Þrautaganga þingmáls

Þegar ég vann í Stjórnarráðinu var stundum talað um Helvítisgjánna. Þangað fóru gjarnan mál sem þrotlaus vinna lá að baki en einhverra hluta vegna enduðu alltaf á sama stað. Sofandi í Helvítisgjánni. Það átti sér stundum eðlilegar skýringar. Stundum ekki.

Þegar ég vann í Stjórnarráðinu var stundum talað um Helvítisgjánna. Þangað fóru gjarnan mál sem þrotlaus vinna lá að baki en einhverra hluta vegna enduðu alltaf á sama stað. Sofandi í Helvítisgjánni. Það átti sér stundum eðlilegar skýringar. Stundum ekki.

Í október 2017, í valdatíð fyrri ríkisstjórnar, var í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu skipaður starfshópur til að vinna tillögur að endurskoðuðu regluverki um leigubifreiðaakstur hér á landi. Tilefnið voru annars vegar athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við það sem kynnu að teljast aðgangshindranir í regluverkinu og hins vegar sífellt háværara ákall neytenda um aukið frelsi á leigubifreiðamarkaði til þess að unnt væri að laga þjónustuna að þörfum þeirra, ýta undir nýsköpun og auðvelda innstig nýrra aðila á markaðinn.

Starfshópurinn vann tillögur sem skilað var til ráðuneytisins í mars 2018. Á grundvelli þessara tillagna var unnið frumvarp sem byggði að mestu leyti á tillögum skýrslunnar auk fram kominna athugasemda við hana. Frumvarpið hefur nú verið lagt fram í tvígang. Fyrst haustið 2019 þar sem það gekk til umhverfis- og samgöngunefndar eftir 1. umræðu en hlaut ekki afgreiðslu þar. Svo haustið 2020 þar sem örlög þess voru á sömu leið.

Á meðan á öðrum vettvangi

Á meðan frumvarpið hefur legið í svæfingarvélinni hefur verið fjallað um það, og núgildandi regluverk um leigubifreiðar hér á landi, á öðrum vettvangi. Þar hafa hins vegar verið settar fram niðurstöður.

ESA hefur, að eigin frumkvæði, haft íslenskt regluverk um leigubifreiðar til umfjöllunar um nokkurt skeið. Nú er svo komið að vegna þess hve lítinn framgang málið hefur hlotið hefur stofnunin hafið undirbúning samningsbrotamáls á hendur íslenska ríkinu vegna þeirra aðgangshindrana sem stofnunin telur felast í tilteknum ákvæðum núgildandi regluverks. Íslenska ríkið þarf því nú að verja óverjandi stöðu gagnvart stofnuninni að því er virðist vegna þess að stjórnarflokkarnir gátu ekki sameinast um að tryggja niðurstöðu í málinu. Máli sem snýr að því að auka frelsi á leigubifreiðamarkaðnum, bæði neytendum og þjónustuveitendum til hagsbóta. Máli sem ætlað að er tryggja það að íslenska ríkið uppfylli þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem það hefur undirgengist. Máli sem ætlað er að færa lög og reglur um leigubifreiðar til nútímalegra horfs með öruggar og tryggar samgöngur að leiðarljósi. Máli sem er þarft og gott mál.

Á sama tíma og núgildandi regluverk um leigubifreiðar hefur verið undir frumkvæðisathugun hjá ESA hefur það einnig verið til umfjöllunar á vettvangi OECD. Sú athugun kom ekki til að frumkvæði OECD heldur að beiðni ríkisstjórnarinnar sem leitaðist eftir því að OECD framkvæmdi samkeppnismat á regluverki á sviði ferðaþjónustu og byggingariðnaðar hér á landi til að koma auga á samkeppnishindranir. Íslenskt regluverk um leigubifreiðar fékk sérstaka umfjöllun í þeirri skýrslu sem OECD skilaði ríkisstjórninni. Leigubifreiðar voru sagðar gegna mikilvægu hlutverki í ferðaþjónustu á Íslandi, einkum í farþegaakstri á höfuðborgarsvæðinu. Því var sérstaklega fagnað að regluverkið sætti nú endurskoðun, enda innihéldi það umfangsmiklar samkeppnishindranir og stæði í vegi fyrir nýsköpun. Þessi niðurstaða, sem er hluti af úttekt sem ríkisstjórnin sjálf óskaði eftir, hefur engin áhrif haft á framgang frumvarps til nýrra laga um leigubifreiðaakstur á Alþingi.

Enn eitt þingmálið í Helvítisgjánna

Nú lýkur brátt valdatíð þessarar ríkisstjórnar og þetta frelsismál, sem nú hefur í tvígang verið lagt fyrir Alþingi að fjalla um, hefur nánast enga umfjöllun hlotið og engar skýringar að finna á því aðrar en þær að stjórnarflokkarnir virðast ekki hafa getað komið sér sama um efni þess eða afgreiðslu. Það hefur verið svæft og hvílir nú í Helvítisgjánni þar til einhverjum þóknast að veiða það upp.

Þetta er aðeins eitt mál af mörgum sem ríkisstjórnin hefur svæft að því er virðist vegna innbyrðis ágreinings sem ekki tekst að leysa. Þeir sem líða fyrir það í þessu tilfelli eru íslenskir neytendur og svo auðvitað íslenskir skattgreiðendur – eins og alltaf.

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)