Haturberar V

Afstaða Deiglunnar

Í fjórum pistlum hér á Deiglunni í þessari viku hefur Andri Óttarsson farið á ítarlegan og greinargóðan hátt í gegnum málflutning þeirra sem telja að það sé sérstakt vandamál í samfélaginu að fólk úr öðrum menningarheimum kjósi að setjast hér að.

Afstaða Deiglunnar

Í fjórum pistlum hér á Deiglunni í þessari viku hefur Andri Óttarsson farið á ítarlegan og greinargóðan hátt í gegnum málflutning þeirra sem telja að það sé sérstakt vandamál í samfélaginu að fólk úr öðrum menningarheimum kjósi að setjast hér að. Óhætt er að segja að eftir yfirferð Andra standi vart steinn yfir steini í málflutningi haturberanna.

Frá stofnun Deiglunnar hafa mannréttindi og einstaklingsfrelsi verið undirstaða ritstjórnarstefnunnar og sá sameiginlegi grundvöllur sem bundið hefur saman þá fjölmörgu sem kosið hafa að leggja vefritinu lið. Skoðun Deiglunnar er eindregið sú að einskis virði sé að berjast fyrir slíkum réttindum og lífsgildum nema að sú barátta nái út fyrir öll landamæri ríkja og aðra pólitíska flokkadrætti.

Hornsteinn stefnu Deiglunnar er sú skoðun að frumburðarréttur hvers einstaklings sé frelsi, mannhelgi og virðing. Í þessari skoðun felst að einstaklingur sem fæðist á Íslandi hefur ekkert til þess unnið að fæðast inn í frjálst og ríkt samfélag heldur sé það lán sem beri að þakka fyrir en ekki gorta sig af eða fyllast stolti yfir. Ennfremur leiðir af þessu að sú skoðun að öll tilhneiging til þess að vilja meina öðrum einstaklingum að njóta þess sama láns sé í raun ekkert annað en barnaleg frekja og síngirni.

Á þeim rúmum sex árum sem Deiglan hefur starfað hefur hún stundum verið kölluð „andþjóðernisleg”. Við það höfum við ekkert að athuga. Sé það andþjóðernislegt að hafa þá skoðun, að sem flestir eigi að hafa tækifæri til að njóta þeirrar sömu gæfu og við sjálf, þá telur Deiglan þann stimpil vera fremur til hróss en hnjóðs.

Það að vera Íslendingur er happ. Fæst okkar eru í liðinu „Íslendingar” af því að við tókum um það sjálfstæða ákvörðun – heldur af því örlögin veittu okkur þau forréttindi. Það er hægt að vera stoltur yfir eigin árangri og afrekum en það er hæpin lífssýn að vera uppfullur af stolti yfir glópaláni.

Við teljum að heilbrigð sýn á uppruna og þjóðerni felist í auðmýkt og þakklæti. Þeir sem byggðu upp íslenskt þjóðfélag eiga skilið þakkir okkar og virðingu. Við megum heldur ekki gleyma því að það er margt líkt með forfeðrum okkar og innflytjendunum sem eru að hefja nýtt líf hér á landi. Í ritstjórnarpistli sem birtist 3. febrúar síðastliðinn, á sex ára afmæli Deiglunnar, sagði meðal annars:

Það er auðvitað ekkert annað en aðdáunarvert þegar einstaklingar, sem við kröpp kjör búa, hafa kjark til þess að flytja til fjarlægs lands til að öðlast betri lífskjör fyrir sig og sína. Það minnir um margt á þrautseigju og dugnað genginna kynslóða hér á landi. Þessir nýju meðlimir íslensks samfélags eiga því jafnvel meira skilið en margir hinna innfæddu að vera kallaðir góðir Íslendingar.

Gullna regla kristninnar um að koma skuli fram við náungann eins og maður vill að komið sé fram við mann sjálfan er sennilega einhver gagnlegustu fyrirmælin í samanlagðri flóru misgáfulegra boðorða trúarbragða heimsins. Þetta þurfum við að hafa í huga þegar menn telja sig þurfa að ræða „innflytjendavandann” eða „hætturnar sem fylgja miklum straumi innflytjenda.” Slíkt tal felur í sér að ákveðinn hópur fólks er á tilviljanakenndan hátt flokkaðaður sem einhvers konar vandamálahópur.

Áður en slíkum málflutningi er veittur gaumur ættu menn að velta því fyrir sér hvað þeir eru í raun að segja með þátttöku í slíkum vangaveltum. Með því er nefnilega verið að hlutgera stóran hóp einstaklinga og neita þeim um þau réttindi, sem flestum okkar þykja eðlileg, að komið sé fram við okkur eins og venjulegt fólk. Við eigum öll skilið að vera dæmd út frá því hver, en ekki hvað, við erum. Og hollara er að að taka afstöðu til fólks út frá því hvert það er að fara í lífinu heldur en hvaðan það kemur.

Það er líka ágætt að hafa í huga þegar slíkt tal upphefst hvort maður vildi að talað væri á viðlíka hátt um foreldra manns, börn eða vini – því það eiga allir menn sameiginlegt – sama hvaðan þeir koma – að í þeirra eigin huga eru þeir fyrst og fremst foreldrar einhverra, makar einhverra, börn einhverra, frændur einhverra, frænkur einhverra. Vinir einhverra.

Einstaklingar.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.