Tækni-aftur-farir

Það er ekkert nýtt að menn geti komist á bát frá Miðjarðarhafi til Rauðahafs. Gamli Súesskurðurinn, sem er talinn fyrst hafa verið kláraður um 600 f.kr., lá raunar aðra leið: Grafinn var skurður frá Níl og að vötnum sem kallast á ensku „Bitter Lakes“ og þaðan yfir í Súes-flóann. Það má enn sjá leiðina með því að skoða gróðurþekju á gervihnattarmyndum.

En það er vesen að halda skurði opnum í eyðimörk. Næstu árhundruð var skurðurinn ýmist opnaður með pompi og prakt eða fylltist á sandi að völdum manna og náttúru. Sögulegar samgöngubætur komu ýmist eða fóru. Þetta var engin einstefna.

***

Fyrir 40 árum öld var hægt að fljúga frá London til New-York á innan við þremur tímum. Eftir að Concorde-vélarnar voru teknar úr umferð tekur ferðin að tæplega tvöfalt lengri tíma. Ekki er útlit á að ferðatíminn styttist aftur að ráði í bráð.

***

Við gerum alltaf ráð fyrir fyrir að tækni fleygi alltaf fram í eina átt. Við tölum um tækniframfarir. En pólitísk óvissa, markaðsaðstæður, stríð og þverrandi auðlindir geta auðveldlega valdið því að tækni sem er betri en annað sem í boði er leggist af án þess að annað komi í staðinn.

Mannkynssagan geymir mörg þannig dæmi: Fólk lærir að smíða skip og sigla þeim. Fólk siglir skipunum á fjarlæga eyju. Fólk klárar öll trén á eyjunni. Fólk kemst ekki til baka.

***

Flugvélaframleiðandinn Boeing stendur nú í ströngu eftir kyrrsetningu á nýjustu vöru félagsins. Fyrir á markaðnum er aðeins einn raunverulegur keppinautur, Airbus. Aðrir eru minni og framleiða minni vélar. Miklar reglur gilda um framleiðslu flugvéla og þetta er væntanlega ekki markaður sem auðvelt er fyrir nýja aðila að hoppa inn á.

Ég vil hvorki spá, hræða, né predika. En ég játa það að ég kann ágætlega við möguleikann að geta ferðast á milli landa án þess að sigla yfir höf. Og óska þeim sem vinna að því að gera það kleift alls hins besta. Það er nefnilega ekki sjálfsagt og fólk muni kunna, nenna, mega og geta framleitt jafngóðar flugvélar í framtíðinni. Stundum fyllast skurðir af sandi.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.