165 lögverndaðar starfsgreinar

Þar sem búast má við því að einstakar starfsréttir taki því illa að missa sína lögverndun, þá væri á það reynandi að endurskoða allar lögverndanir í einu lagi og taka umræðuna heildstætt út af hagsmunum almennings og samfélagsins í heild en ekki út frá sérhagsmunum einstakra starfsstétta.

Í nýlegu samkeppnismati OECD á Íslandi kemur fram að á Íslandi eru 165 lögverndaðar starfsgreinar, þar af eru 154 þar sem einkaréttur er til tiltekinna starfa. Langtum fleiri starfsgreinar virðast njóta lögverndar hér á landi en gengur og gerist í Evrópu. Í samkeppnismatinu var samanburður við nokkur lönd í Evrópu þar sem lögvernduð starfsheiti voru á bilinu 20 – 120 (fæst í Hollandi og flest í Danmörku). Ekkert land virðist þó komast með tærnar þar sem Ísland hefur hælana.

Í góðu tómi mætti reyna að telja upp 60 starfsgreinar og þá er auðvitað fjarri því að þær séu allar þess eðlis að þurfa að njóta lögverndar, en 165! Til að komast upp í 60 er þó auðvelt að fletta upp reglugerð nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar þar sem einmitt eru taldar upp 60 iðngreinar sem njóta lögverndar.

Í samkeppnismatinu er fjallað ítarlega um hugmyndafræði í kringum lögverndun starfsheita, helstu röksemdir fyrir því að lögvernda sumar starfsgreinar en einnig óhagkvæmnina sem fylgir því að lögvernda allt of margar starfsgreinar á allt of íþyngjandi hátt. Augljósustu rökin fyrir einhvers konar lögverndun er þegar neytendur búa ekki yfir nægilegum upplýsingum til að meta gæði þjónustunnar og þar sem slök þjónusta getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir neytendur eða verið kostnaðarsamar fyrir samfélagið. Læknisþjónusta er besta dæmið um bæði, enda auðvelt að rökstyðja lögverndun starfsheitis lækna. Helstu afleiðingar of mikillar lögverndunar eru lægri atvinnuþátttaka, hærra verð fyrir neytendur og minni framleiðni.

Ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hófst enda strax handa og hefur lagt fram frumvarp til laga í takt við niðurstöður samkeppnismats OECD. Í frumvarpinu er lagt til að einfalda regluverk og fella á brott lögverndun starfsheita bókara og viðskipta- og hagfræðinga. Er það vel, en undirstrikar um leið þá æpandi þörf sem er á að endurskoða lögverndun hinna 162.

Þar sem búast má við því að einstakar starfsréttir taki því illa að missa sína lögverndun, þá væri á það reynandi að endurskoða allar lögverndanir í einu lagi og taka umræðuna heildstætt út af hagsmunum almennings og samfélagsins í heild en ekki út frá sérhagsmunum einstakra starfsstétta.

Það er mér auðvitað sérstakt fagnaðarefni að geta í framtíðnni kallað mig hagfræðing, sem hingað til hefur verið lögverndað starfsheiti og aðeins á færi þeirra sem lokið hafa BS gráðu í hagfræði, en ekki þeirra sem einungis hafa lokið BA gráðu í hagfræði.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.