Þegar landið rís

Eyjan í norðri býður upp á alls konar. Hefur bæði tekið og gefið. Þessu er ekki alltaf skipt jafnt og sem betur fer kýs fólk að búa hringinn í kringum landið. Með öllum þeim kostum – og stundum ókostum sem fylgja.

Á morgun er ár síðan lýst var yfir óvissustigi vegna landriss á Reykjanesi. Þrátt fyrir að hafa búið við reglulega jarðskjálfta á svæðinu með tilheyrandi óþægindum fyrir marga (og spennu og adrenalín kikki fyrir aðra) var óvissustig eitthvað nýtt og óþekkt. Nú var tilefni til að kalla saman fund á sunnudegi hjá Almannavarnarnefnd ríkislögreglustjóra, eftir 600 manna þorrablót í íþróttahúsi Grindavíkur og tilkynna almenningi að mögulega væri kvikusöfnun vestan við Þorbjörn, bæjarfjallið. Fínar fréttir í þynnkunni fyrir marga. Er að fara að gjósa? hugsuðu flestir, ef ekki allir.

Vinna þurfti hratt og á mánudegi var haldinn 2000 manna íbúafundur en í Grindavík búa 3600 manns. Þar komu saman helstu sérfræðingar sem reyndu að ráða í stöðuna. Samhliða landrisinu voru reglulegir jarðskjálftar og risið sagt óvenju hratt….síðan er liðið heilt Covid ár. 

Pistlahöfundi eru minnisstæð orð sem lögreglumaður lét falla á einum af fjölmörgum fundum almannavarnanefndar í upphafi síðasta árs. Þegar viðraðar voru áhyggjur af landrisinu sagðist hann miklu frekar hafa áhyggjur af þessari Wuhan-veiru sem gæti borist til landsins.

Eldgos er eitthvað sem búast má við á svæðinu á næstu árum eða áratugum. Við höfum ekkert nema skráðar sögulegar heimildir og jarðlög til að ráða í mögulega framtíð. Við erum á flekaskilum sem hafa skilað okkur ótrúlega verðmætri auðlind sem er jarðvarminn. Á Reykjanesi er annar af tveimur UNESCO vottuðum jarðvöngum á Íslandi, Reykjanes Geopark. Vottunina fékk jarðvangurinn þar sem á Reykjanesskaga koma flekaskil hvergi með sýnilegum hætti að landi í heiminum nema þar. Rétt við brúna milli heimsálfa. 

Okkar mögulegu náttúruhamfarir á Reykjanesinu eru eldgos. Þau verða þó líklega með þeim hætti að tími verður til rýmingar og annarra viðbragða. Norður atlantshafshryggurinn hefur skilað Reykjanesskaga miklum verðmætum sem allt svæðið nýtur góðs af. Auðlindagarðurinn er eini sinnar tegundar í heiminum en framtíðarsýn hans er samfélag án sóunar. Fjöldi fyrirtækja á Reykjanesskaga nýta affallið frá orkuverinu í Svartsengi til eigin framleiðslu. 

Á þeim tíma sem skjálftahrinan stóð sem hæst fengum við Grindvíkingar oft þá spurningu hvernig við gætum búið þarna. Það gleymist oft að benda á og halda á lofti þeim kostum og gæðum sem því fylgir að búa á flekaskilum. Hér eru ekki fjöll sem öskra eða hlíðar sem falla. 

Við veljum okkar tilverustað og kjósum að dvelja þar sem okkur líður vel eða þar sem sterkar rætur okkar liggja. Innviðauppbygging og varnir til handa íbúum á svæðum þar sem náttúruvá steðjar að skiptir öllu máli. Okkar náttúruhamfarir eru eldgos, jarðskjálftar, snjóflóð, auðskriður, óveður, hlaup og sjávarflóð. 

Eyjan í norðri býður upp á alls konar. Hefur bæði tekið og gefið. Þessu er ekki alltaf skipt jafnt og sem betur fer kýs fólk að búa hringinn í kringum landið. Með öllum þeim kostum – og stundum ókostum sem fylgja. 

Einlæg vonin er þó sú að landið muni rísa á ný – með öðrum hætti en áður var nefnt. Faraldursfrítt og bólusett með nýjum atvinnutækifærum.

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.