Ef maður veit ekki um hvað málið snýst þá snýst það um peninga

Það er til orðatiltæki í pólsku sem eflaust þekkist í fleiri tungumálum. Það hljómar svo:

“Ef maður veit ekki um hvað málið snýst þá snýst það um peninga.”

Þetta er ágætistilgáta sem gengur furðulega oft upp. Þegar maður klórar sig í kollinum yfir einhverri óskiljanlegri deilu sem komin er í fjölmiðla, annað hvort deilu milli einkaaðila eða deilu milli einstaklinga og yfirvalda, þá snúast málin mjög oft um það hver eigi að borga hverjum fyrir hvað.

Deiluaðilar vilja oft báðir leyna því að deilan snúist í raun um peninga. Það þykir nefnilega lúalegt að deila eingöngu um peninga. Þess vegna nota menn stundum orð eins og “réttlæti”, “sanngirni”, og “viðurkenningu” þegar þeir ræða deilur sínar á opinberum vettvangi, jafnvel þótt deilurnar snúist í reynd um peninga. Eða væru allavega vel leysanlegar með peningum.

Þótt fjölmiðlar standi sig ágætlega í því að draga upp úr mönnum hinar ýmsu þægilegu og óþægilegu staðreyndir mættu þeir stundum vera meira vakandi fyrir peningahlið mála. Það kemur oft fyrir að ráðafólk kemst í gegnum löng viðtöl um deilur og flókin mál án þess að vera spurt um kostnað og hver eigi að bera hann.

Það er þekkt regla í blaðamennskunni að frétt þarf að innihalda svörin við spurningunum fimm: “Hver, hvað, hvar, hvenær og af hverju?” Það mætti stundum örlítið bæta við þennan lista og spyrja “hverjum á að borga?” og “hve mikið?”

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.