Brúarsmíði í borginni

Nýsamþykktur ársreikningur Reykjavíkurborgar er sannkallaður reifari. Ekki ber hann stöðu leikskólanna fagurt vitni. Í reikningnum koma fram 500 milljóna tilfærslur á fjárheimildum sem verja átti til leikskólaþjónustu – en var að endingu varið í önnur verkefni því ekki reyndist unnt að bjóða tilætlaðan fjölda leikskólarýma í Reykjavík. Enn birtast glögg dæmi þess hve illa er staðið að leikskólamálum í Reykjavík.

Nýsamþykktur ársreikningur Reykjavíkurborgar er sannkallaður reifari. Ekki ber hann stöðu leikskólanna fagurt vitni. Í reikningnum koma fram 500 milljóna tilfærslur á fjárheimildum sem verja átti til leikskólaþjónustu – en var að endingu varið í önnur verkefni því ekki reyndist unnt að bjóða tilætlaðan fjölda leikskólarýma í Reykjavík. Enn birtast glögg dæmi þess hve illa er staðið að leikskólamálum í Reykjavík.

Biðlistavandi leikskólabarna er flestum kunnur. Borgin rekur fjölda leikskóla en annar þó ekki eftirspurn eftir leikskólarýmum. Það er mikilvægt að borgin geti boðið trausta og áreiðanlega daggæslu eða leikskólavist strax í kjölfar fæðingarorlofs. Það er fjölskyldufólki mikilvæg grunnþjónusta.

Sveitarfélög bera ábyrgð á starfsemi leikskóla en geta þó útvistað rekstrinum. Í Reykjavík eru sjálfstætt starfandi leikskólar 18 talsins og þá sækja um 1.200 börn. Ef þessara leikskóla nyti ekki við væru nær 2.000 reykvísk börn nú á biðlistum eftir leikskólaplássi. Einkaframtakið hefur svarað eftirspurn sem borgaryfirvöld gátu ekki mætt.

Á undanliðnum árum hefur farið fram hávær umræða um mikilvægi þess að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Nýverið steig ríkisstjórnin mikilvægt skref  með lengingu fæðingarorlofs úr 9 mánuðum í 12. Reykjavíkurborg hefur ekki staðið við sinn hluta vegferðarinnar – enn er gríðarleg vöntun á leikskólarýmum fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Vandinn kemur ekki síst niður á vinnandi mæðrum og veldur afturför í jafnréttisbaráttunni.

Reykjavíkurborg þarf að ráðast í brúarsmíði – byggja sinn helming brúarinnar yfir bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Við verðum að efla bæði leikskólastigið og dagforeldrastigið. Leysa mannekluvanda leikskólanna og draga úr brottfalli dagforeldra. Við verðum að veita einkaframtakinu aukið svigrúm, svo svara megi eftirspurn eftir framsækinni leikskólaþjónustu. Að fæðingarorlofi slepptu verða börn að eiga daggæslu vísa – og foreldrar að eiga val um fjölbreytta daggæslukosti. Við verðum að gera betur.

Latest posts by Hildur Björnsdóttir (see all)

Hildur Björnsdóttir skrifar

Hildur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hún hóf að skrifa á Deigluna í september 2010.