Græðum þetta land

Við Íslendingar horfumst í augu við það að geta kannski ekki uppfyllt skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsáttmálanum með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið og afleiðingum fyrir náttúruna. En við eigum í handraðanum ónýttan bjargráð. Stóraukna landgræðslu með þátttöku viljugs almennings og undraplöntu sem þráir ekkert annað en að græða upp landið okkar með ofurhraða.

Í fréttum RÚV og annarra miðla þann 5. nóvember síðastliðinn var fjallað um geysi vel heppnaða söfnun birkifræs á vegum Skógræktarfélags Kópavogs. Alls söfnuðust yfir 50 milljón birkifræ og fengu áhorfendur að líta á afraksturinn – mannhæðarháan haug á gólfi skógræktarfélagsins í bækistöðvum þeirra við Vatnsenda.

Átakið var samstarf Skógræktarfélags Kópavogs og Landgræðslunnar með það að markmiði að breiða út birkiskóga. Það sem gerir söfnunina merkilega er óskað var eftir aðstoð almennings við að safna birkifræjum í þar til gerð box sem hægt var að skila til skógræktarfélagins á ný. Og árangurinn lét ekki á sér standa.

Sem betur fer fer fækkandi þeim auðnum sem áður töldust örfoka og óhemju mikið starf hefur farið í að græða upp stóra sanda eins og Mýrdalssand og Hólasand fyrir norðan. Rofabörðin, sem áður mátti sjá mjög víða á ferðum um landið, hefur fækkað og mörg hver að gróa upp, þökk sé hlýnandi veðurfari, minni beit og hjálp frá mannskepnunni. Skógar hafa vaxið upp í mörgum landshlutum, þökk sé landhlutatengdum átaksverkefnum. Það má því e.t.v. segja sem svo að Íslendingar séu komnir langt með að vinna ákveðinn varnarsigur gegn eyðingu landsins.

En þótt vel gangi að græða upp landið eru allar ástæður til að gera margfalt betur. Og það þarf ekki að vera torsótt verkefni. Hinn miklu áhugi almennings á því að taka þátt í söfnunarátaki Skógræktar Kópavogs og Landgræðslunnar bendir til að þar sé óplægður akur. Viljugir landsmenn landsmenn sem vilja gjarnan græða upp landið enn frekar.

Önnur fordæmi eru til staðar. Fyrir nokkrum áratugum síðan gátu landsmenn fengið afhent lúpínufræ á t.d. bensínstöðvum með leiðbeiningum um sáningu til að taka með og dreifa á örfoka staði. Þetta mæltist vel fyrir nema hjá hreinræktunarsinnum sem töldu þennan vinnuhest við uppgræðslu landsins framandi í náttúrunni. Það væri til ein rétt íslensk náttúra, og höfðu talsmenn þessarar hreinræktunarstefnu betur á endanum. Lúpínan var á endanum tekin úr umferð, ef svo má segja, nema við mjög miðstýrða og afmarkaða uppgræðslu. Jón Loftson, fyrrum skógræktarstjóri, kallaði stefnu þessa „vernd niðurlægingarinnar“. Að sá gróður sem reynt sé að verja sé afleiðing þúsund ára rányrkju of mikils beitarálags, svo notuð séu orð hans.

Í dag horfumst við í augu við nýjan vanda sem eru stórkostlegar breytingar á loftslagi jarðar af mannavöldum. Íslendingar hafa skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2030 en eru í raun á leið í þveröfuga átt miðað við daginn í dag. Margt þarf að gerast til að breyta því: orkuskipti í samgöngum, endurheimt votlendis o.fl. En stóraukin gróðurþekja landsins myndi einnig leggja þung lóð á vogarskálarnar. Fátt bindur meira kolefni meira en næringarríkur jarðvegur og gróður.

Hlýnun jarðar er of mikilvægt verkefni til að leyfa nostalgískri og þjóðernisskotinni hugsun um hvað sé rétt náttúra landsins að ráða för. Hér með er kallað eftir sannkölluðu þjóðarátaki í uppgræðslu landsins næstu sumur, og byrjum strax sumarið 2021. Að stjórnvöld og áhugafólk beiti sér fyrir allsherjar fræsöfnun og frædreifingu á lúpínu, birki og öðrum tegundum sem henta vel við að hraða uppgræðslu landsins – í samvinnu við félög sem hafa þetta að hlutverki sínu. Það er vilji til staðar, tækin eru til og tíminn er að renna út. Eftir hverju bíðum við?

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.