Diego Armando Maradona

Hann var ekki venjulegur íþróttamaður heldur meira eins og kvalin listamannssál. Harmræn ásjóna Maradona getur dugað til að hreyfa við manni. Maðurinn var ósigrandi á einu sviði en svo innilega mannlegur á öllum öðrum.

Diego Armando Maradona var fallegur maður. En hann var ekki glæsilegur nema inni á fótboltavellinum. Hann var elskaður og dáður, en likega væri ofmælt að segja að hann hafi verið virtur. Það yrði seint sagt um hann að hann hafi verið mikill fagmaður, þótt enginn hafi verið betri í faginu. Og engum dettur í hug að hann hafi náð langt í krafti sjálfsaga; hann hafði örugglega nánast engan sjálfsaga—enda þurfti hann ekki á slíku að halda. Hann var drifinn áfram af ólgandi og óstöðvandi ástríðu.

Nafnið sjálft var stærra en öll hin nöfnin. Þetta breiða og samhverfa M fremst, og fjórir syngjandi sérhljóðar í kjölfarið. Maradona stóð fyrir töfra fótboltans; leikgleði og sigurvilja. Og nafnið varð stærra en fótboltinn. Öll heimsbyggðin þekkti nafnið Maradona löngu áður en afrek hans á knattspyrnuvellinum réttlætu alla þessa frægð. Það virtist eitthvað óhjákvæmilegt við að maður með svona stórt nafn eins og Maradona myndi einhvern veginn ná að sigra heiminn.

Og nafnið Maradona er kraftmikið nafn, og hefur líklega skotið skelk í bringu andstæðinganna. Maradona er að koma til að niðurlægja þig…Nafnið hefði getað átt við hershöfðingja, stjórnmálamann, sigurvegara. En Maradona var ekki bara Maradona. Hann var líka Diego og Armando.

Jafnvel þegar öll heimsbyggðin var orðin meðvituð um Maradona; undrabarnið frá Argentínu sem hafði yfir að ráða tækni, hraða og krafti sem ekkert jafnaðist við, þá stækkaði nafnið enn meira. Fyrir framan hið fagra en karlmannlega ættarnafn Maradona var lítið og hógvært „Diego“. Knattspyrnugoðið var líka lítill drengur, sem gat svo greinilega gleymt sér einn að leik með bolta úti á velli. Hann gat verið eins og smábarn sem uppgötvar hvernig bolti virðist hlýða eigin lögmálum áður en vilji og æfing ná að hemja og temja hið villta eðli knattarins. Myndskeið af Diego að leika sér með bolta eru dáleiðandi.

Þeir áttu líka flott nöfn hinir knattspynumennirnir á þessum tíma; Platini, Gullit, van Basten, Lothar Matthaus. En þeir áttu bara tvö—og þeir áttu hvorki þetta þriðja nafn eða þessa þriðju hlið á sínum persónuleika. Og það var þessi listfenga ástríða, sem skildi á milli Diego Maradona og allra hinna. Mér fannst hún búa í millinafninu—Armando—þvílíkt dýrðarnafn. Diego Armando Maradona er nafn sem virðist auðveldara að tilbiðja en flest önnur.

Diego Armando Maradona var uppreisnarmaður og listamaður. Hann var ekki drifin áfram af peningagræðgi—þá hefði hann selt krafta sína hæstbjóðanda. En hann var algjörlega heill í hatri sínu á þeim ríku og snobbuðu. Metnaður hans stóð aldrei til að verða vel metinn og mettaður þjónn í þjónustu þeirra sem höfðu völdin fyrir, þeirra sem voru vanir að sigra, eða kaupa til sín sigurvegara. Slíkt kveikti ekki nein bál í hjarta Maradona. Hann brann fyrir að fá tækifæri til að velta úr sessi þeim sem sem höfðu völdin og leyfa hinum lágt settu, fátæku og niðurlægðu að upplifa sigurgleði. Og líkega er það þess vegna sem hann passaði ekki hjá Barcelona; liðinu sem var vant því að sigra. Hann small hins vegar óaðfinnanlega við Napólí, fátæka borg fulla af ástríðum og mótsögnum. Borg sem var svo vön því að tapa að hún trúði ekki að henni yrði nokkru sinni „leyft“ að sigra. Maradona tók sér sverð í hönd í nafni niðurlægðrar borgar. Og í nafni borgarinnar sigraði hann. Þar var hann ekki elskaður þrátt fyrir galla sína, heldur vegna þeirra.

En aðrar syndir en græðgin áttu þeim mun meiri tök í Maradona. Hann varð ekki skylmingaþræll hinna fínu og fáguðu. Honum tókst að komast hjá þeim örlögum, en varaði sig ekki á öðrum hættum. Hann varð þræll illa þokkaðra mafíósa—og að endingu fíknar og hóglífis. Þetta gat aldrei endað vel.

Hann var ekki venjulegur íþróttamaður heldur meira eins og kvalin listamannssál. Harmræn ásjóna Maradona getur dugað til að hreyfa við manni. Maðurinn var ósigrandi á einu sviði en svo innilega mannlegur á öllum öðrum. Honum virðist hafa verið alþýðleikinn svo rækilega í blóð borið að hann gat ekki brynjað sig gagnvart heiminum nema með kókaíni. Langt líf gat tæpast átt fyrir honum að liggja, það var nokkuð augljóst.

En þetta nafn sem honum var gefið mun líklega lifa miklum mun lengur en nokkurs annars íþróttamanns, einmitt vegna þess að hann var allt þetta í senn; drengurinn Diego sem elskaði leikinn eins og barn; stríðsmaðurnn Maradona sem sveifst einskis til að sigra, og listamaðurinn Armando sem berskjaldaði sig fullkomlega í þágu ástríðu sinnar, en kom þar með ekki upp neinum vörnum gagnvart eyðileggingarmætti frægðar og freistinga. Hann hvílir nú; áreiðanlega í meiri friði en hann lifði.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.