Eitt örstutt skref í rétta átt

Misnotkun vímuefna er heilbrigðismál. Þessi staðreynd liggur til grundvallar viðhorfsbreytingu sem er að verða víða um heim gagnvart hinu svokallaða stríði gegn vímuefnum, bann- og refsistefnu síðustu áratuga. Raunar er það svo að hér á landi verður bráðum hægt að halda upp á aldarafmæli refsistefnunnar en lög um refsinæmi fíkniefnabrota eiga rætur að rekja til ársins 1923 þegar fyrstu lög um það efni voru sett hér á landi. Þetta voru lög um tilbúning og verslun með ópíum o.fl. nr. 14/1923 og voru þau að verulegu leyti reist á Haag-samþykkt frá 23. janúar 1912 sem Ísland gerðist aðili að árið 1921. Gildandi lög um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 voru samþykkt á Alþingi árið 1974 og hafa þau að meginstefnu til staðið óbreytt síðan.

Með lögum nr. 64/1974 var nýju ákvæði, 173. gr. a, bætt við almenn hegningarlög um að öll meiri háttar brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni vörðuðu við hegningarlögin. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal hver sá sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt sæta fangelsi allt að 10 árum. Í 2. mgr. segir síðan að sömu refsingu skuli sá sæta sem gegn ákvæðum nefndra laga framleiði, búi til, flytji inn, flytji út, kaupi, láti af hendi, taki við eða hafi í vörslum sínum ávana- og fíkniefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt sem greint er í 1. mgr. Segja má að þetta ákvæði sé enn í dag hornsteinn refsistefnu íslenskra stjórnvalda. Refsingar fyrir brot á framangreindum lagaákvæðum hafa þyngst jafnt og þétt frá setningu laganna. Árið 2001 var refsiramminn hækkaður úr 10 árum í 12 ár, þar sem löggjafinn taldi dómstóla þurfa aukið svigrúm vegna alvarlegustu brotanna.

Hinn 16. maí 2014 lýsti Alþingi með ályktun yfir vilja sínum til að endurskoða stefnu í vímuefnamálum á grundvelli lausnamiðaðra og mannúðlegra úrræða, á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. Það var á grundvelli þessarar ályktunar sem þáverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, skipaði starfshóp um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild.

Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni í ágúst 2016. Í samantekt starfshópsins kemur fram að hann hafi tekið til gaumgæfilegrar athugunar og umræðu ýmsar leiðir að því markmiði að draga úr skaðlegum áhrifum vímuefnaneyslu í íslensku samfélagi. Þar kemur einnig fram sú afstaða starfshópsins að fara eigi varlega í breytingar og gæta sérstaklega að því að sem vel hefur tekist á umliðnum árum og áratugum. Þá segir að tillögur hópsins miði að því að draga sem mest úr óæskilegum áhrifum núverandi stefnu án þess að henni sé kollvarpað í einu vetfangi. Gerði starfshópurinn tillögur í tólf liðum sem hann taldi þjóna framangreindu markmiði.

Ein af tillögum starfshópsins var að komið yrði á fót öruggum og heilsusamlegum vettvangi fyrir vímuefnanotendur sem nota vímuefni í æð, vettvangur sem gengur undir heitinu neyslurými. Nú fjórum árum síðar, tæplega, hefur Alþingi samþykkt breytingu á lögum sem gerir ráðherra kleift að hrinda þessari tillögu í framkvæmd. Verði framgangur annarra tillagna starfshópsins svipaður má reikna með að allar tillögurnar verði komnar til framkvæmda innan fimmtíu ára. En þótt skrefið sé lítið þá er það samt stórt. Það felur í sér fyrstu markverðu stefnubreytingu löggjafans hvað varðar vímuefnavandann. Það felur í sér viðurkenningu á því að við glímum við heilbrigðisvandamál sem ekki verður leyst með refsingum.

Mikill meirihluta þeirra afbrota sem rata inn á borð lögreglu ár hvert á sér rætur í neyslu vímuefna og tengist oft fjármögnun þeirrar neyslu. Enginn sem ekki hefur reynt á eigin skinni getur gert sér í hugarlund hversu ömurlegt hlutskipti það er að vera á valdi fíknar í ólögleg vímuefni. Að vera háður löglegum vímugjöfum er nægilega slæmt en hitt hlutskiptið er margfalt verra – ekki vegna eðlis vímugjafanna heldur fremur vegna þess að sá sem ánetjast hefur ólöglegum vímugjöfum er þar með að minnsta kosti með annan fótinn í veröld hins bannaða.

Fáir deila í dag um skaðsemi tóbaks og áfengis sem neytt er í óhófi. Flestum er líka ljóst að fólk er að upplagi misjafnlega útsett fyrir ávanabinandi eiginleikum þessara vímugjafa. Fyrir marga er það því sem næst ómögulegt að hætta notkun á nikótíni og er nú svo komið að framboð og aðgengi að því efni hefur náð sögulegum hæðum, allt undir því yfirskyni að verið sé að hjálpa fólki að hætta að reykja. Dettur einhverjum í hug að gagnlegt væri að gera neyslu á níkótíni refsiverða til að ná tökum á vandanum? Dettur einhverjum í hug að með því að gera fólk sem háð er níkótíni að glæpamönnum sé líklegra að það nái að vinna bug á fíkn sinni? Dettur einhverjum í hug að óseðjandi og sjúkleg eftirspurn í þetta efni myndi ekki framkalla framboð, þrátt fyrir boð og bönn, og að verðmyndun á markaði yrði enn sturlaðri en ríkisálagningin þó er?

Hin ólöglegu vímuefni eru hvað þetta varðar ekki öðruvísi en hin löglegu. Það er hægt að deila um hættueiginleika einstakra vímuefna en það sem er fíklum hættulegast eru þær aðstæður sem núgildandi refsistefna býr þeim, þar sem fíknin er glæpavædd. Þess vegna er hið smáa skref sem stigið var á Alþingi 20. maí síðastliðinn svo stórt.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.