Með vindinum kemur kvíðinn

Það búa fleiri á Seltjarnarnesi en í Vestmannaeyjum en það eiga miklu fleiri heima í Vestmannaeyjum, sagði Þórlindur Kjartansson vinur minn einhverju sinni. Hið sama á við um Flateyri, þar eiga miklu fleiri heima en búsettir eru. Þrátt fyrir að nú sé að verða liðinn aldarfjórðungur frá snjóflóðunum mannskæðu sem féllu á Súðavík og Flateyri í janúar og október 1995 og gróið yfir sárin á yfirborðinu þá er kvölin og kvíðinn enn til staðar.

Það er mikil mildi að ekkert manntjón skyldi verða í snjóflóðunum miklu fyrir vestan í gærkvöldi. Sá lærdómur sem dreginn var af snjóflóðinu 1995 og uppbygging varnargarða í kjölfarið hefur vafalítið komið í veg fyrir að hörmungarnar endurtækju sig. Engu að síður er það kraftaverki líkast að mannbjörg hafi orðið í gær, þegar horft til þeirrar eyðileggingar sem flóðið olli. Það er guðs mildi að þessar hamfarir hafi ekki orðið að ólýsanlegum hörmungum.

Frá því að fréttir bárust af flóðunum í gærkvöldi hafa landsmenn nýtt samfélagsmiðla til að tjá samhug sinn. Fyrir aldarfjórðungi var ekkert net og enn síður samfélagsmiðlar. Ég minnist þess að afi heitinn hringdi þá í mig að kvöldi dags, þar sem ég hafði vetursetu í Suður-Frakklandi. Hann sagðist hafa slæmar fréttir að færa og svo heyrði ég hvernig röddin brast þegar hann sagði mér að fallið hefði snjóflóð á Flateyri. Samhugur þjóðarinnar þá var allt að því áþreifanlegur og líklega var tilfinningum landsmanna hvergi betur lýst en í texta Bubba Morthens við lagið sem nefnt er í fyrirsögn þessa pistils.

Fyrir heimamenn á Flateyri, bæði brottflutta og búsetta, hafa þessar hörmungar þó aðra og dýpri þýðingu en fyrir okkur hin. Kvölin nístir enn, þótt sárin ekki sjáist lengur, og kvíðinn er þarna. Þrátt fyrir áfallið er samfélag Flateyringa sterkt og að baki því stendur íslenska þjóðin. Hið hversdagslega sundurlyndi víkur fyrir samhug og samstöðu.

Það er kannski táknrænt að hér á Deiglunni í gær birtist pistill eftir Óla Örn Eiríksson, einn af sonum Flateyrar, nokkrum klukkutímum áður en flóðin féllu, þar sem hann kallar eftir því einstakir þjóðfélagshópar, fólk í þéttbýli og landsbyggðarfólk, sýni hvort öðru meiri skilning og hlusti meira á hvort annað.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.