Haturberar IV

Þriðja klisja kynþáttahatarans

Í pistli mínum á mánudag kom fram að hræðsluáróður kynþáttahatara byggist upp á þremur lykiþáttum eða klisjum. Í dag er ætlunin að fjalla um síðustu klisjuna um heimfærslu neikvæðra frétta og tölfræði um útlendinga upp á Ísland.

Þriðja klisja kynþáttahatarans

Í pistli mínum á mánudag kom fram að hræðsluáróður kynþáttahatara byggist upp á þremur lykiþáttum eða klisjum. Í fyrsta lagi að taka neikvæðar fréttir af fólki af erlendum uppruna og heimfæra þær upp á alla útlendinga. Í öðru lagi að ýkja og afskræma alla tölfræði um málaflokkinn. Í þriðja lagi að heimfæra satt og logið ástand og tölfræði erlendis í þessum málum upp á Ísland. Í dag er ætlunin að fjalla um síðustu klisjuna um heimfærslu neikvæðra frétta og tölfræði um útlendinga upp á Ísland.

Íslenska hatursvaktin

Í pistli á þriðjudag setti undirritaður fram dæmi um hvernig haturberar nota átök þar sem fólk af erlendum uppruna kemur við sögu til að kynda undir fordómum um alla útlendinga. Íslenskir haturberar láta hins vegar ekki staðar numið við það og gera gott betur. Þeir fullyrða nefnilega að átök erlendis þar sem nýbúar koma við sögu hafi áhrif hér á landi og vegna þeirra þá eigum við að sýna gát í innflytjendamálum á Íslandi. Það verður ekki annað sagt en að það er vandlifað sem íbúi af erlendum uppruna t.d. í Nörrebro í Kaupmannahöfn eða St. Denis í París. Ekki nóg með að einhverjir vitleysingar heima fyrir bíði spenntir eftir að þú misstígir þig til að geta klínt því á alla útlendinga þá eru enn meiri vitleysingar í þúsund kílómetra fjarlægð á lítilli eyju lengst norður í Ballarhafi sem halda því fram að mistök þín hafi áhrif á þá!

Á sama hátt þá þefa íslensku kynþáttahatararnir uppi erlenda haturberatölfræði og nota til að kynda undir fordómum. Gagnrýnin hugsun er ekki meiri en svo að snillingarnir þekkja yfirleitt ekki hvað liggur að baki heldur bergmála einhverjar „staðreyndir um útlendinga” sem þeir hafa séð eða lesið hjá rasistaflokkunum erlendis.

Vandamál í Paradís

Það er hins vegar skiljanlegt að íslensku haturberarnir neyðist til að grípa til þessara ráða. Málið er að þrátt fyrir einbeittan og sterkan vilja þá hafa þeir lent í bölvuðum vandræðum með að finna innlend atvik og tölfræði til að misnota. Þeir hafa vissulega reynt að framleiða innlenda vitleysu en alltaf endað í erlendu efni. Vandamálið er að vitleysan sem þeir framleiða er svo lítilfjörleg að hún gerir þá enn hlægilegri. Sem dæmi má nefna að Félag Framfarasinna hefur ítrekað reynt að gera sér mat úr annars fátíðum átökum pilta á gagnfræðiskólaaldri í Breiðholti og látið að því liggja að allsherjar kynþáttastríð geisi í Reykjavík. Þeir hafa einnig gert mikið úr því hættuástandi sem ríkir á sjúkrahúsum landsins þar sem að skúringarkonurnar kunni ekki íslensku. Mannvitsbrekkurnar í Félagi Þjóðernissinna gera gott betur og halda úti lista yfir þau fyrirtæki sem ráða útlendinga í vinnu vegna þess að þeir eiga víst að vera að stela vinnu af Íslendingum. (Listann kalla þeir „svarta listann” og eru lesendur Deiglunnar eindregið hvattir til þess að beina viðskiptum sínum til þeirra fyrirtækja sem þar eru á skrá.)

Staðreyndin er sú að atvinnuástand innflytjenda er mjög gott hér á landi. Sem dæmi má nefna að hlutfall innflytjenda hér á landi með atvinnutekjur var tæplega 93% árið 2000 skv. upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun. Það er því ljóst að útlendingar eru að skapa mikil verðmæti með veru sinni hér á landi t.d. með vinnuframlagi sínu og greiðslu opinberra gjalda.

Einnig verður að benda á að þetta hlutfall innflytjenda með atvinnutekjur er mun hærra en hlutfall innfæddra Íslendinga með atvinnutekjur sem rétt slagaði yfir 80% á sama tíma. Það er því mun líklegra að Íslendingar séu að þiggja bætur frá ríkinu en innflytjendur hér á landi. Þetta grefur algjörlega undan þeirri þvælu sem heyrist oft að innflytjendur séu að koma hingað til að leggjast á félagsmálayfirvöld.

Þetta sýnir að ástand mála er miklu betra hér á landi en erlendis. Atvinna er grundvöllur þess að innflytjendur geti aðlagast samfélaginu og orðið virkir þegnar í því. Erlendis hafa innflytjendur átt í miklum erfiðleikum með útvega sér atvinnu vegna fordóma og annarra félagslegra þátta. Það er því greinilegt að hér á landi hefur verið tekið með mun opnari hugarfari á móti innflytjendum

Hins vegar eru blikur á lofti hér á landi. Í skýrslu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu um stöðu mannréttinda í heiminum sem fjallað var um á mánudaginn kemur fram að orðið nýbúi hafi neikvæða merkingu hér á landi og sé aðallega notað yfir litaða einstaklinga. Jafnframt að asískar konur séu taldar vændiskonur sjáist þær á ferli eftir sólsetur og að börnum innflytjenda sé strítt á því að þau hafi verið seld hingað til lands á Internetinu.

Staðan svipuð á Íslandi

Að lokum megum við ekki gleyma því að skv. nýlegum tölum frá Evrópuráðinu þá eru erlendir ríkisborgarar 3,5% af heildaríbúafjölda Íslands. Líklega eru farandverkamennirnir við Kárahnjúka ekki inn í þessari tölu þannig að hún er líklega mun hærri. Í nágrannalöndum okkar eru þeir um 4% þannig að hlutfallslegur fjöldi innflytjenda á Íslandi er svipaður og hjá þeim. Samt sem áður þá virðist ekkert benda til þess að erlendu hryllingssögunar frá nágrannalöndum okkar séu að rætast hér á landi. Ef einhver fótur væri fyrir þeim þá ættu þær einfaldlega að vera orðnar að veruleika því það eru hlutfallslega næstum alveg jafn margir innflytjendur hér á landi og þaðan sem vitleysan kemur. Er það von að maður spyrji: Hvar eru eiginlega:

Hverfin þar sem enginn talar íslensku?

Allir vondu múslimarnir?

Glæpafaraldurinn?

Allt atvinnuleysið ( þar sem innflytjendurnir stela jú vinnu af heimamönnum)?

Og auðvitað… Öll innflytjendahverfin þar sem meirihluti íbúa nennir ekki að vinna og er bara á velferðarkerfinu?

Auðvitað er þetta ekki sjáanlegt hér á landi því þessar hryllingssögur sem haturberarnir útbreiða eru einfaldlega byggðar á sandi.

Í pistli mínum í gær sagði ég einnig að „innflytjendavandamál” væru fyrst og fremst til í hausnum á þeim sem leita að afsökun fyrir fordómafullu lífsviðhorfi sínu. Því miður hafa þessir fordómafullu einstaklingar náð það miklum árangri víða að fordómar þeirra eru raunverulegt vandamál sem smitar út frá sér. Þar valda fordómar því að útlendingar fá ekki vinnu og verða fyrir félagslegu aðkasti. Þetta getur svo aftur af sér vandamál sem meðal annars er hægt að túlka í hæpinni tölfræði.

Rasistarnir úthrópa innflytjendur og gera þeim lífið óbærilegt. Þeir neyða þá út í öngstræti þar sem biturð og beiskja ná tökum á þeim, rétt eins og allra þjóða fólki sem lendir í slíku óréttlæti. Við þetta magnast félagsleg vandamál innflytjenda og ekki síst barna þeirra. Fólk er brennimerkt – og jafnvel innfæddir fá á sig merkimiðann „annarrar kynslóðar innflytjendur” þótt skrýtið sé að gera sér í hugarlund að fólk sem aldrei hefur flutt eitt eða neitt sé innflytjendur.

Innflytjendavandi” er í öllum tilvikum heimatilbúinn vandi sem byggist á því að fólk er ekki tilbúið að bera virðingu fyrir einstaklingum og lætur órökstudda hræðslu við hið nýja og við breytingar ná tökum á tilveru sinni. Hér á Íslandi er nauðsynlegt að boðskapurinn um að hver einstaklingur eigi rétt á mannhelgi, virðingu og tækifærum heyrist hærra og skýrar en hin hatursfullu ofstækissjónarmið sem eru rót alls þess versta sem mannskepnan hefur alið af sér.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.