Víst hefði RÚV getað gert betur með HM kvenna

Þegar ég hamra þessi orð með sjónvarpið fyrir framan mig og einn kaldan á kantinum er úrslitaleikur í HM kvenna að hefjast. Þetta er 12 leikur sem RÚV sýnir á mótinu, af þeim 52 sem þar fóru fram.

Þegar karlamótið fór fram (Innskot: Vúhú mark fyrir Bandaríkin) sýndi RÚV langflesta leikina (nöjts, 2:0) og lét af hendi örfáa til Stöð 2 en enginn sem vildi ekki missa af neinu gerði það.

Þóra Arnórsdóttir gagnrýndi að menn sýndu ekki einu sinni alla leikina í 16 liða úrslitunum. Ég ætla að ganga lengra og segja bara að það hefði átt að sýna flesta leikina. Auðvitað.

Nú hefði maður haldið að með því að gagnrýna augljósan mismun sem þennan væri verið að skauta á ansi þykkum ís á PC-svellinu. En einhvern vegin þurfti nú hún Þóra að snúa pedölunum til baka og afsaka sig gagnvart íþróttadeild RÚV. Með einhverjum skýringum varðandi styrktarsamninga, minni áhuga á því og því hvernig (3:0!!) mótið er flokkað. (4:0, þetta er ótrúlegt).

Flest rugl á sér einhverjar skýringar. En okkur sem neytendum verður eiginlega að vera sama. Ef einhver grænmetisætuvinur minn fer hamborgarastað og grænmetisborgarinn er búinn trekk í trekk búinn þá á hann bara að vera ósáttur. Alveg sama þótt að brokkólímaukið sé búið á landinu eða að kokkurinn hafi óvart hnerrað í það. Neytendum ber ákveðin skylda að vera sama um skýringar (4:1 ókei, þetta er skemmtun maður!). Því án þeirra verður þetta alltaf eins. Næsta HM kvenna verður þá líka bara 12 leikir af 52. Og allt mun eiga sér góðar skýringar.

Ég veit það ekki, þetta hlýtur að vera ódýrara mót að kaupa en HM karla, enn sem komið er. Og ef menn fá ekki styrktaraðila í þetta mót eitt, hvernig væri að reyna að fá fólk til að styrkja sýningar á báðum mótunum saman. Mér er svo sem sama hvernig þetta er leyst en mér finnst satt að segja að mikilvægara að RÚV sýni frá þessu móti heldur HM karla. Því það mót alltaf bera sig.

Og þetta skiptir alveg máli. Ég gríp mig enn þá að því að þegar ég segist ætla að fara að „horfa á (kvenna)leikinn“ að ég fylgi því eftir með einhvers konar réttlætingu. Og ég geri það vegna þess að því miður er þetta mót, mót glataðra tækifæra hvað Ísland varðar. Við þurfum því miður enn að bíða þessa tíma að ungir strákar reyni að leika eftir einhverja takta frá hinni frönsku Necib á sparkvellinum. Því þú dáist ekki að því sem þú færð varla að sjá.

Jæja, hálfleikur.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.