Teflon ríkisstjórn

Ríkisstjórnin er búin að efna eitt stærsta loforðið sitt, þvert á svartsýnisspár og gagnrýnisraddir. Skuldaleiðrétting – tékk! Eins mikið og hægt er að gagnrýna og deila um þetta mál er ljóst að framkvæmdin og ekki síst framkvæmdartíminn hefur fallið vel í kramið hjá þjóðinni.

Næst á dagskrá eru gjaldeyrishöftin. Bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa gefið til kynna að góðra frétta sé að vænta á næstunni. Von vaknar um að höftunum verði aflétt áður en kjörtímabilið er hálfnað. Það er jafnvel aldrei að vita nema þetta verði jólagjöf til þjóðarinnar.

Það verður að viðurkennast að takist ríkisstjórninni að leysa úr uppgjöri föllnu bankanna og um leið að aflétta gjaldeyrshöftunum í heild eða að hluta – munu henni verða allir vegir færir.

Á meðan dynur á þjóðinni eitt alvarlegasta verkfall sem um getur. Það er varla nokkur maður sem styður ekki lækna í baráttu sinni, baráttu sem virðist háð ekki bara fyrir kjör lækna heldur fyrir framtíðarvelferð okkar allra. En verkfallið virðist ekki koma hið minnsta við ríkisstjórnina, fjölmiðlar skipta sér vart af því og fjöldamótmæli snúast að mestu um eitthvað allt annað. Fjármálaráðherra heldur þetta út, eins og ekkert sé sjálfsagðara, og heilbrigðisráðherra er vart dreginn inn í umræðuna.

Það er erfitt að segja hvað veldur. Er lekamálið búið að éta upp síður blaðanna og hug blaðamanna þannig að ekkert annað kemst að? Mun verða einhver breyting á nú þegar þunginn af því er frá? Svo er hugsanlegt að þunginn í því máli sé ekkert frá og sitthvað fleira eigi eftir að líta dagsins ljós – það mun væntanlega leiða til þess að fréttir af læknaverkfalli verða enn fimmta frétt kvöldfréttatíma sjónvarpsins – ef það kemst þá yfir höfuð að. Nú kannski hefur bara teflon-húðin hans Bjarna smitast yfir á aðra ráðherra og ríkisstjórnina í heild.

Í öllu falli er ljóst að ríkisstjórnin hefur efnt háleit kosningaloforð, fleiri virðast í vændum, grafalvarlegt verkfall virðist engin áhrif hafa. Þó fylgið í skoðanakönnunum sé ekkert til að hrópa húrra fyrir er ríkisstjórnin engu að síður í sterkri stöðu og um leið kjörinni stöðu til að setja fleiri háleit markmið – enda nægur tími framundan.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.