Föstudags eða sunnudags Gísli?

Tveir drifkraftar virðast um þessar mundir öðrum fremur móta samfélagið; þetta eru annars vegar borgarvæðing  og hinsvegar fjórða iðnbyltingin. Ein af birtingarmyndum þessara krafta hafa sumir séð sem niðurstöður forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2016.

Hillary Clinton vann stóra sigra í helstu borgum landsins. Á þeim svæðum er menntastig hátt og mörg tæknifyrirtæki hafa verið stofnuð á undanförnum árum. Þar hefur verið stöðugur hagvöxtur, sem skapar grundvöll fyrir háum launum. Í þessum borgum er frjósöm umræða um lýðræði og mannréttindi sem eru í hávegum höfð. Það mætti jafnvel kalla íbúa þessara svæða „góða fólkið“.

Trump sigraði líka í mörgum borgum en þær voru flestar iðnaðarborgir sem hafa séð betri tíð í sól- og ryðbeltunum svokölluðum. Mest fylgi sótti Trump þó til hinna dreifðu byggða í fylkjum þar sem tækifærum fer fækkandi, ráðstöfunartekjur hafa dregist saman og íbúum er jafnvel að fækka.

Bilið milli þessara tveggja hópa í Bandaríkjunum virðist fara breikkandi. Talað er um kjósendur Trump sem illa menntaða, heitttrúaða og fordómafulla öfgamenn. Í skemmtanamiðstöðvum stórborganna er gert stanslaust grín að Trump og vegið að gáfnafari hans, í Washington er ítrekað árangurslaust reynt að ákæra hann til þess að koma úr embætti. Engum virðist detta í hug að eyða meiri tíma með kjósendum hans og reyna að telja þeim hugarhvarf.

Gæti það verið að á Íslandi séu að dragast upp nýjar pólitískar línur sem hegða sér með öðrum hætti en sú hægri/vinstri mynd sem við höfum átt að venjast undanfarna áratugi? Hér – eins og  víða um heim – má líka sjá vaxandi gjá milli sjónarhorna þessara tveggja hópa sem hafa stundum verið kallaðir raunhagkerfið og góða fólkið.

Fulltrúar raunhagkerfisins tala mikið um innviði, atvinnutækifæri og tala hlýlega um sögu lands og þjóðar á meðan góða fólkið vill helst af öllu tala um náttúruvernd, mannréttindi og alþjóðamál.

Ríkissjónvarpið hefur einfaldað landsmönnum að átta sig á því hvorum megin þessarar línu þeir standa með því að bjóða þeim upp á sjónvarpsþátt góða fólksins á föstudagskvöldum í umsjón Gísla Marteins Baldurssonar. Þar má ávallt finna vel máli farna íbúa vestur-Reykjavíkur að ræða um sín hugðarefni. Þetta er yfirleitt háskólamenntað fólk með djúpan áhuga á mannréttindum, alþjóðamálum og náttúruvernd. Góða fólkið.

Á sunnudagskvöldum heldur Gísli Einarsson utan um taumana á Landanum þar sem raunhagkerfið er heimsótt. Þar er rætt um innviði og atvinnu. Þar má finna landvætti íslensk þjóðlífs og náttúru ræða sín hugðarefni og málefni.

Sjaldgæft er að fólk komi fram í báðum þessara þátta.

Og gjáin breikkar og myndar það sem eru lang mest afgerandi línurnar í íslenskri pólitík í dag. Ekki hægri/vinstri skattapólitík, aðild að ESB eða innflytjendamál.

Þegar flokkakerfið er skoðað út frá þessu þá eru þrír flokkar búnir að sérhæfa sig í góða fólkinu. Þetta eru Samfylkingin, Viðreisn og Píratar. Kjósendur þessara flokka búa að stóru leyti á höfuðborgarsvæðinu og hreyfa sig tiltölulega áreynslulítið á milli þeirra.

Þrír flokkar, núverandi ríkisstjórnarflokkar, eru allir á miðjunni í þessari skiptingu. Þeir vilja bæði atkvæði raunhagkerfisins og góða fólksins. Þeir geta allir unnið með flokkum í báðar áttir.

Það er hjá raunhagkerfinu sem mestu „tækifærin“ til atkvæðaveiða eru til staðar. Þar hafa Miðflokkurinn og flokkur fólksins staðsett sig ásamt Sósíalistaflokknum. Það er þessi kjósendahópur sem fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar telja sig geta biðlað til í kosningum.

Þessi þróun sem hér er bent á er óæskileg. Hvorugur hópurinn virðist hafa áhuga á málamiðlunum. Gráu svæðunum fækkar. Það væri umtalsvert betra ef fólk sýndi meira jafnvægi í sínum málflutningi, horfðu bæði á föstudags- og sunnudags Gísla.

Ójafnvægi þar sem þjóðfélagshópar loka sig af og hætta að hlusta hvor á annan skapar slæman jarðveg til þess að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Vonandi ber okkur gæfu til þess að hlusta meira á hvort annað á kostnað þess að hlusta bara á endurómin í bergmálsklefum samfélagsmiðla.

Sporin fyrir vestan haf hræða.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.