Til hamingju með daginn

Kæru landsmenn, til hamingju með daginn.

Við getum stolt haldið upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, verandi sú þjóð heims sem stendur sig hvað best þegar kemur að jafnrétti kynjanna og kvenréttindum.

Allt lagaumhverfi hér á landi tryggir jöfn réttindi karla og kvenna og hefur svo verið um áraraðir. Opinberar tölur og tölfræði sýna að staða kvenna hér á landi er góð, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Mestu máli skiptir þó sú almenna sátt sem ríkir í þjóðfélaginu um að kvenréttindi og jöfn staða karla og kvenna skipti máli. Sú sátt nær langt út fyrir lagarammann.

Í dag þykir sjálfsagt að litið sé til þess hvernig staða kynjanna er í hvers kyns nefndum, ráðum og stjórnum, hvort sem er á vegum hins opinbera eða í einkageiranum, og það jafnvel þó ekki sé alltaf lagaskylda sem mæli svo um. Það eru ekki meira en 10 ár síðan að slíkar pælingar þóttu argasta öfgastefna sem átti ekkert erindi inn í stjórnir fyrirtækja eða stofnana. Þessa hugarfarsbreytingu má þakka óþreytandi baráttu fjölda kvenna og karla, sem oft þurfa að þola skítkast og rógburð fyrir skoðanir sínar. Það er segin saga að það verða engar breytingar ef ekki er til fólk sem er tilbúið að stíga út fyrir viðurkenndan ramma þjóðfélagsins og hrista upp í skoðunum fólks. Þetta hefur íslenskum femínistum tekist með miklum glæsibrag.

Við getum stolt haldið upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna vitandi að það er ekkert lát á baráttunni. Ungar íslenskar konur hafa látið í sér heyra á þessu ári með fordæmalausum hætti. Barátta þeirra hefur gengið svo langt að „öfgafyllstu rauðsokkur“ skilja ekkert í því hvað er að gerast og hvað #freethenipple hefur með kvenréttindi og kvenfrelsi að gera. Hundruðir íslenskra kvenna hafa á undanförnum vikum gengið fram fyrir skjöldu undir merkinu #þöggun og skilað skömminni af kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir, þangað sem hún á heima. Þetta er allt hluti af sömu baráttu, baráttunni fyrir jafnrétti, baráttunni gegn kúgun og ofríki sem ríkt hefur um árþúsundir.

Við getum stolt haldið upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna hér á landi en við skulum ekki gleyma okkur í fagnaðarlátunum og muna að baráttan heldur áfram. Það vantar enn mikið upp á að laun karla og kvenna fyrir sömu störf verði jöfn, kynbundnu ofbeldi gegn konum hefur hvergi nærri verið útrýmt og fjöldi kvenna hafa verið seldar í mansal og vændi hingað til lands. Baráttan lifir og hún þarf að fara fram á heimilinu, í skólum, stjórnarherberginu, alþingi, ríkisstjórn og opinberri umræðu. Við berum öll ábyrgð á því að baráttan haldi áfram og hún beri árangur.

Latest posts by Deiglukonur (see all)