Stríðið við lífsviljann

Það er stríð í Miðausturlöndum. UNHCR metur að 10 milljónir manna séu á flótta undan átökunum í Sýrlandi. Sumir hafa flúið innan Sýrlands. Sumir hafa reynt að flýja til nágrannaríkjanna. Sumir reyna að flýja til Evrópu.

Líkt og Hans Rosling bendir á í nýlegu myndbandi er sú kvöð lögð á flugfélög að þau gangi úr skugga um að þeir sem fljúgi til Evrópu hafi til þess leyfi. Ellegar þurfi þau sjálf að borga fyrir að fljúga þeim til baka. Flóttamenn komast því ekki í gegnum innritun. Flóttamennirnir þurfa því að fara með skipum einhverra smyglara yfir Miðjarðarhafið. Margir drukkna á leiðinni.

Nú keppast allir við hneykslast á því hversu miklir fokkings fávitar þessir smyglarar eru. Nú á að efla landamæraeftirlit og “setja smyglurunum stríð á hendur.” En eru smyglarnir vandamálið? Er það virkilega? Þeir eru, þrátt fyrir allt, að reyna að leysa vanda þessa fólks, vissulega gegn greiðslu, en samt.

Margir þeirra sem skutu skjólhúsi yfir gyðinga í síðari heimsstyrjöld gerðu það gegn gjaldi. Dönsku sjómennirnir sem fluttu, eða á maður að segja “smygluðu”, gyðingum til Svíþjóðar gerðu það oftast gegn greiðslu. Ef Svíarnir hefðu þá valið að “efla landamæragæslu” og “segja smyglurunum stríð á hendur” hvernig hefði sagan dæmt þá?

Fólk vill ekki deyja. Margir eru til að borga fyrir að deyja ekki. Margir eru til í að borga fyrir að búa þar sem er friður. Þess vegna er til fólk sem sérhæfir sig í því að smygla fólki til Vesturlanda. Og eftir því sem maður les eru þessir sérstöku ferðaþjónustuaðilar alltaf að verða betri og betri, þeir falsa skjöl, leigja rútur, redda gistingum, fylgjast með lögum hverju landi, segja skjólstæðingum sínum hvað þeir eigi að segja þegar þeir mæta á staðinn og svo framvegis.

Auðvitað eru þetta allt glæpamenn. Sumir segja að gróðinn sé notaður til að fjármagna hryðjuverk. Það minnir óneitanlega á orðræðuna um erlent niðurhal. Það kann að vera satt en skiptir í raun ekki máli. Ef þú bannar hlut sem feiknamarkaður er fyrir munu glæpamenn sjá um þjónustuna.

Viðbrögð Evrópu eru, hagfræðilega séð, þau að auka kostnað smyglaranna. Það verða fleiri gæsluskip og menn ætla að fara að skjóta á skip vondu smyglarana. Þetta mun sem sagt auka áhættu þeirra sem flytja fólkið, sjómennirnir munu vilja fá meira borgað. Skip munu oftar tapast. Þessum aukna kostnaði munu “fyrirtækin” reyna að velta út í verðlagið. Á endanum munu smyglarnir bara græða meira en áður. Eins gerðist í stríðinu gegn eiturlyfjum. Nákvæmlega eins.

Leiðin til að vinna stríðið við smyglarana er að bjóða betur. Ef fólk mun þurfa að velja milli þess að kaupa flugmiða í báðar áttir, samtals á 800 evrur eða sæti í bát fyrir 1000 evrur þá mun það velja flugið. Viljum við að skilríkjalaust fólk hætti að borga 2000 evrur fyrir fölsuð skilríki? Búum sjálf til lögleg ferðaskilríki fyrir fólk á flótta og rukkum minna. Einhverjum finnst kannski að þetta væri “uppgjöf” og við réðum ekki við afleiðingarnar. Ég held að það sé ekki þannig. Ef Vesturlönd tækju við milljón sýrlenskum flóttamönnum í hlutfalli við íbúafjölda hvers lands þá þyrfti Ísland að taka við 300.

Það er til skets af tveimur þýskum hermönnum í síðari heimsstyrjöldinni sem fara að velta þvi fyrir sér hvort þeir séu kannski vondu karlarnir. Við mættum kannski hugleiða þetta aðeins. Fólk sem vill ekki deyja leggur á sig hættulegt ferðalag og það sem okkur helst dettur í hug er hvernig við getum gert þessa einu leið enn torfærari. Við erum ekki að hugsa um hvernig við gætum bjargað fleirum. Í Schindler’s List værum við ekki Schindler. Og hver værum við þá?

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.