Happdrættisvinningur?

Alþingi samþykkti í gær sérstakt viðbótarframlag til samgöngumála upp á þrjá milljarða króna og stendur því til að verja alls níu milljörðum til ýmissa samgöngubóta á næstu árum.

Alþingi samþykkti í gær sérstakt viðbótarframlag til samgöngumála upp á þrjá milljarða króna og stendur því til að verja alls níu milljörðum til ýmissa samgöngubóta á næstu árum. Eflaust eru þetta allt saman nauðsynlegar samgöngubætur, sérstaklega þó lagning vegar yfir Kolgrafarfjörð á Snæfellsnesi. DEIGLAN dregur ekki í efa að ráðamönnum gangi gott eitt til með þessum aðgerðum en góður ásetningur leiðir ekki alltaf til góðrar niðurstöðu. Ýmsir hafa gagnrýnt að ráðist sé í svo stórfelldar og kostnaðarsamaraðgerðir af hálfu ríkisvaldsins á þenslutímum og á sú gagnrýni fyllilega rétt á sér.

En samgönguráðherra segir framkvæmdirnar ekki eiga að auka á þenslu í þjóðfélaginu, þar sem til standi að nota til þeirra fé sem til fellur við sölu ríkiseigna. Fyrir nokkrum dögum fjallaði DEIGLAN um útboð á vegum breska ríkisins á farsímarásum þar í landi, þar sem hagnaðurinn hljóp á tugum þúsunda milljarða. Og hyggst vinstri stjórnin á Bretlandi nota þennan óvænta hagnað, sem að sönnu má líkja við happdrættisvinning, til að bæta úr brýnum úrlausnarefnum? Nei, ef marka má orð Gordons Brown, fjármálaráðherra Bretlands, stendur til að greiða niður nær allar skuldir breska ríkisins fyrir hagnaðinn af uppboðinu.

Þótt hugsanlegt andvirði þeirra ríkiseigna sem til stendur að selja hér á landi sé mun miklu minna en þessi stjarnfræðilega upphæð frá Bretlandi, þá er engu að síður um að tefla nokkur verðmætustu fyrirtækin í eigu ríksins og ljóst að þau verða bara seld einu sinni. Andvirði þeirra er ekki happdrættisvinningur heldur fjármunir sem ríkið á bundið í þessum fyrirtækjum. Ríkið hagnast því í raun ekkert á sölu þeirra, því engin viðbótareign verður til. Hins vegar mun hugsanleg sala breyta eignum í peninga og þá peninga á að fara með eins og aðra peninga sem ríkisvaldinu áskotnast. Annað hvort hefði átt að greiða niður skuldir ríkissjóðs með þeim, eða nota svigrúmið til að lækka skattbyrði borgaranna. Hvor leiðin sé heppilegri er hagfræðilegt úrlausnarefni, en að mati DEIGLUNNAR hefðu aðrar leiðir aldrei átt að koma til álita.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.