Tveir möguleikar í stöðunni

Fyrir tveimur árum gerði ég merkilega uppgötvun sem leysti úr mörgum álitaefnum sem alla jafnan sækja á mann.

Fyrir tveimur árum gerði ég merkilega uppgötvun sem leysti úr mörgum álitaefnum sem alla jafnan sækja á mann. Við þekkjum flest að standa frammi fyrir því að taka ákvarðanir út frá líkum. Það getur verið allt frá því að meta líkur á rigningu þegar til stendur að hengja út þvott yfir í meta líkur á verðbólgu þegar til stendur að taka verðtryggt lán.

Hin merka uppgötvun, sem ég gerði í samráði við Þórlind vin minn, fólst í því að annað hvort gerðist eitthvað eða það gerðist ekki. Annað hvort fór að rigna eða ekki. Annað hvort fór verðbólan af stað eða ekki. Af því hlaut auðvitað að leiða að helmingslíkur væru á öllu, fifty-fifty reglan. Og af því leiddi auðvitað að tilgangslaust væri að velta fyrir sér líkum við ákvarðanatöku. Annað hvort gerist eitthvað eða ekki.

Ég var nokkuð sáttur við þessa afgreiðslu á líkindareikningi og kunni vel við þá hugarró sem henni fylgdi, jafnvel þótt að innst inni hafi ég vitað að hún væri í strangasta skilningi ekki í samræmi við grundvallarreglur rökfræðinnar.

Ég hef líka verið að styrkjast í trúnni síðustu daga. Fleiri virðast vera farnir að tileinka sér þetta viðhorf. Ekki ómerkari maður en Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði, fangar viðhorfið sannarlega glæsilega í nýlegu viðtal við mbl.is í tilefni af jarðhræringum á Reykjanesi:

„Það eru tveir mögu­leik­ar; að það verði ekki gos eða að það verði gos. Meðan kvik­an og gang­ur­inn er að lengj­ast í suður verðum við að vera viðbúin því að það geti farið að gjósa en það er ekk­ert víst.“

Lífið er auðvitað miklu viðráðanlegra þegar við áttum okkur á því að annað hvort gerist eitthvað eða það gerist ekki.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.