Haf’etta eins og Kaninn

Ég heyrði einu sinni sögu af konu sem gerði sér ferð til Reykjavíkur einhver jólin til þess að berja Coca Cola-lestina augum. Þegar hún sá loksins bílalestina með allri ljósadýrðinni og sannameríska jólaandanum varð hún yfir sig hrifin. Hrifnust var hún þó af laginu sem heyrðist þegar lestin skreið um bæinn. „Holidays are coming, holidays are coming!“ Konan gíraðist alveg upp við að heyra þetta lag en það var ekki alveg beint jólagírinn sem helltist yfir hana, vegna þess að hún misheyrði texta lagsins. Hún hélt nefnilega að kórinn sem boðar fagnaðarerindi jólanna í laginu fræga væru Íslendingar að kyrja „Haf´etta eins og Kaninn, haf´etta eins og Kaninn!“. Konan snögggíraðist skiljanlega og fannst þetta bara ógeðlega flott. Eins og mörgum Íslendingum fannst henni greinilega alveg ágætt að haf´etta einsog Kaninn!

Þegar kemur að afþreyingu og dægurmenningu eru Íslendingar svolítið hændir að Bandaríkjunum. Bróðurpartur alls þess afþreyingarefnis sem við neytum á Íslandi kemur frá Bandaríkjunum. Flestar kvikmyndir, flestir sjónvarpsþættir, tónlist og lesefni sem ég t.a.m. neyti er amerískt. Ég veit óneitanlega meira um bandaríska menningu en nokkurn tíma menningu einhvers annars Evrópulands, og hvað þá menningu landa utan Evrópu. Þetta er sorglegt. Heimssýn mín, skoðanir og almenn menningarvitund er djúplega mörkuð af þeim gildum og prinsippum sem eru í hávegum höfð í Bandaríkjunum. Það sem Bandaríkjamönnum þykir merkilegt, það þykir mér merkilegt. 

Það er þess vegna ekki skrýtið að hér á Íslandi mæti hátt í fjögurþúsund manns á samstöðufund á Austurvelli vegna morðsins á George Floyd. Það er nefnilega fátt annað í fréttum í Bandaríkjunum en það. Þó ég styðji réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum heilshugar, þá velti ég samt fyrir mér hvers vegna það er, að margfalt fleiri mæti á samstöðufund vegna einhvers sem gerist í Bandaríkjunum en einhvers sem gerist í þeirra eigin landi. Íslendingar stukku ekki margir til og mættu á Austurvöll þegar hælisleitendur reyndu að vekja athygli á sínum málefnum. Vissulega mættu einhverjir en margfalt færri en vegna einhvers sem er í gangi í Bandaríkjunum. Ég er á hálum ís hérna og vil því árétta að samstöðufundurinn á Austurvelli um daginn snerist auðvitað líka almennt um kynþáttafordóma og veruleika fólks á Íslandi, sem ekki er hvítt á hörund. Það er auðvitað verðugur málstaður sem ber að gera sem hæst undir höfði.

Punkturinn minn heldur þó alveg vatni. Og hann er sá að Íslendingar, og þá sérstaklega ungt fólk, gerir ameríska menningu að sinni – og það alveg filterslaust. Við virðumst hafa ósvalandi þorsta í amerískra menningu. Íslendingar verða alveg dofnir fyrir því að annars staðar í heiminum blómstrar menning og mannlíf sem fáir vita neitt um. Venjuleg íslensk ungmenni gætu mög hver haldið langa ræðu um menningarleg blæbrigði bandarísks menningarlífs. Ef þau væru svo spurð út í menningarleg blæbrigði einhvers asíuríkis stæðu þau eflaust á gati. Það vita allir allt um bandaríska tónlist og stjórstjörnur en fæstir vita nokkuð um skærustu samfélagsmiðlastjörnunar í Kína eða vinsælustu poppgoðin í hinum spænskumælandi heimi. Fólk getur kannski ekkert að því gert að amerísk menning sé hér alltumlykjandi. Það væri þó mörgum hollt að leita lengra og reyna að kynnast öðrum menningarheimum eins og þeir þekkja þann bandaríska. 

Það að kynnast nýrri menningu gerir mann krítískari á manns eigin. Það er engum hollt að lifa alveg filterlausu lífi innan síns menningarheims án þess að setja hann nokkurn tíma í samhengi við eitthvað annað. Íslendingar eru heppnir að búa í sínum smáa menningarheimi þar sem tiltölulega fátt merkilegt gerist í stóra samhenginu. Við eigum þess vegna auðveldara en kannski margir með að kynnast annarri menningu en okkar eigin. Sem er eitthvað sem við auðvitað gerum í einhverjum mæli, annars væru hér ekki indverskir veitingastaðir í verslunarmiðstöðvum og franskir sálfræðiþrillerar í sjónvarpinu. Mér finnst samt Bandaríkin fá of mikið pláss. Við förum á mis við svo margt. Og það er miður. 

Latest posts by Oddur Þórðarson (see all)

Oddur Þórðarson skrifar

Oddur hóf að skrifa á Deigluna í maí 2020.