Nú er komið að Alþingi

Í upphafi faraldursins var íslenskum stjórnvöldum hrósað fyrir að halda sig til hlés og leyfa embættismönnum á sviði sóttvarna að upplýsa um gang mál og leggja línurnar um það hvernig bregðast skyldi við faraldrinum.

Umboð stjórnmálamanna í málefnum sem varða sameiginlega hagsmuni okkar er veitt í krafti þess að við getum skipt þeim út með reglulegu millibili ef okkur mislíkar störf þeirra.

Við höfum ekki beina aðkomu að ákvörðunum um veigamikil málefni, t.a.m. með þjóðaratkvæðagreiðslum, vegna þess að skilningur er á því að erfitt er fyrir almenning, sem oftast á fullt fangi með eigin líf, að kynna sér þau málefni og hagsmuni með viðunandi hætti sem vegin eru og metin í ákvörðunum Alþingis eða annarra stjórnvalda. Þetta fyrirkomulag er æskilegt ekki síst fyrir þær sakir að oft eru ákvarðanir teknar með hraði eða eru til skamms tíma óvinsælar en taldar þjóna langtímahagsmunum og almennri hagsæld.

Til þess að fyrirkomulagið gangi upp er nauðsynlegt að vel sé skilgreint hver beri ábyrgð á ákvörðunum ríkisins. Þegar langtímaafleiðingar eru metnar skilur á milli aðila sem eiga framhaldslíf í stjórnmálum og þeirra sem eiga síður erindi þangað.

Fram að kosningum er Alþingi vettvangur umræðu og rökræðu og takast þar á mismunandi sjónarmið, hagsmunir og orðræða, oft á milli minnihluta og meirihluta. Alþingi er þannig nauðsynlegur vettvangur til þess að sjónarmið og hagsmunamat mismunandi hópa samfélagsins geti haft áhrif á ákvarðanir ríkisins.

Auðvitað er þetta ekki alveg svona einfalt, en engu að síður er þetta í grófum dráttum  fyrirkomulagið sem tryggir sátt um víðtækt framsal á frelsi okkar til Alþingis og stjórnvalda með það að markmiði að þjóðfélagið virki sem best.

Í upphafi faraldursins var íslenskum stjórnvöldum hrósað fyrir að halda sig til hlés og leyfa embættismönnum á sviði sóttvarna að upplýsa um gang mál og leggja línurnar um það hvernig bregðast skyldi við faraldrinum.  Mikil óvissa ríkti um þróun hans, hversu hættulegur hann var og hvaða langtímaafleiðingar hann gæti haft í för með sér. Því væri best að okkar færustu vísindamenn á þessu sviði hefðu allt um það að segja hvernig málum yrði háttað og hvaða fórnir við myndum færa til að hemja útbreiðslu skæðrar veiru. 

Mikil ánægja virtist vera með þessa tilhögun og daglegir upplýsingafundir þríeykisins svokallaða voru um tíma skylduáhorf landsmanna sem  fylgdu nokkuð nákvæmlega leiðbeiningum landlæknis, sóttvarnalæknis og ríkislögreglustjóra um það hvernig haga ætti lífinu í kjölfar fundanna. Þessir embættismenn lögðu mikinn metnað í það að nota bestu upplýsingar til að framfylgja hlutverki sínu, hver á sínu sviði, til að á ná tökum á faraldrinum. Þeir viðurkenndu meira að segja stundum mistök og breyttu ákvörðunum eftir á eftir ábendingar.

Frá upphafi faraldursins hafa tilmæli sóttvarnalæknis borist reglulega til ríkisstjórnarinnar sem samþykkir tillögurnar og gefur þeim gildi. Sóttvarnalæknir segir sjálfur að það sé ekki hans hlutverk að huga að öllum þeim ólíku hagsmunum sem taka þarf tillit til í opinberum sóttvarnaraðgerðum. Hans markmið sé einungis að stöðva útbreiðslu veirunnar.

Þó svo að mikil ánægja hafi verið með þessa tilhögun, sem kom ágætlega fram í mælingum Maskínu í sumar þar sem 94-96% aðspurðra sagðist treysta þríeykinu, er hætta á því að það fjari undan þessari samstöðu þegar á líður ekki síst vegna þess að enginn þessara embættismanna hefur verið kosinn til setja svo nákvæmar reglur fyrir þjóðfélagið. Þetta er ekki síst varhugavert vegna þess að nokkuð ströng viðurlög geta átt við ef þær eru brotnar. Þó svo að formlega séu ákvarðanirnar staðfestar af ríkisstjórninni dylst engum að þríeykið ræður ferðinni enda er tillögur samdar í litlu samráði við t.d. Alþingi.

Þrátt fyrir að tilmæli sóttvarnalæknis rati í reglurgerð hafa komið upp tilvik sem þeim hefur ekki verið fylgt að öllu leyti. Þá hefur skapast vafi í hugum fólks hvaða fyrirmælum skal fylgja.

Þetta gengur ekki til lengdar og í ljósi þess að meiri þekking og reynsla er komin í baráttuni við veiruna er kominn tími til að skýra betur ábyrgð og skyldur kjörinna fulltrúa í viðbrögðum við farsóttinni. Liggur því beinast við þessi mál komi í ríkari mæli inn á borð Alþingis til að koma í veg fyrir að molni undan þeim samtakamætti sem hefur þó verið um viðbrögð stjórnvalda. Óeðlilegt er að þriggja manna teymi seti svo víðtækar reglur og óljóst ferli samráðs ráði mestu um hvernig þær verði til.

Ljóst þarf að vera á hvaða grunni ákvarðanir um inngrip í líf fólks, svo sem ferðatakmarkanir og bann við atvinnurekstri, eru teknar, hver ber ábyrgð á þeim og að þær séu byggðar á heildstæðu hagsmunamati og studdar áliti sérfræðinga. Alþingi sem hefur umboð okkar til þess og liggur því beint við að þingið fái stærra hlutverk.

Því ef þetta er ekki skýrt er hætta á því að kvarnist úr grunni samfélagssáttmálans og án samstöðu missa sóttvarnaraðgerðirnar marks og valda meiri skaða en ætluðum ávinningi.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.