Einelti í skólum

Það gengur ekki lengur að misburðug sveitarfélög vítt og breitt um landið og einstaka skólar séu að heimaföndra sín viðbrögð við einelti. Það er réttlætismál að allir sem þjást eigi rétt á sömu faglegu þjónustunni. Lítum til heilbrigðiskerfisins eftir fordæmi. Það fer enginn með barn sem fossblæðir úr til skólahjúkku, fyrsta viðbragð er bráðamóttakan. Af hverju ætti viðbragðið að vera eitthvað öðruvísi þegar um er að ræða ógn við andlegt heilbrigði?

Erfið eineltismál í skólum hafa komið til kasta fjölmiðla að undanförnu eftir heitar umræður á samfélagsmiðlum. Hafa þær umræður verið fáum til sóma en rauði þráðurinn er að finna sökudólga vítt og breitt og jafnvel rætt um að beita meinta gerendur sem eru 10-12 ára gömul börn líkamlegu ofbeldi í refsingarskyni. Samfélagsmiðlar hafa sýnt sig sem vita gagnslausan miðil þegar erfið samfélagsmál eru til umfjöllunar og fátt sem bendir til þess að slík opinberun verði þolendum eða gerendum til hægðarauka við uppgjör erfiðrar lífsreynslu þegar fram í sækir.

Samkvæmt heimasíðu Heimilis og skóla er einelti „þegar einstaklingur verður fyrir endurteknu og langvarandi áreiti og á erfitt með að verjast því.” Þetta er tiltölulega hófstillt skilgreining á andlegu og/eða líkamlegu ofbeldi sem beitt er með kerfisbundnum hætti yfir mislangan tíma. Afleiðingarnar geta verið hörmulegar og varað ævilangt. Þær lita líf bæði þolenda og gerenda og hafa alltaf mannskemmandi áhrif. Gleymum því ekki að einelti þrífst líka í heimi fullorðinna og á vinnustöðum og þar er úrvinnsla slíkra mála í enn meiri lamasessi en í skólum. Einelti, hvernig og hvar sem það birtist, er samfélagsmein sem breið samstaða er um að uppræta.

Hvers vegna gengur það svona hægt? Besta svarið við því er að finna hjá sérfræðingum og það er ég ekki. Hins vegar finnst mér blasa við að forræði slíkra mála er mjög dreift. Þegar upp kemur eineltismál í skólum er umsjónarkennari kallaður til, líka skólastjórnendur, skólasálfræðingur og foreldrar bæði þolenda og gerenda. Ef um stærri mál er að ræða er haft samband við skólaskrifstofu sveitarfélags, skólanefnd, eftir atvikum fjallar bæjarstjórn um málið, fagráð eineltismála sem starfar á vegum ráðuneytisins og menntamálaráðuneytið sjálft. Á mismunandi stigum eru ráðgjafarfyrirtæki og utanaðkomandi sérfræðingar kölluð til og jafnvel áhrifavaldar, eins og landsþekkt íþrótta- og tónlistarfólk, sem koma í skólana til að ræða við ungmennin um skaðsemi eineltis. Þetta þarf ekki að vera tæmandi listi.

Eins og sjá má á keðjunni sem fer af stað í erfiðustu eineltismálunum geta gríðarlega margir komið að einu máli og það tekur mikinn tíma að virkja alla þessa aðila. Þá hvílir árangurinn algjörlega á því að allir í keðjunni séu samstarfsfúsir. Því er ekki alltaf að heilsa enda tilfinningar heitar og erfiðar. Ég hygg að flestir skólar fylgi nú til dags Olweus-áætluninni sem var fyrst innleidd í grunnskólum á Íslandi árið 2002. Markmið hennar er að skapa nemendum öruggt og uppbyggilegt umhverfi í skólanum og koma í veg fyrir einelti. Almennt hefur hún gefið góða raun sem forvörn en hún útilokar ekki einelti frekar en reykskynjari kemur alltaf í veg fyrir bruna.

Og talandi um bruna. Einelti er svolítið eins og falinn eldur milli þilja. Það hefur ríka tilhneigingu til að þrífast í skúmaskotum og finna sér stað og stund þegar enginn sem getur gripið inn í sér til. Þolandinn sem skammast sín fyrir jaðarsetninguna þegir og það gera gerendur vitaskuld líka enda hafa þeir alla hagsmuni af því. Það er í mörgum tilfellum ekki fyrr en allt er orðið alelda sem viðbragðið virkjast en þá getur það verið of seint. Mikill skaði skeður og sársaukinn of mikill til að allir sem að málinu koma treysti sér til að vinna með það áfram. Áfallið er svo gríðarlegt í erfiðustu málunum að foreldrar þolenda vilja gera allt til að vernda sitt barn fyrir frekari afleiðingum og foreldrar gerenda raunar líka. Þetta á ekki síst við þegar bálheitar umræður fara fram um einstök mál í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum þar sem vanstillt fólk, kannski sjálft rekið áfram af vondum minningum um einelti, lætur í ljós vilja sinn til að refsa t.d. meintum gerendum með einhvers konar miska. Heilt samfélag hefur lagst á hliðina og skólastarfið allt lamað sem er engum til gagns.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra lét í haust í ljós vilja sinn til að auka áherslu á svokallað eineltisráð innan ráðuneytisins þannig að unnt verði að vísa eineltismálum sem ekki verða leyst innan skóla eða sveitarfélaga til ráðsins. Það væri að mínu mati framfaraskref. Það þarf að stytta þessa viðbragðskeðju til muna og nálgast eineltismál af þeirri alvarleikagráðu sem sannarlega er til staðar. Allir sérfræðingar og skólafólk sem ég hef rætt við eru sammála um að hægt sé að að vinna úr eineltismálum en það sé bæði langt og flókið ferli. Það er ekkert „quick fix” til við einelti enda væri það þá löngu upprætt.

Eineltisvandinn á sér djúpar rætur en í öllum tilfellum þurfa bæði þolendur og gerendur faglega aðstoð því um er að tefla andlega velferð beggja. Faglega aðstoð sem er ekki á færi nema okkar allra bestu sérfræðinga. Samfélagið þarf að umvefja alla sem þessum málum tengjast, ef von á að vera um árangur. Við berum hér mikla samfélagslega ábyrgð. Mín skoðun er sú að of lengi hefur öðrum þræði verið litið á einelti sem einhvers konar hegðunarvanda sem hægt sé að leysa með tiltali og skilyrðum, eins og óþekkt eða stríðni. Þetta er vanmat á aðstæðum. Verstu afleiðingar eineltis eru til marks um það. Ég lít á þetta sem brýnt geðheilbrigðismál. Þess vegna er líka stór spurning þegar um er að ræða erfiðustu eineltismálin hversu heppilegt nærsamfélagið sé til að taka á málum. Þar geta tengsl verið náin þvers og kruss, tilfinningar farnar að grafa undan skynsemi og yfirvegun, auk þess sem sérfræðiþekking á sálfræði og geðlækningum er ekki alltaf til staðar.

Skýr og skilvirkur ferill eineltismála á vettvangi sem allir hafa traust á og geta leitað til jafnt er augljóst næsta skref. Það gengur ekki lengur að misburðug sveitarfélög vítt og breitt um landið og einstaka skólar séu að heimaföndra sín viðbrögð við einelti. Það er réttlætismál að allir sem þjást eigi rétt á sömu faglegu þjónustunni. Lítum til heilbrigðiskerfisins eftir fordæmi. Það fer enginn með barn sem fossblæðir úr til skólahjúkku, fyrsta viðbragð er bráðamóttakan. Af hverju ætti viðbragðið að vera eitthvað öðruvísi þegar um er að ræða ógn við andlegt heilbrigði?

Latest posts by Guðfinnur Sigurvinsson (see all)

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Guðfinnur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.