Húnarnir á sigurbraut

Einhver magnaðasta saga íþróttanna í Bandaríkjunum er sorgarsaga hafnarboltaliðsins Chicago Cubs. Félagið átti gullöld sína, sem varði í rúm tvö ár, um miðjan fyrsta áratug síðustu aldar. Síðan þá hefur gengi félagsins verið ömurlegt. Chicago Cubs hefur ekki orðið meistari síðan árið 1908 og ekki komist í úrslit hafnarboltadeildarinnar síðan árið 1945. Lélegt gengi Chicago Cubs er orðið nánast inngróið í þjóðarsál Bandaríkjanna. Það var meira að segja haft til marks um fjarstæðukennda framtíðarspá í kvikmyndinni Back to the Future, að árið 2015 yrðu Chicago Cubs meistarar.

Og nú 107 árum eftir að liðið varð síðast meistari, 70 árum eftir að liðið komst síðast í úrslit og 30 árum eftir spádóminn í kvikmyndinni klassísku, er Chicago Cubs talið líklegast allra liða til þess að verða meistari. Það segja að minnsta kosti veðbankar. Í kvöld hefst 7 leikja einvígi milli Cubs og New York Mets um hvort liðið kemst í úrslitarimmuna, gegn annað hvort Toronto Blue Jays eða Kansas City Royals.

Eins og áður hefur verið fjallað um hér á Deiglunni, þá er hafnarbolti íþrótt sem hefur lengi verið misskilinn og vanrækt af íþróttaáhugamönnum hér á landi. En þeir sem kynna sér íþróttina komast fljótt að því að hún er meira spennandi og áhugaverðari en virðist við fyrstu sýn. Við það bætist að stemmningin á spennandi bandarískum hafnarboltaleik er ólík því sem gerist í flestum öðrum íþróttum í Bandaríkjunum. Stemmningin á Wrigley Field, heimavelli Chicago Cubs—og reyndar líka á Citi Field, heimavelli New York Mets, hefur minnt á suður-ameríska knattspyrnuleiki upp á síðkastið. Söngvar og hróp áhorfenda drynja linnulaust í alla þá tæplega fjóru klukkutíma sem leikirnir standa.

Það var ekki skrýtið að það væri æsingur á Wrigley Field í síðustu viku þegar heimamenn báru sigurorð af St Lois Cardinals og tryggðu sér sæti í úrslitum sinnar deildar. Það var hvorki meira eða minna en í fyrsta sinn frá upphafi sem áhorfendur liðsins gátu séð Cubs reka smiðshögg á úrslitakeppnisrimmu á Wrigley Field, sem hefur verið heimavöllur félagsins frá árinu 1914.

Sagan er augljóslega ekki á bandi Chicago Cubs, nema þá kannski skáldsagan í Back to the Future. Á þessum 107 árum sem liðin hafa ýmis konar kenningar um bölvun ástæður hins slaka gengis. Nærtækasta skýringin þykir vera sú að árið 1945 hafi kráareigandi nokkur, Billy Sianis, lagt bölvun á félagið eftir að honum var vísað úr áhorfendastúkunni á Wrigley Field vegna þess að hann hafði með sér illa lyktandi geit. Gerðar hafa verið ýmsar tilraunir til þess að aflétta þessari bölvun, meðal annars hafa afkomendur Billy Sianis verið fengnir til þess að mæta á völlinn með geitur, síðast árið 1989. Þá hafa aðdáendur Cubs mætt á útileiki með geitur meðferðis og viljað halda því fram að þar sem önnur lið hafi ekki hleypt þeim inn.

Talið var að þessi aðferð hefði borið árangur árið 2003, en þá vann Chicago riðil sinn í deildinni og var komið með vænlega stöðu í 6. leik úrslitaeinvígis gegn Florida Marlins. Chicago þurfti að vinna fjóra leik og hafði þegar unnið þrjá. Í sjötta leiknum, á Wrigley Field, hafði Cubs vænlega stöðu í áttundu lotu (af níu). Cubs var með 3-0 forystu og leikmaður Marlins hafði slegið bolta hátt upp í loft og með því að grípa boltann hefði varnarmaður Chicago nánast gert út um leikinn. Hafnarbolti er hins vegar eina íþróttin, sem ég veit um, þar sem sú staða getur komið upp að áhorfendur geta með lögmætum hætti haft áhrif á leikinn—og það gerðist í þetta sinn. Þar sem boltinn sveif á jaðri vallarins, og varnarmaðurinn stökk upp til þess að grípa boltann áður en hann lenti í áhorfendastæðinu, þá skaut einn áhorfenda—Steve Bartman að nafni—hönd sinni fram, snerti boltann og eyðilagði möguleika varnarmannsins til þess að ná til hans. Miami Marlins nýttu sér tækifærið vel og skoruðu átta stig í röð—unnu leikinn, og þann næsta, og Chicago var úr leik.

Steve Bartman hefur farið huldu höfði síðan þetta gerðist og um hríð gættu tíu lögreglumenn öryggis hans. Jeb Bush, sem þá var fylkisstjóri í Flórída, bauð honum pólitískt hæli—sem hann þáði ekki.

Aðdáendur Chicago eru því vanir vonbrigðum. Þetta er hægt að skynja vel á hverjum einasta leik liðsins. Það er nánast sama hversu örugg forystan er; hinir marghrjáðu stuðningsmenn Húnanna virðast alltaf búast við hinu versta. Og þótt þeir sitji upplitsdjarfir í sætum sínum, með skilti sem áletrunum á borð við „Only one before I die“—þá er greinilegt að þeir trúa því innst í hjarta sínu að fátt sé svo með öllu gott að ekki boði nokkuð illt.

Víst er að margir fylgjast vel með Cubs þessa dagana. Ef þeir verða meistarar verður samanlögð gleði aðdáenda, og velvildarfólks, slík að það mun hríslast um alla heimsbyggðina. Þótt ekki sé nema fyrir þær sakir, er erfitt annað en að halda með Cubs.

Að lokum bið ég langþjáða aðdáendur Cubs afsökunar á að hafa hugsanlega jinx-að þetta allt saman með þessum bjartsýnislegu skrifum. En hver veit nema þetta hafi verið einmitt það sem þurfti til þess aflétta álögunum.

***

Fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með dramatískri tilraun Chicago Cubs og hinu sögulega ævintýri, sem í uppsiglingu kann að vera, er bent á að hægt er að kaupa mjög ódýra áskrift af hafnarboltaleikjum á heimasíðu deildarinnar mlb.com.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.