Þegar gæfan faðminn bauð…

Í nýlegu fréttabréfi knattspyrnufélags ÍA er greint frá því að ný auglýsing muni prýða búninga félagsins í sumar en Búnaðarbankinn hf. hefur verið aðalstyrktaraðili ÍA síðan velmektartímabil félagsins hófst í upphafi 10. áratugarins.

Í nýlegu fréttabréfi knattspyrnufélags ÍA er greint frá því að ný auglýsing muni prýða búninga félagsins í sumar en Búnaðarbankinn hf. hefur verið aðalstyrktaraðili ÍA síðan velmektartímabil félagsins hófst í upphafi 10. áratugarins. Það er nokkuð í takt við fallandi gengi liðsins að nýi styrktaraðilinn heitir Skagaver en það er n.k. kjörbúð í þessu 5.000 manna bæjarfélagi – reyndar ágætis verslun og allt það. Önnur knattspyrnulið, einkum KR (sem Skagamenn hafa einkum borið sig saman við) blómstra nú sem aldrei fyrr, jafnt innan vallar og utan.

Hugurinn leitar fjögur ár aftur í tímann, til ársins 1996. Skagamenn áttu yfirburðalið íslenskrar knattspyrnu, voru þrefaldir meistarar og meðalaldur leikmanna í lægri kantinum. Framtíðin var björt og raunverulegt tækifæri fyrir hendi til að gera félagið að virkilegu stórveldi, sem skákað gæti KR og álíka klúbbum utan vallar sem innan um ókomna tíð. En hvað gerðist? Ógæfa, mistök og rangar ákvarðanir, að ekki sé minnst á forherta heimsku þeirra sem sáu um stjórn félagsins á næstu misserum, gerðu það að verkum, að ÍA féll af verðskulduðum stalli sínum og hefur síðan einungis verið miðlungs lið og enn lakara knattspyrnufélag.

Haustið 1996 var fyrir hendi upplagt tækifæri til að hlutafélagavæða rekstur knattspyrnufélagsins og tryggja þar með fjárhagslegan grundvöll þess til frambúðar. En á Akranesi er málum þannig háttað, að fámennur hópur manna hefur tögl og hagldir í félaginu, ekki í krafti fjármagns nema að litlu leyti, heldur í krafti klíkuskapar. Þessir aðilar voru auðvitað mjög ófúsir að missa völd sín og ítök í félaginu til utanaðkomandi aðila. Betra var að halda völdum og sína mátt sinn og megin við stjórn félagsins. Svo mikill var mátturinn að félagið, sem þá bar höfuð og herðar yfir önnur knattspyrnulið hér á landi, stendur nú aðeins fjórum árum síðar langt að baki félagi á borð við KR, sem hafði kjark og þor til að breyta hlutunum í nútímalegra horf.

Haustið 1996 var við störf hjá ÍA fremsti þjálfari landsins, Guðjón Þórðarson, og hafði hann þegar lagt drögin að starfi félagsins næstu þrjú árin, enda samningsbundinn félaginu til 1999. Þrátt fyrir óumdeildan árangur Guðjóns með liðið ríkti mikil kergja í hans garð af hálfu þeirra sem vildu ítök sín og áhrif sem mest innan félagsins. Var unnið að því leynt og ljóst að „að leysa félagið undan gullsamningnum við Guðjón,“ eins og Stefán Jón Hafstein skrifaði í Dag-Tímann sumarið 1996. Í desember sama ár fengu þessir aðilar síðan tylliástæðu fyrir uppsögn, sem síðan var dæmd ólögleg. Skildu þá leiðir með Guðjóni Þórðarsyni og knattspyrnufélaginu ÍA. Ólíkt hlutskipti beggja í framhaldinu er öllum ljóst. Ábyrgð þeirra, sem að þeirri ákvörðun stóðu og þeirra sem við tóku og stýrðu félaginu lóðbeint niður á við, er mikil.

En vonandi er framundan betri tíð hjá knattspyrnufélaginu ÍA. Nýráðinn þjálfari liðsins, Ólafur Þórðarson, lofar góðu og liðið gæti hugsanlega komið á óvart í sumar. Aðal hagsmunamál félagsins er að mati DEIGLUNNAR breytt rekstrarform og hlutafélagavæðing. Þótt aðstæður til slíks séu ekki eins góðar nú og á hátindinum 1996 eru forsendurnar engu að síður fyrir hendi og því að hrökkva eða stökkva. Sú staðreynd að hrinda þurfti af stað hálfgildings landssöfnun til fá Sigurð Jónsson í raðir ÍA á ný, er skýrt merki um að félagið þurfi nauðsynlega að styrkja fjárhagslegan grundvöll sinn. Öðruvísi verður alvöru knattspyrnufélag ekki rekið og það þýðir ekkert að berja hausnum í steininn í þeim efnum, í von um að hann brotni.

Þess má að lokum geta að í fyrrnefndu fréttabréfi ÍA er sagt frá nýjum búningi en ákvörðun um hann mun hafa verið tekin undir nýjum einkunnarorðum félagsins, sem birt eru í fréttabréfinu og getur DEIGLAN ekki stillt sig um að birta lesendum sínum þau í heild:

„Ný stjórn, nýr framkvæmdastjóri, nýr vallarvörður, nýtt starfsfólk á velli, nýr þjálfari, nýr búningur, ný öld og nýtt velgengnistímabil.“

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.