Samstaða og tortryggni

Samheldni Íslendinga minnir raunar meira á einangraðan ættbálk en þjóð enda fámennið nær einstakt meðal þjóða. Þetta er auðvitað gífurlega mikill kostur við ákveðnar kringumstæður en stórhættulegur við aðrar.

Við erum öll í þessu saman. Við erum öll almannavarnir. Íslenska þjóðin býr yfir allt að því yfirnáttúrulegum hæfileika til að standa saman á raunarstundu. Samheldni Íslendinga minnir raunar meira á einangraðan ættbálk en þjóð enda fámennið nær einstakt meðal þjóða. Þetta er auðvitað gífurlega mikill kostur við ákveðnar kringumstæður en stórhættulegur við aðrar.

Hjörðin þarf á því að halda standa saman þegar hætta steðjar að. Þegar eitt dýr í hjörðinni verður vart við rándýr þá verður viðbragð þess að viðbragði nær allrar hjarðarinnar og hún leggur svo að segja samtímis á flótta. Svo getur það auðvitað gerst að forystusauður hjarðarinnar verður svo truflaður að hann leiðir hjörðina fram af bjargbrúninni. Í slíku tilviki tortímist hjörðin í réttu hlutfalli við samheldni hennar.

Við Íslendingar höfum reitt okkur umfram allt á ráð vísindamanna í baráttunni gegn kórónuveirunni. Raunar hafa flestar þjóðir gert það, í mismunandi mæli þó. Afstaða vísindamanna hefur breyst eftir því sem þekkingin á veirunni hefur aukist. Og afstaða vísindamanna mun halda áfram að breytast eftir því sem þekkingin eykst. Það er eðlilegt að aðgerðir stjórnvalda, jafnvel þótt vísindin séu höfð að leiðarljósi, sæti gagnrýni. Og það er ekki bara eðlilegt, það er nauðsynlegt.

Við sjáum mögulega fyrir endann á þessari þrautargöngu, í bili að minnsta kosti. Stjórnamálamenn hafa tekið réttar ákvarðanir og þeir hafa tekið rangar ákvarðanir. Vísindamennirnir hafa haft rétt fyrir sér um margt en rangt um annað. Ef við ekki spyrjum gagnrýnna spurninga, eins og hvort skaðsemi veirunnar hafi réttlætt hin stórkostlegu inngrip í gangverk samfélagsins, hvort óttinn við að heilbrigðiskerfið gæti ekki tekist á við aukna útbreiðslu veirunnar hafi verið á rökum reistur, hvort hættan á mann- og heilsutjóni hafi verið jafn mikil og mestu varúðarsjónarmið gerðu ráð fyrir, hvort aðgerðirnar hafi leitt til tjóns sem mögulega var umfram þá hagsmuni sem þeim var ætlað að vernda – á meðan við ekki getum spurt slíkra spurninga án þess að uppskera í besta falli tortryggni og í versta falli andúð hjarðarinnar, þá munum við verða verr í stakk búin til að takast á við næsta faraldur.

Gagnrýnin hugsun er nefnilega mikilvægust þegar hún er óþægilegust. Og hún er ekki skortur á samstöðu heldur þvert á móti forsenda hennar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.