Hiroshima

Hinn 6. ágúst 1945 varpaði bandaríski herinn kjarnorkusprengju á Hiroshima með þeim afleiðingum að tugþúsundir manna létust svo að segja samtímis, hundruð þúsunda örkumluðust og margir þeirra dóu á næstu vikum og árum. Afleiðingar hinnar miklu geislvirkni sem sprengjan olli eru sjáanlegar enn í dag, bæði í umhverfinu og í fæðingargöllum kynslóð fram af kynslóð. Þremur dögum síðar vörpuðu Bandaríkjamenn annarri kjarnorkusprengju, í þetta sinn á Nagasaki og afleiðingarnar urðu nokkurn veginn þær sömu. Í kjölfar árásarinnar á Nagasaki gáfust Japanir upp og lauk þar með seinni heimsstyrjöldinni, mesta hildarleik mannkynssögunnar.

Því hefur gjarnan verið haldið fram að notkun kjarnorkuvopna af hálfu Bandaríkjamanna hafi afstýrt gífurlegu mannfalli, bæði meðal hermanna og óbreyttra Japana, sem innrás á meginland Japans hefði haft í för með sér. Það er örugglega rétt að slík innrás hefði orðið blóðug á báða bóga. Það breytir hins vegar ekki því að notkun þessara gereyðingarvopna gegn óbreyttum borgurum, vitandi vits, var og er stríðsglæpur af verstu sort. Mönnum mátti í öllu falli vera ljós eyðingarmáttur nýju sprengjunnar að lokinni árásinni á Hiroshima og árásin á Nagasaki þannig með öllu óforsvaranleg.

Þótt færa megi framangreind rök fyrir notkun vopnanna þarf að hafa hugfast að flestir, ef ekki hreinlega allir, stríðsglæpir sögunnar, hafa verið framdir til forða einhverjum öðrum hörmungum eða í góðri trú að öðru leyti, að mati þeirra sem þá frömdu. Fæstir stríðsglæpamenn hafa haft það yfirlýsta markmið eitt að leiðarljósi að fremja stríðsglæp eða glæp gegn mannkyninu. Auðvitað var þessi stríðsglæpur ekki sá eini og mögulega ekki sá versti sem framinn var í seinni heimsstyrjöldinni en kannski var hann sá sem við lærðum mest af. Kjarnorkuvopnum hefur ekki verið beitt í hernaði frá 9. ágúst 1945 og hefur ógnar- og fælingarmáttur þeirra vafalítið átt sinn þátt í að afstýra allsherjarstríði á þeim tíma sem síðan er liðinn.

Sá lærdómur þarf að skila sér til komandi kynslóða og þess vegna er mikilvægt að fórnarlamba þessara árása sé minnst á hverju ári. Í því efni skiptir engu máli hvar í pólitík menn standa, hvort þeir aðhyllist markaðsbúskap eða félagshyggju, við berum þá ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum að vitneskjan um hörmungarnar í Hiroshima og Nagasaki í ágúst 1945 gleymist aldrei.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.