Á maður að standa í þessu?

Vefritið Deiglan var stofnað fyrir rúmum fimmtán árum. Á þeim tíma sem liðinn er hafa þúsundir pistla um hin ýmsu mál verið birt. Yfir hundrað manns hafa verið Deiglupennar og eftir marga liggur nú orðið umtalsvert mikið efni sem ýmist hefur birst á þessum vef, í dagblöðunum eða annars staðar.

Vefritið Deiglan var stofnað fyrir rúmum fimmtán árum. Á þeim tíma sem liðinn er hafa þúsundir pistla um hin ýmsu mál verið birt. Yfir hundrað manns hafa verið Deiglupennar og eftir marga liggur nú orðið umtalsvert mikið efni sem ýmist hefur birst á þessum vef, í dagblöðunum eða annars staðar.

Uppistaðan í efnistökum Deiglunnar er svokölluð þjóðmálaumræða – mestmegnis pólitík. Stór hluti Deiglupenna hefur enda tekið virkan þátt í pólitísku starfi í lengri eða skemmri tíma. Flestir tóku þátt í starfi Vöku í Háskóla Íslands og fjölmargir hafa starfað í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins. Einn er þingmaður og annar er forseti í bæjarstjórn. Nokkrir, þar á meðal ég, hafa reynt að komast á þing, en ekki tekist.

Um þessar mundir er það svo að meirihluti þeirra sem skrifað hafa á Deigluna tekur engan þátt í skipulagðri pólitík. Líklega er núorðið minna en helmingur skráður í stjórnmálaflokk – og hafa flestir þeirra skráð sig úr þeim stjórnmálaflokk sem þeir tilheyrðu eitt sinn. Þó er líklegt að stærstur hluti hópsins hugsi enn um stjórnmál og hafi sterkar og vel rökstuddar skoðanir, grundvallaðar í svipuðum hugsjónum um frelsi einstaklingsins og frjálslyndi.

En það er ekki átakalaust að hætta sér út í það að segja skoðun sína á málefnum líðandi stundar. Það að taka afstöðu til þeirra mála sem hæst ber á góma kallar undantekningarlítið á viðbrögð – stundum jafnvel hatursfull. Það er þess vegna freistandi, jafnvel þótt fólk hafi áhuga á að tjá sig um hitt og þetta að láta það bara eiga sig. Fólk, sem komið er úr námi, byrjað að vinna og eignast börn, hefur margt við tíma sinn og orku að gera. Hvaða vit er í því að standa í þessu pípi?

En það er samt sem áður svo að þátttaka venjulegs fólks – sem er ekki atvinnupólitíkusar – í umræðu um stjórnmál er ákaflega mikilvæg fyrir stjórnarfar og lýðræði. Þannig umræða getur líka verið skemmtileg og upplífgandi. Deiglan hefur verið – mismunandi mikilsvirkur – vettvangur fyrir slíka umræðu.

Þótt Deiglan sé skipuð hópi af fólki sem byggir stjórnmálaafstöðu sína að miklu leyti á svipuðum grunni þá hefur það ætíð verið þannig að hver og einn skrifar undir sínu nafni og á eigin ábyrgð.

Innan hópsins eru fjölmargir sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið, enn fleiri sem vilja klára aðildarviðræður og margir sem vilja ekki sjá Evrópusambandið. Þar er hins vegar enginn sem hefur áhuga á því að eingangra Ísland og íslenska markaði frá umheiminum.

Innan Deiglunnar eru einarðir andstæðingar kvótakerfisins og gallharðir stuðningsmenn þess – en þar er líklega enginn sem telur að stjórnmálamenn eigi að deila út kvótanum eftir eigin höfði, hentisemi og sérhagsmunum.

Meðal Deiglupenna er fólk sem telur að íslenska krónan geti vel gagnast Íslendingum sem gjaldmiðill og aðrir sem eru sannfærðir um að betra sé að finna leið til að skipta henni út. Þar er hins vegar líklega enginn sem telur skynsamlegt að festa Ísland í gjaldeyrishöftum þar sem undanþágur, leyfisveitingar og pólitískur velvilji verða forsenda þess að einstaklingar og fyrirtæki geti skapað verðmæti.

Innan Deiglunnar er fólk sem vilja að innanríkisráðherra segi sig frá ráðherradómi, og aðrir sem telja að hún eigi að njóta vafans. Það er hins vegar örugglega samstaða um það að réttarríkið sé æðra pólitískum hagsmunum einstaka stjórnmálamanna, sama hversu framúrskarandi þeir að öðru leyti kunna að vera.

Sumum í hópnum finnst eflaust að Dagblaðið DV hafi verið sorprit, sem hafi gengið langt í að meiða fólk að ósekju. Öðrum finnst vafalaust að fæstum þeim sem fjallað er um í DV sé sérstök vorkunn. En það er áreiðanlega samstaða um að þægindi eða óþægindi valdafólks, hvort sem er í viðskiptum eða stjórnmálum, séu smávægilegir hagsmunir í samanburði við tjáningarfrelsið og hlutverk fjölmiðla að vera á verði gagnvart valdhöfum – á ábyrgan hátt, en þó harðskeyttan ef með þarf.

Í þessum hópi er fólk sem telur að hörð refsistefna í fíkniefnamálum sé heimskulegt glapræði, óréttlæti sem verði að leiðrétta – en aðrir sem telja að lögleiðing fíkniefna væri óráð. Það er hins vegar örugglega samstaða um þá skoðun að það sé fráleitt að refsingar fyrir neyslu eða smávægilegan innflutning á fíkniefnum séu harðari heldur en fyrir grófa ofbeldisglæpi, jafnvel gagnvart börnum.

Og innan Deiglunnar er fólk sem hefur ekki minnstu áhyggjur af því þótt hingað til lands streymi inn fólk og menningaráhrif en aðrir sem telja að fara þurfi varlega svo jafnvægi samfélagsins raskist ekki of hratt. Það er hins vegar algjörlega öruggt að innan þessa hóps er samstaða um að allir einstaklingar eigi þann algilda frumrétt að vera metnir sem sjálfstæðir einstaklingar – en ekki fordæmdir í dilka. Og um það gildir eflaust líka í hugum flestra okkar að gullna reglan – allt það sem þú vilt að aðrir menn gjöri yður, skuluð þér og þeim gjöra – svari flestum spurningum um mannleg samskipti betur en flest.

Velmeinandi og upplýst fólk getur haft ólíkar skoðanir – og það er hollt og gagnlegt að venjulegir borgarar taki þátt í umræðum um þau þjóðmál sem hæst bera hverju sinni. Deiglan vill vera vettvangur fyrir þess háttar umræðu, sem lýtur ekki agavaldi flokkspólitíkur, heldur fyrst og fremst þeim hugmyndum og hugsjónum um almennar leikreglur samfélagsins sem Deiglupennum eru hugkærar.

Þess vegna er örugglega þess virði að standa í þessu. Jafnvel þótt enginn nema við sjálf kunni að hafa áhuga á því sem verið er að segja.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.