Úrslit forsetakosninga koma engum á óvart. Ekki einu sinni þeim frambjóðanda sem tapaði enda vegferðin til Bessastaða vonlaus frá upphafi. Forsetakosningar af þessum toga geta hins vegar verið ágætis mælikvarði á persónufylgi og fylgi við frambjóðanda í einstökum kjördæmum. Auk þess fær forsetaframbjóðandi mun meiri tíma, kynningu og athygli í fjölmiðlum en hann fengi í öðrum kosningum, til dæmis í Alþingiskosningum. Fyrir forsetakosningar hafði Guðmundur Franklín Jónsson helst verið þekktur fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar um menn og málefni og fylgisleysi Hægri grænna stjórnmálaflokks sem hann stofnaði á eftirhrunsárunum.
Það virtist koma mörgum á óvart hversu kampakátur frambjóðandinn Guðmundur Franklín var þegar niðurstaðan lá fyrir í ljósi þess að hann hafði verið straujaður af forseta lýðveldisins. Skoðum aðeins nánar. Þegar upp er staðið hlaut Guðmundur 12.797 atkvæði á landsvísu. Hvers virði væri það í öðru samhengi?
Í Alþingiskosningunum 2017 hlaut Flokkur fólksins 13.502 atkvæði á landsvísu og Viðreisn 13.122 atkvæði. Það skilaði hvorum flokki fyrir sig fjórum þingmönnum. Samfylkingin fékk 10.893 atkvæði árið 2016 og þrjá þingmenn kjörna.
Þannig getur Gúnda-fylgi hæglega dugað til að ná fótfestu í íslenskum stjórnmálum. Guðmundur Franklín segist vera „alveg rífandi glaður” að loknum forsetakosningum. Hann segist hafa viljað vekja fólk til umhugsunar og beina athygli þess að baráttumálum sínum. Málum sem eru öll í eðli sínu rammpólitísk.
Jæja, það tókst og svo heppilega vill til fyrir Guðmund Franklín Jónsson að Alþingiskosningar eru á næsta ári. En það auðvitað vissi hann fyrir.
- Ég fer vestur - 8. júlí 2021
- Að friðlýsa hálfan bæ - 7. maí 2021
- Farvel Filippus - 9. apríl 2021