Hæfileikar og tækifæri

Það þarf nefnilega aðeins einn skólastjóra til að breyta lífi. Einn kennara. Einn áhrifavald í lífi barns. Áhrifavald sem sér hæfileikana og eflir barnið til að þroska færnina áfram. Það þarf bara einn áhrifavald til að breyta lífi.

Færni til skapandi hugsunar og skapandi aðgerða hefur um nokkra hríð verið talin nauðsynlegur hluti af almennri menntun. Reykjavíkurborg hefur löngum gefið fyrirheit um aukið vægi listgreina og verkgreina í skólastarfi borgarinnar. Mikilvægi sköpunar er jafnframt undirstrikað sérstaklega í menntastefnu Reykjavíkur. En þrátt fyrir þessi fögru fyrirheit virðist skólakerfið þróast á hraða snigils.

Við horfum fram á fjórðu iðnbyltinguna. Færniþættir framtíðar verða að líkindum frábrugðnir færniþáttum fortíðar. Fyrirséð er að tölvur muni leysa fjölmörg störf af hólmi. Einhverjir hafa jafnvel áætlað framtíðina hafa litla þörf fyrir þá þekkingu sem aldagamalt skólakerfi skilur eftir hjá nemendum. Meiri áherslu mætti leggja á skapandi hugsun, samskiptafærni, gagnrýna hugsun, tilfinningagreind og lausn flókinna viðfangsefna. Þannig yrðu börn betur undirbúin undir viðfangsefni framtíðar.

Gegnum tímans rás hefur íslenska skólakerfið brugðist fjölmörgum börnum. Hæfileikar hafa hlotið mismikla náð fyrir augum kerfisins. Þetta birtist kannski best í frásögn Bubba Morthens í nýlegu viðtali við Sölva Tryggvason. Eftir krefjandi tíma í íslensku skólakerfi sótti Bubbi nám í Danmörku snemma á unglingsárum. Þrátt fyrir áskoranir í hefðbundnu námi sá skólastjórinn danski í drengnum mikla hæfileika.

Dag einn kallaði skólastjórinn Bubba á skrifstofu sína. Greiningar höfðu sýnt að drengurinn glímdi við meðal annars við skrifblindu, en reynslan hafði sýnt að þarna var hæfileikamaður á ferð. Skólastjórinn hafði tekið eftir hljóðfærinu sem fylgdi Bubba hvert fótmál – gítarnum – hann taldi rétt að efla þessa hæfileika og lagði til breytt einstaklingsmiðað námsmat. Bubba yrði áfram gert að sækja fyrstu kennslustund hvers skóladags, en að því loknu yrði honum gert að æfa sig á hljóðfærið. Lokaverkefni annarinnar myndi svo felast í lokatónleikum frammi fyrir öllum skólanum. Bubbi virtist þakklátur fyrir fyrirkomulagið – hann fékk tækifæri til að þroska sína hæfileika – og fyrir frammistöðuna fékk Bubbi fullt hús stiga. Skólastjórinn hafði breytt lífi hans.

Það þarf nefnilega aðeins einn skólastjóra til að breyta lífi. Einn kennara. Einn áhrifavald í lífi barns. Áhrifavald sem sér hæfileikana og eflir barnið til að þroska færnina áfram. Það þarf bara einn áhrifavald til að breyta lífi.

Ég vil að skólakerfið sjálft verði þessi áhrifavaldur – að skólakerfið undirgangist kerfisbreytingu og stórauki áherslu á skapandi hugsun – listgreinar og verkgreinar. Fræðilegt, verklegt og skapandi nám myndi órjúfanlega heild í menntakerfi framtíðar. Ekkert barn verði skilið eftir – heldur fái öll börn jöfn tækifæri til að leita hæfileika sinna í skólakerfinu – þroska þá og öðlast sjálfstraust til að skapa úr hæfileikum sínum tækifæri. Það er eitt stærsta velferðarmálið.

Latest posts by Hildur Björnsdóttir (see all)

Hildur Björnsdóttir skrifar

Hildur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hún hóf að skrifa á Deigluna í september 2010.