Upprisa jólakortsins

Nú fara í hönd ein sérkennilegustu jól sem flest okkar hafa upplifað. Fólk er beðið að halda sig innan í svokallaðri “jólakúlu” sem felur í sér að við hittum bara tíu nánustu ástvini yfir hátíðirnar. Þessar aðstæður gefa okkur hins vegar gullið tækifæri á að hefja aftur til vegs og virðingar gamlan sið sem hefur því miður átt undir högg að sækja undanfarin ár.

Jólakort fóru að ryðja sér til rúms um miðja 19. öldina og urðu órjúfanlegur hluti af jólahaldi ásamt jólagjöfum, jólatrjám og fleiri siðum. En ólíkt jólagjöfunum sem eru orðnar töluvert veglegri en kerti og spil og fleiri en tvær, þá hafa jólakortin týnt tölunni.

Jólakveðjan hefur fundið sér fleiri farvegi. Sumir eru nánast helgir á borð við upplesnar jólakveðjur í útvarpi allra landsmanna. Þær byrja að hljóma daginn fyrir Þorláksmessu og eru lesnar upp eftir sýslum landsins. Margir njóta þess að hlýða á meðfram jólabakstri og undirbúningi.

Lágpunktur jólakveðjunnar var skömmu fyrir aldamót þegar farsímar voru að verða almenningseign og smáskilaboð voru nýjasti samskiptamátinn sem fólk var að tileinka sér. Friðsæld nokkurra aðfangadagskvölda um þetta leyti var rofin reglulega með hljóðunum “bíbb bíbb bíbb – bííííb bííííb bííííb – bíbb bíbb bíbb” sem allir frumfarsímaeigendur þekkja vel. Á grænum símaskjám mátti lesa hnitmiðaða jólakveðju enda fá stafbil í boði á árdögum farsímanna. Þegar fyrirtækin voru farin að blanda sér í þetta partý og senda viðskiptavinum sínum jólakveðjur með smáskilaboðum þá dóu þær blessunarlega drottni sínum.

En sjálft jólakortið er óumdeilanlega göfugasta form jólakveðjunnar. Ferlið frá upphafi til enda er fallegt og felur í sér miklar gæðastundir. Í upphafi að hugsa um hvaða fólk stendur manni nærri, rifja upp góðar samverustundir og svo setjast niður við skriftir. Það eru ákveðnar siðareglur sem ber að virða í ferlinu. Til að mynda er nauðsynlegt að hafa konfekt og jólaöl við hönd þegar jólakort eru skrifuð og hafa jólatónlist ómandi undir. Einnig eru það helgispjöll að rífa upp jólakort um leið og það berst og lesa. Mikilvægt er að virða hefðir sem kveða á um að jólakortum sé safnað í þar til gerðan jólakortapoka og finna tilhlökkun aukast í beinu hlutfalli við það hvað pokinn gildnar á aðventunni.

Svo er það lokaathöfnin, að opna jólakortin. Algengast er að það beri upp á aðfangadagskvöld en sumir velja að geyma það fram á jóladag. Það fer best á því að vera með sérstakan bréfahníf eða borðhníf ef annað er ekki við hendina. Mikilvægt að konfekt sé einnig til staðar og viðeigandi drykkjarföng, svosem jólaöl eða góður kaffibolli. Njóta þess síðan að lesa kveðjur frá vinum og vandamönnum sem hafa gert mann hluta af eigin jólahátíð með því að gefa sér tíma til að skrifa og senda þetta tiltekna jólakort.

Flest okkar hafa líklega aldrei hitt jafnfáa og á árinu sem er að líða. Það hefur því aldrei verið meira viðeigandi og aðkallandi að treysta bönd og tengjast ástvinum gegnum þann fallega sið að senda jólakort. Á morgun er síðasti möguleiki að senda jólakort til að vera viss um að það berist á leiðarenda fyrir jól þannig að Deiglan mælir með að lesendur nýti kvöldið til góðra verka.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.