Graði-Rauður

Ég gafst nýverið upp á lífstílnum sem ég hafði ætlað að helga þrítugsaldri mínum. Ég gafst upp á að vera upp á aðra kominn, gafst upp á að skerða eigið frelsi, gafst upp á að skerða eigin lífsgæði. Ég gafst upp á því að þurfa að æða út í rigningu og rok, frost og snjó, bara til þess að komast leiðar minnar. Ég gafst nýverið upp og keypti mér bíl.

Ég gafst nýverið upp á lífstílnum sem ég hafði ætlað að helga þrítugsaldri mínum. Ég gafst upp á að vera upp á aðra kominn, gafst upp á að skerða eigið frelsi, gafst upp á að skerða eigin lífsgæði. Ég gafst upp á því að þurfa að æða út í rigningu og rok, frost og snjó, bara til þess að komast leiðar minnar. Ég gafst nýverið upp og keypti mér bíl. 

Og frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil. Skyldi maður verða leiður á því til lengdar að vera til? – eflaust, já, ef bíllinn bilar. Þangað til nýt ég nýfundins frelsis og fer ferða minna, fljótt, örugglega, þegar ég vil og á eigin forsendum. Enginn strætó, ekkert skutl, engin rafhlaupahjól, engar dúnúlpur í frosti. Bara ég, AUX-snúran og heita loftið úr miðstöðinni. 

Bílnum hef ég meira að segja gefið nafn, eins og ungum strák er tamt að gera: vínrauður Hyundai Getz fékk nafnið Graði-Rauður, í höfuðið á stóðhestinum í texta Magnúsar Eiríkssonar. 

Sextán vetra gamall var ég sendur í sveit,
sumarið var gott og sólin heit.
Það vantaði frækinn hestamann til að hugsa um stóðið,
og ég var hann.

Mér var kennt að ríða og hugsa um stóð,
og mér var kennt að rekja hestaslóð.
Ég þekkti hvern hest líka og hirðir hvern sauð,
en við engan tók ég tryggð nema Graða Rauð.

Áður en ég gafst upp og keypti Graða-Rauð hafði ég haft þá draumsýn um að búa á stúdentagörðunum í Vatnsmýrinni og fara allra minna ferða í strætó, á rafhlaupahjólum eða á tveimur jafnfljótum. Ég þekki enda þjónustu strætó vel og hef notið hennar síðan ég var lítill gutti á leið á golfæfingar. 

Þá tók ég vagn 18 sem fór frá Spönginni í Grafarvogi upp í Bása í Grafarholti þar sem ég æfði golf. Leið sem tekur um 7 mínútur að keyra á einkabíl tók 40 mínútur í akstri með strætó og um 20 mínútur í göngu með golfsett á bakinu. Leiðin var svo löng og erfið fyrir ungan dreng að þegar æfingunni lauk klukkan þrjú, beið ég heldur eftir að mamma og pabbi yrðu búin í vinnunni um klukkan fimm, í stað þess að taka sama strætó aftur heim.

Graði Rauður var gæðingur,
glæstur hálftaminn stóðhestur.
Á hverjum degi ég gaf honum brauð,
því mig langaði‘ að ríða‘ honum Graða Rauð.

Á mínum menntaskólaárum tók ég strætó alla daga og jafnvel oft á dag. Ég fór með sexunni frá heimili mínu í Grafarvogi og alla leið á Lækjargötu þar sem vagninn stoppaði fyrir utan MR. Þetta tók um 40 mínútur aðra leið. Ég var svo niðri í miðbæ allan liðlangann daginn og fram á kvöld, fór jafnvel og hitti vini í Vesturbænum, enn með skólatöskuna með mér. 

Að taka strætó heim að loknum skóladegi, þýddi nefnilega að ég gæti ekki hitt vini mína í Vesturbæ nema að taka strætó í þriðja sinn um kvöldið, þ.e.a.s. ef fjölskyldubíllinn var ekki til útláns. Mamma og pabbi voru þó yfirleitt góð og lánuðu mér bílinn gegn því að ég rúntaði ekki mikið á honum, sem ég gerði yfirleitt ekki. Rúnturinn fram og til baka frá Grafarvogi og vestur í bæ að hitta vini var alveg nóg.

Svo var það fjarri byggð einn fagran veðurdag,
að við Rauður fórum í feikna slag.
Ég setti‘ á hann beisli og setti‘ á hann hnakk.
Hann barði og beit og niður fótum stakk.

Ég komst þó á bak og hann þaut af stað,
þið hefðuð bara átt að líta á það.
Ofan móa og mýrar á engri stund,
yfir Markarfljótið hann fór á sund.

Þegar ég byrjaði í háskóla leit svo út fyrir að ég héldi áfram að taka sexunna líkt og áður, úr Grafarvogi og upp í HÍ. Eftir fjögur ár af strætóferðum, úr Grafarvogi og í MR, var ég hins vegar kominn með nóg og flutti því vestur í bæ, inn til vinar míns sem átti laust herbergi nærri háskólanum. Þarna hélt ég að lausnin væri komin, ég þyrfti sko aldrei að keyra bíll eitt né neitt. Ég gæti farið labbandi í skólann og tekið stutta strætóferð í vinnuna, sem þá var niðri á Suðurlandsbraut. 

En allt kom fyrir ekki. Flest kvöld var ég búinn að vinna eftir að strætó hætti að ganga og þá var fátt annað í stöðunni en að labba heim. Það tók sömu 40 mínúturnar og strætóferðirnar frá Grafarvogi og vestur í bæ, nema í þetta sinn var ég fótgangandi. 

Graði Rauður var gæðingur,
glæstur hálf taminn stóðhestur.
Á hverjum degi ég gaf honum brauð,
því mig langaði‘ að ríða‘ honum Graða Rauð.

Hér í Reykjavík ræður einkabíllinn ríkjum. Sé einhver ósammála þeirri fullyrðingu býð ég hinum sama að vera bíllaus í Reykjavík í mánuð – sjáum hvað viðkomandi finnst að þeim tíma liðnum. 

Hafandi reynt eftir fremsta megni að lifa hinum bíllausa lífsstíl undanfarin ár hef ég alltaf óskað þess að umfang einkabílsins minnki. Ég veit af eigin raun hversu erfitt það er að eiga ekki bíl. Ég hef ekkert á móti einkabílnum, þvert á móti elska ég hann Graða-Rauð minn, en aðrir samgöngumátar fá bara of lítið pláss. 

Í texta Magnúsar Eiríkssonar segir hann söguna af því hvernig hann reynir eftir bestu getu að temja stóðhestinn Graða-Rauð. Saga mín af bílleysinu er hin sama, ég hafði draumsýn um að beisla bílleysið og temja sjálfum mér að nota aðra ferðakosti. Hafandi nánast náð takmarki okkar komumst við Magnús að lokum að sömu niðurstöðu: Magnús sór að gelda stóðhestinn og ég sór að gelda hugmyndina um bílleysið. Það er því ekki nema viðeigandi að uppgjöf mín á altari einkabílsins, heiti í höfuðið á stóðhestinum fræga.

Á bökkunum móður hann staðar nam
og virtist loksins úr mesta ham.
Ég steig af baki og strauk honum hlýtt
um snoppuna og höfuðið undurblítt.

Hann sló mig í rot og ég lengi lá
í öngviti líka tíma þrjá.
Og ég sem gaf honum dag hvern brauð,
ég sór þá að gelda hann Graða Rauð.

Latest posts by Oddur Þórðarson (see all)

Oddur Þórðarson skrifar

Oddur hóf að skrifa á Deigluna í maí 2020.