Fagra Ítalía

Ítalía er land þar sem jafnan virðist vera indælt að eldast og vera gamall. Undir venjulegum kringumstæðum finnur maður ekki til vorkunnar þegar maður sér ítölsk gamalmenni. Þvert á móti virðist manni alltaf eins og kjaftforu karlarnir á kaffihúsunum og háværu kerlingarnar á svölunum njóti lífsins fram í fingurgóma. Ítalir á öllum aldri taka reyndar hlutverkum sínum alvarlega. Unga fólkið gengst upp í því að vera fagurt og þokkafullt, miðaldra fólkið felur ekki að það sé upptekið og áhyggjufullt—en gamla fólkið tekur að sér að vera bæði sposkt en ögn duttlungafullt. Kynslóðirnar á Ítalíu þekkja sínar rullur og leika þær af heitri ástríðu frá morgni til kvölds, innan dyra og utan, í bæjum og sveitum.

En nú hvílir skuggi sorgar og ótta yfir þessu fallega samfélagi.

Þessa dagana gerist tvennt á degi hverjum samtímis um gjörvalla Ítalíu. Klukkan 18 stígur fólkið um land allt út á svalir og hefur upp raust sína í söng. Á sama tíma sendir heilbrigðisráðuneytið út daglega skýrslu um ástanda mála. Undanfarna daga hafa tölurnar verið ljótar, tíu dögum eftir að allt átti að vera lokað og læst um landið allt, fjölgar enn greindum tilvikum og stöðugt fleiri veikir einstaklingar, smitaðir af COVID-19, látast. Margir þeirra eiga dapurlegan dauðdaga á yfirfullum sjúkrahúsum á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti.

Langsamlega flest dauðsföll eru í Lombardia héraði þar sem heimsborgin Mílanó er. Af þeim 5.476 sem höfðu látist með COVID-19 sjúkdóminn á Ítalíu í gær voru 3.456 þaðan (63%) og 816 (15%) úr Emilia-Romagna héraði, sem er beint suður af Lombardia. Þessi tvö héruð eru miklum mun verr leikin en önnur svæði og munar þar miklu. Það er einkum innan Lombardia þar sem ástandið er ljótast, og það er einmitt þaðan sem flestar sorglegustu fréttamyndirnar koma. Víðast hvar annars staðar á Ítalíu, jafnvel á stórum og fjölmennum svæðum, virðist sem enn hafi ekki skapast vandamál í neinni líkingu við þar nyrðra. Sem dæmi má nefna að á Skiley, þar sem fimm milljónir manna búa, hefur einungis verið tilkynnt um átta dauðsföll og 630 smit hafa fundist í 5,580 prófum. Í Campania, þar sem búa sex milljónir í kringum Napólí flóa, hafa 29 látist. Ástandið á langflestum stöðum á Ítalíu virðist því vera víðs fjarri þeim hryllingi sem fréttamyndirnar frá Bergamo og fleiri stöðum í Lomabardia vitna um.

Óttinn gegnsýrir hins vegar allt samfélagið á Ítalíu og er það ekki skrýtið í ljósi þess að þar hefur fólk horft upp á afleiðingar þess að veiran nái að dreifast óheft úr sér, einkum meðal eldra fólks. Nýjustu tölur sem ég hef fundið segja að 87% dauðsfalla á Ítalíu hafi verið meðal fólks sem var komið yfir sjötugt og 40% greindra sýkinga séu úr þeim hópi. Nýjar tölur frá Spáni segja að um 20% greindra séu yfir sjötugu en 88% dauðsfalla hingað til eru úr þeim hópi. Svo virðist sem óhætt sé að álykta að útbreiðsla smits meðal viðkvæmra hópa, einkum gamalla og aldraðra, sé umtalsvert mikilvægari vísbending um alvarleika í stöðu mála heldur en einföld talning á greindum tilvikum.

Enn sem komið er virðist hafa gengið ótrúlega vel að vernda þennan hóp á Íslandi. Af þeim 568 smitum sem höfðu greinst hér í gær, 22. mars, voru 18 frá einstaklingum yfir sjötugt (3%). Þetta er langsamlega lægsta hlutfall sem ég hef séð. Fyrir utan það sem komið er fram um Ítaliu og Spán, þá má nefna að í Suður Kóreu eru 11% greindra tilvika frá fólki 70 ára og eldra (og 75% dauðsfalla), í Danmörku eru um 15% greindra á þessum aldri og í Noregi um 9%.

En þótt sjúkdómurinn sé langhættulegastur eldra fólki er alls ekki þar með sagt að yngra fólki fólki sé óhætt. Töluverður hluti yngra fólks virðist veikjast svo illa að það gæti þurft að aðstoð heilbrigðiskerfisins að halda, jafnvel innlögn. Þetta felur í sér að minnsta kosti tvenns konar áhættu. Annars vegar er álagið sjálft til vansa, einkum ef fjöldi alvarlegra veika eykst mikið. En hins vegar, og það skiptir eflaust meira máli, þá eykst sýkingarhætta á heilbrigðissstofnunum eftir því sem tilvikum fjölgar. Og það er bersýnilega mjög mikilvægt að beita öllum ráðum til þess að tryggja að smit fari ekki á kreik innan sjúkra- og öldrunarstofnana. Miðað við það sem nú er vitað um ástandið þar sem það er verst, til dæmis í Lombardia, hljóta böndin að beinast að heilbrigðis- og öldrunarstofnununum sjálfum þegar hægt verður að rekja upp slóð smitanna í leit af svörum um af hverju það fór svona illa. Hver svo sem niðurstaðan úr slíkri rakningu verður þá virðist algjörlega óhætt að fullyrða að einbeitt áhersla á einangrun viðkvæmra hópa hér á landi sé algjörlega rétt stefna.

Það er örugglega orðið erfitt hjá mjög mörgum að geta ekki tekið utan um börnin sín og barnabörnin. Margir sakna þess sárt að mega ekki finna heitan lítinn lófa í sínum eigin, staðfestinguna á því hvernig manns eigið líf heldur í einhverjum skilningi áfram þótt við eigum hvert um sig bara skamma viðdvöl á þessum slóðum tilverunnar. En við verðum öll að standa saman og gera það sem fyrir okkur er lagt á meðan á þessu öllu stendur. Ástandið mun líða hjá og þegar við fáum aftur tækifæri til, þá ættum við að læra það af fallega samfélaginu á Ítalíu, að vera dugleg að faðma fast og lengi og innilega að okkur fólkið sem okkur þykir vænst um alltaf þegar við fáum tækifæri til.

Og mikið verður indælt þegar gömlu karlarnir á Ítalíu geta aftur farið að rífast um fótboltann og kerlingarnar að skammast yfir veðurfarinu. Þá kemst allt aftur í lag og verður eins og það á að vera.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.