Að styðja góð mál

Stjórnarandstöðunni á Alþingi virðist vera lífsins ómögulegt að fá frumvörp samþykkt. Sama hversu góð þau eru. Aðeins þau mál sem koma frá meirihlutanum eru líkleg til þess að fá brautargengi. Sama hvaða flokkar eru í meiri- og minnihluta. Þannig virkar pólitíkin.

Já þannig virkar úrelt, hundleiðinleg og úr sér gengin pólitík.

Pistlahöfundur starfar á öðrum vettvangi stjórnmálanna, í bæjarstjórn Grindavíkur. Fyrir þarsíðasta kjörtímabil var ákveðið að bjóða fram ópólitískan flokk, Lista Grindvíkinga. Flokk fyrir alla þá sem einhvern áhuga hefðu á málefnum bæjarfélagsins og langaði að koma að stjórnmálum öðruvísi en með fjórflokkunum sem á þeim tíma nutu lítils trausts.

Eitt af okkar stefnumálum var að samþykkja góð mál, sama hvaðan þau kæmu. Ef þau þjónuðu hagsmunum bæjarfélagsins og íbúum þess.

Það sem af er þessu kjörtímabili höfum við í meirihlutanum þegar samþykkt tvær mjög góðar tillögur frá minnihlutanum. Annars vegar að senda beint út frá bæjarstjórnarfundum og hins vegar að foreldar barna sem ekki komast inn á leikskóla eftir 18 mánaða aldur þurfi ekki að greiða hærri gjöld til dagforeldra en sem nemur leikskólagjaldi.

Þetta er að okkar mati eðlileg pólitík. Enginn „leikur“. Við styðjum góð mál. Fyrir íbúa bæjarins.

Þetta mætti Alþingi líka gera. Nú þegar hafa nokkur þingmannamál verið send til umsagnar hjá sveitarfélögunum á þessu haustþingi. Mál sem eru góð, sem gagnast öllum íbúum landsins vel eins og t.d. frumvarp til laga um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku þar sem hugmyndin er m.a. að færa frídaga að helgum. Þetta mætti Alþingi t.a.m. samþykkja í þágu þjóðarinnar. Enda fögnuðum við í bæjarráði að þarna væri komið frumvarp sem mögulega gæti stuðlað að fjölskylduvænna samfélagi.

Annað gott mál sem sent var til umsagnar sveitarfélaganna er þingsályktun um endurskoðun laga um lögheimili. Reyndar er þar einn stjórnarþingmaður flutningsmaður. Þetta mál snýr að því að hjónum verði heimilt að eiga lögheimili á sitt hvorum staðnum. Hvort sem þau þurfa, vinnu sinnar vegna, að búa í sitt hvoru sveitarfélaginu eða í sitt hvoru landinu. Líklega ekki mikill tilkostnaður að breyta þessu frekar en að færa til frídaga.

Vel má vera að einhver frumvörp eða þingsályktanir minnihluta hafi verið samþykkt í áranna rás. Á því hefur pistlahöfundur ekki gert neina rannsókn. Hins vegar er vitað mál að það er frekar regla en undantekning að þessum málum er hafnað, ýtt til hliðar, svæfð í nefnd eða látin í „biðbunkann“ og hvorki tekin til afgreiðslu á haustþingi eða vorþingi.

Ég hvet þingmenn til þess að verða opnari í að styðja góð mál sama hvaðan þau koma. Þetta á bæði við meirihluta og minnihluta. Við hljótum þegar öllu er á botninn hvolft að horfa meira til þess að koma til móts við fólkið í landinu í stað þess að halda í gamal gróna og úrelta pólitík. Pólitík þar sem meira máli skiptir að spila „leikinn“ en að leyfa þjóðinni að njóta ávinnings góðra mála.

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.