Pólitík má alveg vera ævistarf

Ekki datt mér í hug, þegar ég settist í Stjórnlagaráð vorið 2011, að samvinna mín og Ara Teitssonar ætti eftir ganga eitthvað frábærlega vel. Ég var ESB-sinni af suðvesturhorninu. Landbúnaðarkerfið var tákn alls þess þess sem ég var að reyna að breyta. Ari var fyrrum formaður Bændasamtakanna. Annað kom þó á daginn. Þegar ég tók síðan saman allar atkvæðagreiðslur sem átt hefðu sér stað í starfstíma ráðsins kom í ljós að engir tveir ráðsfulltrúar höfðu oftar kosið eins en eins en einmitt við Ari.

Pólitík snýst stundum um dýpri gildi en bara þau málefni deilt er um: ESB-aðild, borgarlínur, flugvelli, fyrirkomulag skattkerfis og áfengissölu. Pólitík snýst stundum líka um aðferðir. Dugar að ná meirihluta um mál eða er þess virði að reyna ná um þau breiðari samstöðu? Er það dyggð að ná fram málamiðlunum eða á að draga línur í sandinn og hvika hvergi frá þeim?

Frambjóðendum í forkosningum í Bandaríkjunum hafa lengið talið það sér til tekna ef þeir gátu unnið vel með fólki úr hinum flokknum. Kjósendur vildu það. Nú virðist það heldur þvælast fyrir frambjóðendum, til dæmis í forkosningum Demókrata, ef þeir koma með slíkar yfirlýsingar. “Hefur þetta lið engar hugsjónir?” er spurt. Og sitjandi forseti var svo sannarlega ekki kosinn út á hæfileika sína til sáttagerðar og pólitískrar brúarsmíði. “Samvinna” er nánast orðið skammaryrði.

Þegar ég náði kjöri á Alþingi átti ég sæti í umhverfis- og samgöngunefnd. Formaður í nefndinni var Valgerður Gunnarsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins. Hún hafði mjög góðan stíl á formennsku sinni, lagði einmitt áherslu á breiðari samstöðu frekar en að ná út málum með naumum atkvæðum meirihlutans. Fyrir vikið gat fólk talað frjálsar, sameinast um breytingar og náð sínum hlutum inn í nefndarálit. Fyrir vikið varð vinnuandinn betri. Mér fannst læra mikið á að starfa með Valgerði.

Ef fólk reynir að gera hluti hægar og breiðari samstöðu þýðir það eðlilega að stundum gerist minna en meira, alla vega til að byrja með. Til lengdar verður auðvitað allt skilvirkara með betri vinnuanda, minni tími fer í að ásakanir, dónaskap og annað kjaftæði. En til skamms tíma getur vissulega verið áhrifameira og skilvirkara að keyra mál í gegn. Já, og vænlegra til vinsælda.

Fyrir örfáum dögum kvaddi samstarfskona mín í borgarstjórn og nágranni, Guðrún Ögmundsdóttir. Hún kom inn í borgarstjórn með reynslu af borgarstjórn, Alþingi og reynslu úr stjórnsýslu stjórnarráðsins. Það leyndi sér ekki að sú reynsla hafði jákvæð áhrif inn í borgarstjórn. Með reynslunni fylgdi virðing fyrir ólíkum sjónarmiðum, kunnátta til að höndla ágreining við ólíka einstaklinga. Í pólitík þarf maður oft að starfa með fólki sem maður hefur ekki endilega valið að starfa með. Það krefst hæfileika að njóta traust fólks í ólíkum flokkum, án þess þó að gefa afslátt á eigin hugsjónum þegar á reynir.

Það er ekkert vinsælt í dag að segjast ætla að leggja fyrir sig pólitík sem ævistarf. Það er ákveðið ákall um ferskleika, að fólk komi inn, hljóti skjótan framgang, hafi metnað til að ná langt, komi hlutum hratt í gegn, en stoppi ekki endilega lengi. Það má auðvitað hafa jafnvægi í hlutum og ákveðin endurnýjum er af hinu góða. En endurnýjum á þingi er mikil og endurnýjum í sveitarstjórnum er mikil. En þegar maður fær að kynnast fólki eins og Guðrúnu Ögmundsdóttur, og fleirum, fer maður heldur að hallast að því að pólitík yrði líklega betri ef fleira gæðafólk myndi dvelja í henni nógu lengi til að aðrir gætu lært af þeim. Ég er allavega þakklátur fyrir að hafa stundum fengið að gera nákvæmlega það.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.