í febrúar á síðasta ári var tekin sú ákvörðun að hefja sérstakt formlegt efnahagssamráð milli ríkjanna, með aðkomu atvinnulífsins, en slíkt samráð er oft undanfari fríverslunarsamnings. Þetta var því mikilvægur áfangi að því markmiði. Framangreindum fundum var síðan fylgt eftir með heimsókn utanríkisráðherra í bandaríska þingið í september á síðasta ári þar sem hann átti fundi með þingmönnum beggja flokka. Á þeim fundum var megináherslan á að að dýpka tvíhliða efnahags- og viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna, meðal annars með fríverslun og sérstökum áritunum fyrir fjárfesta og viðskiptaaðila sem auðvelda aðgang að Bandaríkjamarkaði. Þá var óskað eftir stuðningi þingmanna við að koma á fót vinnuhópi um málefni Íslands með fulltrúum úr báðum þingdeildum. Í framhaldi af þeim fundum kom fram frumvarp á bandaríska þinginu, svokallað Íslandsfrumvarp, sem kveður á um framangreindar áritanir, svokallaðar E1 og E2 áritanir. Jafnframt er hafinn undirbúningur að stofnun sérstakrar Íslandsdeildar í bandaríska þinginu sem gera mun alla hagsmunagæslu fyrir hönd Íslands markvissari þar á bæ.

Það hafa því náðst markverðir áfangar gagnvart bandarískum stjórnvöldum á síðustu misserum þegar kemur að viðskiptakjörum, þótt fríverslunarsamningur sé ekki innan seilingar enn. Í ljósi væntanlegra stjórnarskipta vestan hafs skiptir miklu máli að hafa tekið þessi mál upp við þingmenn beggja flokka og komið málum þannig í farveg í þinginu. Hins vegar hafa yfirlýsingar Joe’s Biden í aðdraganda kosninga ekki gefið tilefni til bjartsýni um að Íslendingum takist að landa fríverslunarsamningi. Hefur Biden beinlínis sagst vera mótfallinn frekari samningum og að hann muni einbeita sér að uppbyggingu innanlands. Það eru því blikur á lofti í þessum efnum og óvíst hvort hin jákvæða þróun í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna á þessu sviði haldi áfram að loknum væntanlegum stjórnarskiptum í Washington. Á móti kemur að efnahagssamráðið hefur nú verið fest í sessi en fulltrúar ríkjanna undirrituðu sérstakt minnisblað þess efnis í lok síðasta mánaðar. Allar forsendur eru til staðar, eftir þá áfanga sem náðst hafa síðustu mánuði, til að halda áfram að dýpka og efla viðskipti milli landanna.

Norðurslóðir: íslenskir hagsmunir á áhrifasvæði stórvelda

Íslendingar eiga mikilla hagsmuna að gæta þegar kemur að málefnum norðurslóða, hvort sem litið er til náttúruverndar og sjálfbærni, viðskipta, samgangna, öryggismála eða umhverfismála í stóru samhengi. Undanfarin tvö ár hafa Íslendingar farið með formennsku í Norðurskautsráðinu og lagt þar áherslu á sjálfbærni og að norðurslóðir verði áfram vettvangur samstarfs og samvinnu en ekki spennu eða átaka. Bandaríkin eru eitt af átta ríkjum í Norðurskautsráðinu og það öflugasta. Stefna þess og áherslur í þessum málaflokki varða okkar Íslendinga því miklu.

Framan af því kjörtímabili sem nú er senn á enda í Bandaríkjunum virtust stjórnvöld fremur áhugalaus um málefni norðurslóða. Þannig var óvíst um þátttöku utanríkisráðherrans Rex Tillerson á leiðtogafundi ráðsins í Fairbanks í Alaska vorið 2017 þegar Bandaríkjamenn skiluðu af sér formennsku í ráðinu til Finna. En síðan kviknaði áhugi þeirra svo um munaði, einkum í kjölfar vaxandi ásælni annarra stórvelda á svæðinu. Bæði Rússar og Kínverjar hafa sett fram metnaðarfull markmið um hagsmuni sína á norðurslóðum og það virðist hafa vakið Bandaríkjamenn af værum blundi.

Áherslubreytingin var áberandi í ræðu utanríkisráðherrans Mike Pompeo, sem þá hafði leyst Tillerson af hólmi, á leiðtogafundi ráðsins í Rovaniemi í Finnlandi vorið 2019 þegar Ísland tók við formennsku af Finnum. Engum gat dulist við áheyrn þeirrar ræðu að Bandaríkin ætluðu að sitja hjá þegar málefni norðurslóða væru annars vegar. Í ræðunni varaði Pompeo mjög eindregið, og alls ekki undir rós, við vaxandi áhrifum og ásælni Kínverja og Rússa á svæðinu. Það var við þessar kringumstæður sem Íslendingar tóku við formennsku í ráðinu. Starf ráðsins hefur þó gengið vel undir íslenskri forystu og ráðið er áfram, þrátt fyrir vaxandi spennu, virkur vettvangur Norðurskautsríkjanna, en auk þess eiga fjöldamörg ríki áheyrnaraðild að ráðinu.

Þeir sem best þekkja til telj að framangreind áhersla bandarískra stjórnvalda á norðurslóðir muni minnka í væntanlegri ríkisstjórn Bidens. Á það er bent að áherslan sem fram kom í ræðu Pompeo í Rovaniemi sé að mestu tengd öryggis- og varnarmálum. Þetta muni þó ekki þýða að Bandaríkin dragi sig úr samstarfi á norðurslóðum, heldur að áherslan færist meira yfir á umhverfismál eins og var í tíð stjórnar Obama. Aukin áhersla á sjálfbærni og verndun hafsins af hálfu Bandaríkjamanna færi vel saman við áherslur Íslands og líklegt er að íslenskir vísindamenn gætu notið góðs af aukinni áherslu bandarískra stjórnvalda á vísindarannsóknir á norðurslóðum. En þótt íslensk stjórnvöld hafi lagt áherslu á halda norðurslóðum fyrir utan stórveldaátök og á að svæðið sé laust við slíka spennu, þá þjónar það ekki hagsmunum Íslands til lengri tíma ef látið verður undan ásælni stjórnvalda í Kreml og Peking á svæðinu.

Forystuhlutverk Bandaríkjanna í alþjóðakerfinu

Beinir hagsmunir Íslands gagnvart Bandaríkjunum eru mestir á þeim sviðum sem að framan greinir. Þar er að finna helstu snertifletina í samskiptum ríkjanna, þá þætti sem hafa mest áhrif á okkar hagsmuni. En auðvitað hefur framganga Bandaríkjanna í alþjóðakerfinu einnig áhrif á okkur Íslendinga eins og aðrar þjóðir, þótt þeirra áhrifa gæti í minni mæli en þegar um framangreinda snertifleti er að ræða.

Og það er einmitt kannski á þeim vettvangi, í alþjóðkerfinu, innan stofnana Sameinuðu þjóðanna, í svæðisbundnu samstarfi og fjölþjóðlegu, þar sem áhrifa stjórnarskiptanna í Bandaríkjunum mun gæta hvað mest. Núverandi stjórnvöld hafa markvisst dregið úr þátttöku Bandaríkjamanna í þessu kerfi, stundum vegna efnislegs ágreinings um mál og í öðrum tilvikum í mótmælaskyni við vinnubrögð viðkomandi stofnana. Loftslagssáttmálinn er dæmi um hið fyrrnefnda en brotthvar Bandaríkjamanna úr Mannréttindaráði SÞ er dæmi um hið síðara. Það kom í hlut okkar Íslendinga að fylla það skarð sem Bandaríkjamenn skildu eftir sig í mannréttindaráðinu.

Flestir búast við að væntanleg ríkisstjórn Joe Biden muni leggja mun meiri áherslu á þátttöku Bandaríkjanna í fjölþjóðlegu samstarfi á nýjan leik. Ísland hefur verið í hópi þeirra ríkja sem kallað hafa eftir aukinni þátttöku Bandaríkjanna í alþjóðakerfinu. Ástæðan fyrir því er einföld: Bandaríkin eru stærsta og öflugasta lýðræðisríki heims. Alþjóðakerfið getur ekki og má ekki vera borið uppi af ríkjum sem enga hefð hafa fyrir lýðræði, þar sem mannréttindi eru almennt ekki virt og þar sem réttarríkð er framandi fyrirbæri. Það eru einmitt hagsmunir smáþjóðar á borð við okkur Íslendinga að alþjóðakerfið byggist áfram á virðingu fyrir lögum og reglum, þar sem ríki leysa úr sínum ágreiningi með friðsamlegum hætti, og þar sem samstaða ríkir um grundvallarmannréttindi.

Forysta Bandaríkjanna og mótvægi við áhrif alræðisríkja í alþjóðakerfinu er þannig brýnt hagsmunamál fyrir Íslendinga.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.