Deildin „okkar“

Nú fer hið íslenska fótboltasumar að byrja með pompi og prakt. Því fylgir venju samkvæmt spár um gengi liðanna, leikmannahópar eru krufnir til mergjar, veikleikar og styrkleikar kortlagðir af helstu sparkspekingum og hinn gallharði stuðningsmaður bíður í eftirvæntingu með misraunhæfar vonir um gegni síns liðs. En umfjöllun um íslenska knattspyrnu fylgir gjarnan umfjöllun um fjölda erlendra leikmanna og sjaldnast er hún jákvæð, oft hlutlaust en stundum jafnvel neikvæð hvort sem það er með vilja gert eður ei. Ég leyfi mér að efast um að orð eins og „útlendingahersveitin“ eða „gámurinn er ekki kominn“ séu af jákvæðum meiði.

Ágæti þess að spila knattspyrnu utan heimalandsins virðist fara eftir því hvort um sé að ræða Íslending sem heldur utan eða hvort það sé erlendur leikmaður sem kemur til Íslands að spila knattspyrnu. Það er almennt talið mjög jákvætt hversu margir íslenskir leikmenn hafa haldið utan í atvinnumennsku en þegar erlendir leikmenn koma hingað til lands virðist viðhorfið oft vera hið gagnstæða. Þeir séu hér á kostnað innlendra leikmanna og komi í veg fyrir að íslenskir, sérstaklega yngri leikmenn, fái þau tækifæri sem þeir þurfa til að ná árangri sem knattspyrnumenn, svona í takt við „they took our jobs“ hugsunarháttinn.

Öllu opnara viðhorf væri að líta til þess hversu jákvæð áhrif erlendir leikmenn geta haft á þá leikmenn sem fyrir eru og þá jafnvel sérstaklega þá yngri. Margir erlendir leikmenn sem komið hafa hingað til lands hafa sett mikinn svip á íslenska knattspyrnu, hafa verið brautryðjendur, komið með nýjar áherslur og miðlað þekkingu sinni til annarra. Þá er það eitt að spila með og/eða gegn sér sterkari leikmönnum almennt talið leikmönnum til góðs.

Sumir erlendir leikmenn staldra við í stuttan tíma en margir þeirra hafa sest að hér á landi til lengri tíma og jafnvel orðið íslenskir ríkisborgarar. Vegna þess að þeir bera nöfn sem augljóslega eiga rætur sínar að rekja til annarra landa eru þeir þó jafnan áfram kallaðir erlendir leikmenn. Menn eins og Luka Kostic, Milan Jankovic, Zoran Milijkovic, Salih Heimir Porca og Ejub Pursievic sem komu hingað í árunum í kringum Bosníu stríðið höfðu allir mikil áhrif sem leikmenn og svo síðar sem þjálfarar hér á landi. Í seinni tíð hafa svo leikmenn eins og Dean Martin, Scott Ramsey, Paul McShane, Matt Garner, Ian Jeffs, Tommy Nielsen o.fl. orðið óaðskiljanlegur hluti af íslenskri knattspyrnu.

Sá árangur sem náðst hefur í íslenskri knattspyrnu gefur ekki til kynna að erlendir leikmenn hafi haft slæm áhrif hér á landi. Fjöldi íslenskra leikmanna í atvinnumennsku er í hámarki, A- landslið karla er í 38. sæti heimslistans og A-landslið kvenna er í 20. sæti, þrátt fyrir að Íslands sé á meðal fámennustu þjóðum heims. Árangur síðasta árs var jafnframt einn sá besti í sögunni en A- landslið karla komst í umspil um sæti á HM í Brasilíu, A- landslið kvenna komst í 8-liða úrslit á EM í Svíþjóð, flest öll yngri landslið komust upp úr sínum riðlum í undankeppni EM og Evrópuævintýri Stjörnunnar tók ekki enda fyrr en þeir mættu Internazionale á San Siro.

Ég held við ættum því frekar að vera spennt fyrir „gámnum“ því hann styrkir deildina, setur skemmtilegan svip á hana, eykur fjölbreytni og gefur íslenskum liðum tækifæri á því að þróast og ná betri árangri. Því ber að fagna í stað þess að gagnrýna áður en innihaldið er skoðað og bara er litið á upprunamerkinguna.

Latest posts by María Guðjónsdóttir (see all)

María Guðjónsdóttir skrifar

María hóf að skrifa í Deigluna í júlí 2008.