Hækkun lífeyris á að vera sjálfsögð til jafns við aðrar

Í allri umræðu um bætt kjör launafólks hefur Öryrkjabandalagið reynt að knýja fram breytingar hvað varðar örorkulífeyri. Talsmenn ellilífeyrisþega eru á sama máli og ASÍ líka þegar kemur að atvinnuleysisbótum. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að þeir sem hafa, vegna veikinda eða slyss, misst getuna til að taka þátt í atvinnulífinu með sama hætti og aðrir, fari fram á að geta lifað á því sem þeim er skammtað úr ríkissjóði. Sama á við um ellilífeyrisþega. Hækkun avinnuleysisbóta hefur oft verið umdeild og oft rætt um að séu þær of háar geti það virkað sem tvíeggja sverð.

Framfærsluviðmið almannatrygginga er undir 200.000 krónur og undir lágmarkslaunum fyrir dagvinnu. Það er því ljóst að stór hópur öryrkja, sem mögulega hafa ekki aðra fyrirvinnu, búa við bág kjör. Sama má segja um ellilífeyrisþega. Mögulega hafa þau verið það lengi því örorkulífeyrir hefur frá árinu 2009 hvorki náð að halda í við þróun lægstu launa né verðlags- og launavísitölu. Jafnvel þó töluverð hækkun hafi átt sér stað árið 2011.  Hvernig má það vera?

Lögum samkvæmt á lífeyrir almannatrygginga að breytast árlega í takt við launaþróun. Þó er sá varinn á að hann hækki a.m.k. í samræmi við verðlag vísitölu neysluverðs. Þetta kemur fram í 69. gr. laga um almannatryggingar. Það er þó hægt að fara á svig við lögin og það hafa stjórnvöld vissulega gert. Félagsmálaráðherra, Eygló Harðardóttir, hefur opinberlega lýst því yfir að hún vilji að kjör allra verði bætt og að hún ætli að gera sitt til að staðið sé við ákvæði 69. greinar laganna.

Það var áhugavert að hlusta á Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands í Bítinu í vikunni. Þar ræddi hann kjaramálin ásamt formanni Öryrkjabandalags Íslands, Ellen Calmon. Gylfi sagði að það þyrfti að ríkja meiri sátt um það með hvaða hætti bætur myndu hækka. Á þetta að sjálfsögðu við um öryrkja, ellilífeyrisþega og atvinnulausa sem ekki hafa verkfallsvopnið í höndum sér.

Það er rétt ábending hjá formanni ASÍ, að á meðan ríkið hugsar hækkanir lífeyris sem svo að þetta sé spurning um hvort það er til peningur fyrir þeim þá gerist ekki neitt. Í raun á þetta að vera sjálfkrafa  hækkun til jafns við aðrar hækkanir sbr. vísitölu launa og verðlags og það á ekki að vera í höndum ríkisstjórnarinnar að ákveða hvort hún verði. Í Skandinavíu er ákvæði laganna svo skýrt að Hagstofunni er falið að framkvæma þessar hækkanir. Þessi aðgerð er óumdeilanleg. Hún er einfaldlega framkvæmd út frá tekjuþróun landsmanna.  Hvers vegna getum við ekki gert slíkt hið sama hérna?

Fólk velur sér það ekki að missa starfsgetuna og fólk velur sér það ekki að fara á ellilífeyri. Hlutskipti fyrrgreinds hóps eru líklega nægilega slæm svo hann þurfi ekki líka ofan á allt annað, að lepja dauðann úr skel. Ég skora á þingmenn, hvort sem þeir eru í hópi stjórnarliða eða stjórnarandstöðu að taka þetta mál upp á sína arma. . Það virðast reyndar allir vera mjög hlynntir því að bæta kjör þessara hópa þegar þeir eru í stjórnarandstöðu en svo fylgir ekki hugur máli þegar í stjórn er komið. Félagsmálaráðherra þarf einfaldlega að gera hækkun á lífeyri sjálfvirkan líkt og þekkist í Skandinavíu.

 

 

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.