Þegar himnarnir opnast að nýju

Corona veiran hefur breytt heiminum og öllu okkar daglega lífi. Fréttatíminn hefur undanfarnar vikur varðað þetta eina mál, ólíkar birtingarmyndir þessarar hættu og ólík viðbrögð ríkja heims. Stóru málin og deilumálin sem rötuðu í fréttirnar fyrir Corona voru önnur. Mánuði fyrir Corona loguðu samfélagsmiðlar vegna þess að nýtt lógó KSÍ þótti ekki nógu gott. Stóru málin eftir Corona varða ekki lengur lógó Knattspyrnusambandsins. Önnur félög og samtök með ljót lógó geta andað léttar því ljót lógo munu ekki valda alvarlegum titringi í samfélaginu alveg á næstunni.

Corona veiran hefur breytt heiminum og öllu okkar daglega lífi. Fréttatíminn hefur undanfarnar vikur varðað þetta eina mál, ólíkar birtingarmyndir þessarar hættu og ólík viðbrögð ríkja heims. Stóru málin og deilumálin sem rötuðu í fréttirnar fyrir Corona voru önnur. Mánuði fyrir Corona loguðu samfélagsmiðlar vegna þess að nýtt lógó KSÍ þótti ekki nógu gott. Stóru málin eftir Corona varða ekki lengur lógó Knattspyrnusambandsins. Önnur félög og samtök með ljót lógó geta andað léttar því ljót lógo munu ekki valda alvarlegum titringi í samfélaginu alveg á næstunni.

Veiran sem hefur sett líf okkar allra á hvolf hefur á sama tíma sýknað símann og tölvuna af því að vera skúrkurinn í tilverunni. Síminn og tölvan hafa á tímum heimaskólans hlotið uppreist æru. Eftir Corona er tölvunotkun barna og símanotkun ekki bara orðin lögleg heldur standa foreldrar sig að því að óska þess að krakkarnir taki sér góða stund í símanum svo hægt sé að sinna vinnu og öðrum verkefnum. Heiðarlegir foreldrar kannast eflaust við veruleikann fyrir Corona þar sem það þótti fínt að geta sagt öðrum foreldrum frá flóknu regluverki um skjátíma barnanna. (En vera á sama tíma ekki nálægt því að geta farið að eigin tilmælum sem börnin áttu að lúta.) Foreldrarnir sátu sjálfir límdir yfir símanum þar sem við lásum tíðindi af kvöldmat kunningja eða stöðuna á gönguskíðanámskeiðum. Á milli þess sem við lásum lærðar greinar á mbl um fimm atriði sem eyðileggja handklæðin. Breytt heimsmynd hefur fært mér þann skilning að skjátími er ekki endilega glataður tími og getur skapað minningar. Og á tímum samkomubanns, tveggja metra reglu og þegar við erum öll að verða ófrýnileg útlits eftir að ræktin, hárgreiðslustofan og snyrtistofan lokuðu öll sama dag er rafrænt lífið ekki bara nauðsynlegt heldur skynsamlegt. Í gærkvöldi var ég í rafrænum saumaklúbbi með vinkonum mínum og framundan er Happy hour með góðum konum, Virtual Happy Hour. Við ætlum að hittast fyrir framan skjáinn og eiga saman gæða skjástund og skála. Ég ætla eðlilega að blása á mér hárið og setja mitt fínasta á varirnar.

Ég hef smám saman meðtekið þennan sannleika að síminn minn, tölvupósturinn og önnur samskipti geyma dýrmæta sögu. Ég hef tekið skjátíma minn í sátt og séð að hann hefur skapað góðar minningar, falleg skilaboð og fyndin skilaboð og bréf frá ólíkum köflum í lífinu. Ástandið og óöryggið sem veiran hefur kallað fram hefur gert að verkum að ég hef farið að skoða þessi samskipti betur og með öðrum hætti. Ég hef til dæmis í mörg ár átt í daglegum samskiptum við vinkonur mínar þrátt fyrir að hitta þær allar reglulega. Samskiptin geyma pælingar um stjórnmál og bækur, vinnuna okkar, áhyggjur okkar af börnunum en líka hjal um um hárgreiðslustofur. Og með árunum höfum við talað meira um góð andlitskrem. Við höfum rætt útvíkkun og fæðingar og dásamað mænudeyfingu þó að okkur hafi ekki litist á 12 ára lækninn sem sagði að ekki mætti skeika um millimetra við stungu. Við höfum talað um gleðina í lífinu okkar og verið til staðar fyrir hver aðra í gegnum sára sorg. Eftir Corona höfum við talað töluvert um allt það sem viljum og ætlum að gera þegar þessum kafla er lokið. Í samtölum komumst við kannski næst því að tala um eitthvað annað en veiruna þegar við leyfum okkur að vísa til veruleikans eftir veiruna. Minn draumur er sumarið. Himnarnir hafa opnast að nýju og ég daðra við glitrandi geisla sólarinnar í einhverju landi öðru en heimalandinu. Samskiptin sem síminn geymir speglar lífið á hverjum tíma.

Það er vinsæl söguskoðun að við séum að fjarlægast hvert annað eftir því sem skjátíminn eykst. Það er ekki rétt því við samskiptin sem síminn býður upp gefur okkur færi á að deila og taka þátt í lífi vina okkar oftar og þéttar en áður. Í samkomubanni koma þessu samskipti okkur til bjargar og ekki lengur hægt að halda því fram að þessi samskipti dragi úr öðrum. Samkomur standa ekki lengur til boða. Kannski fær síminn og skjátíminn loks viðurkenningu á gildi sínu í samskiptum. Og karakter okkar birtist í því hvernig við skrifum, til hverra og af hvaða tilefni. Síminn og tölvan eru á þessum furðulegu tímum einfaldlega glugginn inn í lífið.

Latest posts by Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (see all)

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar

Obba hóf að skrifa á Deigluna sumarið 2001.