Einsleitt háskólasamfélag

Nú gengur sá tími árs í gang þar sem þúsundir háskólanemenda þreyta jólapróf við þá fjölmörgu háskóla sem starfræktir eru á hér á landi. Þetta tímabil einkennist oft á tíðum af takmörkuðum svefni, legusárum á sitjandanum, reglulegum stressköstum og óhóflegri kaffidrykkju. En þetta er yfirleitt bærilegt fyrir þær sakir að nemendur sjá þetta tímabil einfaldlega sem lið í því að uppfylla kröfur samfélagsins um að afla sér menntunar á háskólastigi svo að þeir fái góð og oftast nær vel launuð störf að loknu námi. Almennt er það talið nokkuð skothelt plan að klára stúdentspróf að loknum grunnskóla og taka svo a.m.k. grunngráðu á háskólastigi en meistargráða er þó vel séð.

Af einhverjum ástæðum virðist samfélagið gera þær kröfur að flestir feti þessa leið eins og hún sé hin eina sanna. Beint eða óbeint er skólakerfið þannig uppbyggt að nemendum er stýrt þessa leið og það virðist vera landlægur misskilningur að þeir sem velji aðrar leiðir og fari ekki í háskólanám geri það einungis vegna þess að þeir hafi ekki getuna til að stunda háskólanám, ekki vegna þess að áhugi þeirra og hæfileikar liggja á öðrum sviðum. Það er því áhugavert að skoða hvort það sé svo skynsamlegt að fara þessa hefðbundnu leið.

Ef að skráð atvinnuleysi er skoðað út frá menntunarstigi sést að vissulega eru þeir sem einungis hafa lokið grunnskólaprófi líklegastir til að vera án atvinnu en þeir sem hafa lokið háskólagráðu fylgja þar fast á eftir. Á landsvísu er hlutfall háskólamenntaðra án atvinnu 25% en fer upp í 30% þegar kemur að höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem hafa lokið starfstengdu námi á framhaldsskólastigi, iðnnámi eða stúdentsprófi eru hins vegar allir í kringum 10% þó það fari vissulega eftir landsvæðum.* Þá eru einnig ýmsar vísbendingar þess efnis að ávinningur lengri skólagöngu fari dvínandi þegar kemur að launum.**

Það eru starfræktir sjö háskólar í landinu, fjórir opinberir og þrír einkareknir, en þeir hljóta allir framlög úr ríkissjóði vegna kennslu og rannsókna. Þrátt fyrir að inngrip ríkisvaldsins í starfsemi háskóla eigi að vera í lágmarki mega stjórnvöld ekki ausa fjármagni til þeirra án athugasemda. Sérstaklega í ljósi þess að þeir eru allir með einum eða öðrum hætti reknir með framlögum úr ríkissjóði. Það er því slæm nýting á almannafé að mennta fólk í blindni en núþegar hefur þetta leitt til þess að margir hverjir hafa eytt mörgum árum í menntun sem mun jafnvel aldrei skila þeim störfum á viðkomandi sviði og án þess að samfélagið njóti ávinnings þess að miklum fjármunum sé varið í menntun þeirra.

Það má vissulega færa fyrir því rök að háskólanám mætti vera fjölbreyttara og að nemendur gætu komið út úr háskólum landsins með víðtækari þekkingu sem opnaði á fjölbreyttari störf en það er einfaldlega ekki raunveruleikinn sem við búum við. Það verður því að liggja fyrir hver sé stefna stjórnvalda um framtíðarskipan háskólamenntunar á Íslandi. Það gengur ekki til lengdar að stefnan sé einfaldlega sú að mennta sem flesta án tillitis til efnis og gæða.

*http://www.vinnumalastofnun.is/um-okkur/utgefid-efni-og-talnaefni/atvinnuleysistolur-i-excelskjolum

**http://vr.is/kannanir/launakonnun-2014/helstu-nidurstodur/launakonnun-2014/2014/09/22/Menntun-skilar-minnu-en-adur/?hidedate=

Latest posts by María Guðjónsdóttir (see all)

María Guðjónsdóttir skrifar

María hóf að skrifa í Deigluna í júlí 2008.