Álhattaveislan verður aldrei haldin

Allt frá því að Mulder og Scully beindu vasaljósunum að sígarettumanninum á mótunarárum sumra, hefur áhuginn á þessum málaflokki verið mikill.

Samsæriskenningar geta verið mjög áhugaverðar og skemmtilegar. Ekki bara vegna þess gífurlega ofmats sem þær setja oft á hæfni yfirvalda til að skipuleggja langsóttar og ofboðslega flóknar fléttur sem snúa að því að ná fram einhverju sem gagnast þeim í efstu lögum samfélagsins, heldur líka er hægt að brosa að þeim kenningum sem maður kokgleypir ekki sjálfur.

Broslegar samsæriskenningar hafa birst okkur í miklum mæli síðustu áratugi. Háttsettur hershöfðingi sem kallar sig Q, kemst að þeirri niðurstöðu að besta leiðin til þess að opinbera skelfileg plön djúpríkisins til barnaníðs og valdaráns, sé að lauma óskýru og loðnu stafarugli á einhver spjallborð misskilinna Mountain Dew aðdáanda. Birtust m.a.s. innsendar greinar þess efnis í Morgunblaðinu.

Önnur snýr að þátttöku Bush stjórnarinnar að hryðjuverkunum 11. september 2001. Fyrirrennari hans í embætti varð næstum að láta af embætti sökum ókristilegs samneytis við ungan aðstoðarmanns sinn. Þar voru tvö vitni. Hins vegar hafi hæfni forseta til leynimakks stóraukist við valdaskiptin og með litlaputtaloforði hafi hundruðir, ef ekki þúsundir einstaklinga bundist trúnaði sem heldur, um það að stráfella eigin borgara.

Svo eru samsæriskenningar sem gaman er að gleypa. Sem dæmi er frábær hlaðvarpssería sem fjallar um lag eftir vinsælt 80´s hárrokkband. Eftir þá átta þætti sem fjalla um að CIA hafi samið lagið Wind of change, með Scorpions sem lið í að fella Sovétríkin, er erfitt að neita þeim möguleika. Eins myndu fáum svima ef kæmi í ljós að Epstein hafi ekki framið sjálfsmorð eða að Covid-19 hafi ekki orðið til í leðurblöku.

Móðir allra samsærikenninga snýr þó að fljúgandi furðuhlutum. Allt frá því að Mulder og Scully beindu vasaljósunum að sígarettumanninum á mótunarárum sumra, hefur áhuginn á þessum málaflokki verið mikill.

Nýverið hljóp á snærið hjá áhugamönnum í málaflokknum þegar birtist viðtal í 60 mínútum við bandaríska flugmenn í aðdraganda þess að leyniþjónustan mun birta Öldungardeildinni skýrslu um málefni fljúgandi furðuhluta í lok þessa mánaðar. Þar lýstu flugmennirnir reynslu sinni af kynnum af fljúgandi furðuhlutum sem virtust storka öllu því sem þau þekktu þegar kemur að flugmálum. Jafnframt hafa yfirvöld aflétt trúnaði af mörgum myndböndum sem tekin hafa verið af fljúgandi furðuhlutum af hernum og hafa birst í öllum helstu hefðbundnu fjölmiðlum landsins.

Til að bæta enn í gleðskapinn mætti sjálfur Barack Obama í viðtal hjá James Corden og sagði að það væri í fullri alvöru myndbönd og skýrslur um hluti í háloftunum sem við vitum ekki hvað er í raun og veru. Í fréttaskýringu New York Times kemur svo fram 3. júní sl. að jafnvel helsti óvinur okkar álhattanna, veðurblöðrur, geti ekki útskýrt myndböndin eða vitnisburð herflugmannana.

Eftir þessar fréttir var komin vonarglæta að fullnaðarsigur væri að hafast á efasemdarmönnum, og jafnvel stutt í að koma opinberlega fram sem einn af þeim sem hafa séð í gegnum moðreykinn og jafnvel mátt þola bágt fyrir. Allur sá tími sem hefur verið vel nýttur frá fyrsta þættinum af X-files til dagsins í dag þegar sannleikurinn birtist loksins á óskýrum Youtube myndböndum.

Eftir langan vinnudag var hægt að læðast inn á kontór, opna nýjan incognito glugga og jafnvel sleppa sólgleraugunum í þetta skipti. Meðan leitað var að helstu hermönnum sannleikans á djúpinu á Youtube, komu upp hugmyndir um hvernig sigurveislunni yrði háttað. Margir Liverpool aðdáendur bíða enn eftir opnu rútunni sem Sóli Hólm, sjálfskipaður en óumdeildur leiðtogi samfélagsins mun standa fyrir þegar Covid leyfir. Hver skyldi verða Sóli Hólm okkar álhattanna? Þó maður hafi ekki sáð mikið í þessari baráttu væri sjálfsagt að nýta tækifærið og njóta ávaxtanna og ganga með öðrum sannleiksleitendum með brjóstkassann úti meðan okkar Sóli Hólm ávarpar fjöldann á sólríkum sumardegi á Skólavörðustíg.

Allar hugmyndir um slíka sigurveislu lentu þá á vegg. Okkar helstu menn í þessu fræðum á Youtube, voru hreint ekki sigurreifir, heldur áhyggjufullir og jafnvel pirraðir. Ástæðan, af hverju skyldu yfirvöld vera að birta þessar upplýsingar núna. Hvað eru þau að reyna að fela? Á að reyna að villa okkur sýn gagnvart einhverju leynilegu makki með að segja okkur frá fljúgandi furðuhlutum, sem hefur þó verið þeirra helsta baráttumál síðustu áratugi? Þá var ljóst að það verður aldrei nein sigurhátíð. Álhattarnir munu aldrei halda neina veislu. Þá er bara að leysa næsta mál, sannleikurinn er þarna úti. 

Latest posts by Vignir Hafþórsson (see all)

Vignir Hafþórsson skrifar

Vignir hóf að skrifa á Deigluna í október 2009.